14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Mig langar til þess að fara fáum orðum um frv., meðfram vegna þess, að það er æðimargt, bæði í frv. sjálfu og athugasemdunum við það, sem gefur ranga meiningu, ef ekki er skýrt betur.

Hæstv. forsrh. hefir haldið því fram hjer í dag, að frv. væri komið fram í sparnaðarskyni. En nú vill svo til, að fyrir nokkrum árum var í þessari hv. deild drepið samskonar frv. um breyting á stjórnarskránni, og að það voru flokksbræður hæstv. forsrh., sem stóðu fyrir því drápi. Á nú að skilja þetta frv. svo, að þeim hafi snúist hugur í málinu?

Jeg get ekki komist hjá því að minnast á gang þessa máls hjer í hv. deild áður. Það voru borin fram tvö breytingafrv. við stjórnarskrána á þingi 1924; annað þeirra bar fyrverandi yfirmaður hæstv. ráðh. (JÞ), Jón heitinn Magnússon forsætisráðherra, fram, en jeg hitt. Þessa vil jeg geta, vegna þess, að frá þessu er ekki nákvæmlega skýrt í aths. við þetta frv. Þegar þau frv. komu til nefndar, þá kom það fyrst og fremst til greina, hvort leggja ætti áherslu á aðalatriðið eða hin smærri atriði. Mitt frv. fór fram á það, sem er aðalatriði málsins, að þing væri aðeins háð annaðhvert ár, og jeg bauðst til þess fyrir mitt leyti að fallast á frv. fyrverandi forsætisráðherra Jóns Magnússonar, ef hann vildi falla frá nokkrum miður heppilegum aukaatriðum. En við það var ekki komandi, og stuðningsmenn hans vildu halda fast í þá breytingu, að ráðherra yrði ekki nema einn. En það sýndi best, hvern skrípaleik hjer var verið að leika, að sami maður, sem bar frv. fram, myndaði á því sama þingi þriggja manna stjórn, þó að fordæmi væri fyrir, að lögum samkvæmt mátti komast af með tvo. Þá voru fylgismenn hans ekki meiri sparnaðarmenn en svo, að þeir krossbrutu þær reglur, sem yfirmaður þeirra vildi koma á.

Það er rangt skýrt frá í aths. við frv. þetta, þar sem það er gefið í skyn, að ráðherrafækkunin hafi orðið þess valdandi, að ekki náðist samkomulag um málið. (Forsrh. JÞ: Það var árið 1923 í hv. Nd.). Það var annað atriði, sem um var deilt, atriði, sem hæstv. stjórn hefir nú tekið upp í þetta frv., að takmarka kosningarrjettinn með því að lengja kjörtímabilið upp í 6 ár. Þetta er fjarri allri sanngirni, og til sannindamerkis um það, hvert álit aðrar þjóðir hafa á þessu atriði, vil jeg geta þess, að í Noregi, þar sem mentun kjósenda og flokkaskifting er svipuð og hjer, er kjörtímabilið aðeins 3 ár, og dettur þó engum þar í hug að lengja það.

Frv. þetta sýnir það, að hæstv. stjórn sjer nú, að ekki er lengur hægt að leika þann skollaleik að krefjast þess, að einn sje ráðherra hjer. En hins gætir hún ekki, að ef það er lögum samkvæmt nú að hafa tvo ráðherra, þá hefir það líka verið lögum samkvæmt 1924. Og sú röksemdafærsla, er hæstv. forsrh. bar fram áðan um þetta atriði málsins, þætti hvergi frambærileg nú á tímum, nema þá í Lithauen, hjá Mussolini eða Primo de Rivera. Jeg skal nú skýra það, hverja þýðingu þetta hefir hjer á landi.

Hæstv. forsrh. veit það vel, með hvaða herkjubrögðum flokkur hans vann við síðustu kosningar á Ísafirði og Seyðisfirði. Á Seyðisfirði voru það veikir menn og ósjálfbjarga, sem rjeðu úrslitum, en um kosninguna á Ísafirði vil jeg sem minst tala. Þó skal jeg geta þess, að almenningur hefir víst aldrei búist við öðrum eins kosningaúrslitum þar, og er íhaldið síst öfundsvert af slíkum sigrum. Árið 1924 tekst Íhaldsflokknum að koma sínum manni að með eins atkvæðis mun, að því er kallað var, en við kosningar þar í bænum á undan og eftir hefir Íhaldið verið í vonlausum minni hluta. Hæstv. stjórn lítur því sjálfsagt svo á, að málstaður sinn sje svo vaxinn, að best sje að hafa sem lengst á milli kosninga. (Forsrh. JÞ: Er hv. þingmaður búinn að gleyma seinustu kosningum?). Nei, jeg hefi ekki gleymt þeim kosningum, er farið hafa fram á 5 stöðum þessa seinustu daga. Alstaðar hefir flokkur hæstv. stjórnar beðið ósigur, og svo rækilega á Siglufirði, að þar kom hann engum manni að, þótt þrír væru í kjöri. Nei, það er sannarlega engin önnur ástæða fyrir lengingu kjörtímabilsins en sú, að íhaldið óskar, að dómsdagur sje sem sjaldnast. Enda verð jeg að segja það, að þá fer lítt eftir málstað, ef hæstv. núverandi forsrh. verður borinn út úr þinginu á gullstóli eftir þetta kjörtímabil.

Hæstv. forsrh. veit það vel, að í þinginu hafa menn óbeit á öðru eins afturhaldi og farið er fram á með þessu frv. En hann hefir eflaust hugsað sem svo: Þótt við dræpum stjórnarskrárbreytinguna seinast, þá skulum við koma þessu í gegn nú. Kjósendur eru svo vitlausir, að þeir líta aðeins á skollaleikinn 1927, en hafa gleymt skollaleiknum 1924.

Það kemur stundum fram í blöðum hæstv. stjórnar, að ekki megi „kritisera“ ráðherrana, en ef hæstv. forsrh. ætlast til þess, að nokkur maður taki mark á þessu, þá verður hann þó að minsta kosti að breyta öðruvísi en svo, að verkin verði versta fordæmingin á hann.

Eins og jeg drap á áðan, þá er það gefið í skyn í aths. við frv., að ákvæðin um ráðherrafækkun hafi steypt fyrri frv. til stjórnarskrárbreytinga, og að Framsókn hafi átt sök á því. En hvað gerðu Íhaldsmenn? Þegar Íhaldsmaður bar fram samskonar frv. 1924, þá láta þeir suma sína menn samþykkja breytingar á því, en drepa svo frv. vegna þeirra breytinga. Jeg hygg, að það væri ekki úr vegi, að hæstv. forsrh. skýrði þetta atriði betur fyrir munn sinna flokksmanna. Hugsanlegt er, að flokksmenn hans hafi þannig lagaða samvisku út af þessu máli, að þeir óski ekki eftir að gefa skýringu sjálfir.

Jeg ætla þá að fara fáeinum orðum um þessa stjórnarskrá eins og hún hjer liggur fyrir.

Það, sem vakir fyrir hæstv. stjórn, annað en að leika sjer með málið og búa til úr því kosningaefni, gleymandi sinni fortíð, það er að haga breytingunni þannig, að verði hún samþ., þá hafi flokkur hennar gagn af því. Hún er ekkert að hugsa um hag landsins af breytingunni.

Jeg ætla að finna þessum orðum mínum stað. Jeg er áður búinn að útskýra það, að enginn flokkur er hræddur við stutt kjörtímabil nema Íhaldsflokkurinn. Það hefir enginn annar flokkur óskað eftir slíkri breytingu. En það er gagn flokksins, sem miðað er við. En viðvíkjandi breytingunni á landskjörskosningu, þá tel jeg enga ástæðu til að stofna til kosningar eins þingmanns, eins og gert var síðastl. haust. Þar tel jeg galla á núgildandi stjórnarskrá. Um þetta atriði geta engar deilur orðið. En þegar kemur að hinu, að lengja kjörtímabil okkar, sem eigum nú sem stendur að fara með landskjörsumboðið þangað til árið 1930, um eitt ár, en fella niður umboð hinna, sem kosnir voru síðastl. vor, þá skilur maður, hvar fiskur liggur undir steini. Ekki geri jeg ráð fyrir, að hæstv. stjórn sje út af fyrir sig svo hughaldið að lengja mitt kjörtímabil um eitt ár; og þótt jeg geti skoðað það sem „kompliment“ frá hæstv. stjórn, þá þakka jeg það nú samt ekki; því að jeg býst við, að jeg komist inn á þing á öðrum snærum en stjórnarinnar, meðan jeg yfirleitt óska að sitja á þingi. Jeg get ekki sjeð, að það sje forsvaranlegt að fara að rugla í landskjörinu yfirleitt, aðeins til þess að Íhaldið geti trygt sjer sín tvö atkv. árinu lengur. Þegar þess er gætt, að annar þessara manna hefir lýst því hreinskilnislega yfir, að hann væri dvergur í landsmálum, þá sje jeg ekki annað en að það sje móðgun við kjósendur að fara að breyta stjórnarskránni, þó að slíkur þingmaður hafi slysast inn í stórhríðinni, — svo að umboðið verði lengra en núgildandi lög ætlast til.

En þetta er ekki nóg. Stjórnin ætlar sjer meira í flokksins þágu. Hún gerir sjer vonir um þann möguleika, að með því að kjósa alla 6 þm. í einu, kunni hún að græða 1 þingsæti. Slíkur útreikningur er alveg óhæfilegur viðkomandi stjórnarskrá eins lands. Það er eins og þegar vissir menn unnu að því að fella krónuna til þess að bjarga sjer sjálfum í bili; eða þá þegar aðrir síngjarnir menn eru að reyna að hækka krónuna, enda þótt heildin líði við það, — bara að þeir hafi persónulega hagnað af því. Slíkur útreikningur er til minkunar þeim flokki, sem gerir hann.

Hæstv. forsrh. láðist ennfremur að geta þess, að svo framarlega sem nokkru landskjöri verður haldið, þá breytir þessi till., sem hjer um ræðir, grundvelli þess. Ætlast er til þess, að landskjörið myndi einskonar kjölfestu í þingskútunni. Og það er einmitt með því, að umboð þeirra falli ekki niður við upplausn þings og að hafa kjörtímabil þeirra lengra. Þannig verður nokkur hluti þingsins óháður stjórninni á hverjum tíma. Og það er nokkurs virði. Það má kalla hæstv. forsrh. umrótsmann í stjórnarskránni. Það er verið með þessu lagi að hagga alveg stjórnarskrárgrundvellinum í landinu.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um kostnaðinn við kjörsóknirnar. Því er til að svara, að sá kostnaður er ekki ýkjamikill, borið saman við ýmsan annan kostnað, sem borgarar verða að þola. Tökum til dæmis það ástand, sem er hjer í fjármálatíð núverandi hæstv. ráðh., þegar skattur á hvert nef — gamalmennisins og barnsins í vöggu — hefir verið frá 120 kr. og upp í 160 kr. á ári. Á þeim tíma, sem skatturinn er 160 kr. á nef, verður samkv. þeim reikningi 10 manna fjölskylda að borga 1200–1500 kr. í skatt til ríkisins á hverju ári. Á 4 árum verða það 5–6 þús. kr., sem þing og stjórn fer með frá þessari einu fjölskyldu. En svo ætlar hæstv. ráðh. að vera svo nærgætinn og elskulegur við þetta fólk, sem afhendir þingi og stjórn á þessu kjörtímabili frá 5–6 þús. kr., sem það hefir unnið sjer með súrum sveita, að hlífa því við að fara á kjörstað á 4 ára fresti. Kjósendur, sem verða að bera svo þunga byrði, hljóta að láta sig miklu skifta, hvernig farið er með fje það, er þeir leggja til. Getur það hugsast, að hæstv. forsrh. hafi ekki vit á, hvílík fjarstæða það er, að kjósendur landsins, sem píndir eru með drepandi sköttum, láti sig muna að fara á kjörstað einu sinni á 4 árum? Ef hæstv. stjórn sýndi það í stjórn á fjármálum landsins, að hún elskaði þegnana og lækkaði hina níðþungu skatta á hverri fjölskyldu, þá væri vel. En það er ómögulegt að segja, að svo sje nú. Hún er að hugsa um gróða íhaldsins með þessu, og ekkert annað. Þá vil jeg benda á það, að hjer í Reykjavík er það mjög erfiðislítið fyrir Íhaldskjósendur að komast á kjörstað, og raunar alstaðar þar, sem íhaldið hefir fylgi yfirleitt. Þeir hafa hjer, að því er mig minnir, þetta 50 bíla í gangi á hverjum kjördegi. Jeg tala nú ekki um önnur eins fríðindi eins og þegar vinnukonurnar dreymir um það, að frambjóðendur komi og bjóði þeim 50 krónur fyrir atkvæðið, eins og á Akureyri við síðustu kosningar.

Hvernig sem maður lítur á þetta frá sparnaðarins sjónarmiði, þá held jeg, að skíni á eyrun út um ljónshúðina.

Jeg vonast til, að þegar hæstv. forsrh. fer að verja sitt mál við þessa umr. eða seinna og gera skiljanlegt fyrir hv. deild og kjósendum landsins, að eitthvert vit sje í því að böglast með allar þessar afturhaldsumbúðir utan um þá einu eftirsóttu breytingu, þinghald annaðhvert ár, þá gleymi hann ekki að útskýra það, hvernig hann gat þolað við síðan 1924 og hafa ekki komið þessu í framkvæmd, ef hann hefir brunnið af vandlætingu við þá, sem drápu frv. þá. Hafi einhver skollinn verið kominn í þetta frv. fyrir tilverknað Framsóknarmanna efri deildar, þá mátti laga það í neðri deild aftur. Jeg vona, að hann reyni ekki að komast í kringum það, hverjir drápu frv. 1924 og hverjir sýndu viðleitni til að koma því í lag. Vitaskuld hvílir ábyrgðin á þeim, sem voru í stjórn, og þeim, sem mynduðu meiri hluta í Ed.

Út af því, sem hv. 5. landsk. (JBald) sagði, vil jeg taka það fram í viðbót við það, sem jeg áður sagði, að ásökunin, sem hann kastaði í garð Framsóknarmanna, er sannarlega ástæðulaus. Ef sá hv. þm. vildi kynna sjer meðferð málsins á þingi 1924, myndi hann sjá, að hvað eftir annað var það tekið fram í skjölum málsins og í umræðum, að við Framsóknarmenn værum reiðubúnir að vinna með andstæðingum okkar, ef þeir vildu snúa sjer að aðalatriði málsins einu saman.

Einnig vil jeg benda hv. þm. á annað dæmi, sem sannar glögt aðstöðu þessara stóru flokka þingsins. Það kom einmitt fyrir þá sömu þingmenn, sem hjer ræðir um. Árið 1924 lagði jeg til að fækka dómendum í hæstarjetti. Þá snýst þáverandi foringi Íhaldsflokksins, Jón heitinn Magnússon, öndverður á móti. Málið var drepið. En árið eftir kemur þessi sami maður með frv. mitt aftur. Ef við Framsóknarmenn hefðum lagt það í vana okkar að vera með skollaleik í málum, þá hefðum við átt að verða á móti honum í þessu máli, vegna fortíðar hans um þann sparnað. En við veittum okkar hjálp, og þessi maður, sem nú er dáinn, og Framsóknarmenn komu málinu í gegn. Ekki verður sagt, að hann væri studdur eins af sínum mönnum í Nd. Þar komu hrekkir og mótblástur til greina. Það kvað svo ramt að, að hver einasti Framsóknarmaður þar var með því, en hinir reyndu, hver sem betur gat, að eyðileggja málið fyrir flokksforinga sínum.

Jeg er hræddur um, að ef ásökun hv. 5. landsk. er rjett um stóru flokkana, þá sje flokkur hans ekki heilagur í þessu efni, því að einmitt nú í dag er útbýtt afarmikilli stjórnarskrá, sem einn af samherjum hv. 5. landsk. ber fram, þar sem þjóðinni er lofað öllu mögulegu, gífurlegri fækkun þingmanna, sparnaði o. s. frv.

Jeg vil þá að lokum taka fram, að jeg óska eftir svari frá hæstv. forsrh. Jeg vil bjóða honum að styðja hann til þess að koma fram aðalatriðunum í þessu frv. Það er sjálfsagt að gera þá leiðrjettingu, að varamenn þeirra landskjörnu taki sæti, svo sem hjer er farið fram á. Hæstv. ráðh. þarf hinsvegar að falla frá þeim afturhaldskendu aukaatriðum, sem hann hefir látið fylgja. Og á það vil jeg benda, að það getur varla orkað tvímælis, að ef Íhaldsflokkurinn vill ekki þiggja slíka aðstoð frá okkur andstæðingum, og ef á að neita okkar stuðningi, eins og 1924, vegna þess að Íhaldsflokkurinn vill koma að sínum sjerhagsmunum, þá verður ábyrgðin að vera á Íhaldsflokknum. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. sje svo skynsamur, að hann taki það til greina, að Framsóknarflokkurinn vill ekki taka þátt í þeim skollaleik, sem fór fram 1924, þegar Íhaldsflokkurinn ber fram stjórnarskrá og drepur á sama þingi. En ef svo skyldi fara, að hæstv. ráðh. geti ekki felt sig við annað en þær breytingar, sem hann telur nauðsynlegar, þá getur hann ekki áfelt aðra þingmenn, þó þeir sætti sig ekki við málspjöll í stórmálum.

Mjer er kunnugt um, að það hefir komið fram á síðustu missirum mjög merkileg tillaga, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir rætt í sínum átthögum. Myndi ef til vill rjett að taka þá till. upp í frumvarpi. Hygg jeg, að framkvæmd hennar yrði æskilegri sparnaður heldur en sá, sem hjer er farið fram á. Sparnaðurinn er í því fólginn, að fjárlögin komi aðeins til umræðu í sameinuðu þingi. Jeg fer ekki út í þetta hjer, en læt aðeins hv. deild vita af þessu. Sparast myndi líklega hjer um bil 1/3 af þingtímanum, sem leiðir af því, að fjárlögin þyrftu ekki að hrekjast milli deilda. Afstaða efri deildar til fjárlaganna er þannig, að krafa um þetta fyrirkomulag er rjettmæt. Efri deild hefir oftast lítil eða engin áhrif á fjárlög landsins, meðal annars vegna þess, að í venjulegum kringumstæðum hefir fjvn. þeirrar deildar ekkert að segja fyr en búið er að samþykkja fjárlagafrv. í Nd. eftir 3 umræður. Og þá eru fjárlögin hespuð af á sem stystum tíma að mögulegt er.

En þetta nær ekki til allra mála. Ed. hefir „veto“-rjett engu síður en hin deildin. En úr því að meðferð efri deildar á fjárlögum hefir lítið að segja, en þetta fyrirkomulag tefur þingið nálega um þá býst jeg við, að tillaga þessi sje orð í tíma talað. Það verður hinsvegar ósamrýmanlegt við að hafa þing annaðhvert ár. En sparnaðurinn verður meiri en leiðir af þinghaldi annaðhvert ár út af fyrir sig. Gæti verið, að mönnum fyndist við nánari athugun, að sá sparnaður yrði happasælli.