15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Jeg bjóst nú aldrei við því, hvorki að hæstv. forsrh. (JÞ) nje fyrirsvarsmenn Framsóknarflokksins myndu fallast á það, sem jeg sagði um markmið þeirra með brtt. þeim, sem þeir hafa borið fram við stjórnarskrána á undanförnum árum. En þeir, sem hafa hlýtt á þær umr., sem hjer fóru fram í gær, hafa sennilega getað getið sjer til, hvernig sambandið milli þeirra hafi verið á undanförnum þingum, því að það hefir verið mjög svipað eins og það er nú milli hv. 1. landsk. og hæstv. forsrh.

Jeg ætla aðeins að svara hæstv. forsrh. viðvíkjandi því atriði, sem hann vildi afsaka með aðferð sinna flokksmanna. Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út, sem brtt. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) væru líka einskonar leikaraskapur. En það er dálítið annað að leggja fram till., sem menn árum saman hafa lýst yfir fylgi við, eða að leggja fram tillögur, sem menn hafa áður sýnt, að þeir vildu gera alt til að hindra, að gengju fram. Og það er enginn vafi á því, ef þær breytingar hv. þm. (HjV) eru bornar saman við stjfrv., og ef þær ná fram að ganga, þá eru það stórkostlegar rjettarbætur fyrir almenning, því að með stjfrv. er verið að minka rjett þjóðarinnar, — eða skyldi það ekki vera rjettarbætur, borið saman við það, sem nú er, að 7000 kjósendur fá einn þingmann, en aðrir 7000 kjósendur fá 11 þingmenn? Skyldi ekki vera munur á því, sem hjer á að reyna að gera, að fjarlægja áhrif kjósendanna á þingið, eða breyta því ranglæti, sem flaut á eins atkvæðis mun inn í stjórnarskrána 1920, að svifta menn kosningarrjetti, ef þeir af óviðráðanlegum ástæðum þyrftu opinberan styrk? Þessi stjórnarskrárbreyting, sem hjer liggur fyrir, gengur sem sagt alveg í íhaldsáttina, og þeir flokkar, sem stuðla að því að koma slíku fram, gera sig bera að fylgi við íhaldsstefnu. Það er síður en svo, að það sje sambærilegt það frv., sem hjer kemur frá Alþýðuflokknum, og þær breytingar, sem stjórnarflokkurinn hefir verið með á undanförnum árum. Þetta fellur líka að sumu leyti saman við það, sem hv. 1. landsk. talaði um í gær, þar sem hann mintist á að spara þingtímann með því að hafa langan undirbúningstíma, og það mundi líka spara tíma að hafa aðeins eina málstofu; en fyrir mjer er það ekki aðalatriðið að spara þingkostnaðinn, heldur það, að öll þjóðin fái að taka þátt í störfum þingsins að rjettu hlutfalli, en ekki að fá hundruð kjósenda í sumum kjördæmum fái jafnmikil áhrif og jafnmörg þúsund í öðrum.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. forsrh. Það er víst alveg rjett hjá honum að láta ekki koma við neinni samvinnu um breytingar á stjórnarskránni; þykir mjer það vel farið, því að jeg get ekki sjeð, að frá hæstv. ráðh. komi annað en það, sem jeg verð að telja alveg óhafandi. En svo vil jeg víkja nokkrum orðum að því atriði, sem er aðalatriðið í frv., því, að hafa þing annaðhvert ár. Það sjá allir, hvernig það verður að gera fjárlögin svo úr garði, að sæmilegt sje, tveim árum áður en þau koma til framkvæmda. Hæstv. ráðh. hefir fundið þessa veilu og verið að reyna að afsaka hana með því, að það væri meiri sparnaður, ef þingið þyrfti ekki að koma saman á hverju ári til þess að fjalla um fjárlögin, en það getur eins vel verið, að það verði mesti ósparnaður að því. Hugsum oss, að dýrtíðin í landinu breyttist til hins verra á þeim tveim árum, er fjárlögin eru samin fyrir; hugsum oss t. d., að laun starfsmanna ríkisins hækkuðu upp úr öllu valdi. Hvað ætti þá að gera? Þá er ekkert þing, sem hægt er að kalla til, til þess að gera ráðstafanir gegn þessu með nýjum tekjufrumvörpum eða til að reyna að vinna á móti sveiflunni í fjármálunum, og þótt nokkuð sje liðið frá stríðinu, þá er þó svo langt frá því, að menn sjeu komnir á fastan grundvöll. Og eftir þeim frjettum, sem daglega berast, virðist svo sem menn geti aldrei vitað, hvenær ófriðareldurinn getur blossað upp aftur, og auk þess geta þær byltingar orðið í þjóðlífinu, er ekki er hægt að sjá fyrir, svo að frá sparnaðarsjónarmiði getur þetta ekki kallast rjett; það getur einmitt orðið mörgum miljónum dýrara fyrir það eitt, að þingið ekki kemur saman og að geta ekki fylgst með því, sem gerist, því að það getur orðið of seint að kalla saman aukaþing. Það má t. d. benda á það, að á stríðsárunum varð íslenska þjóðin og þingið of seint á sjer að taka peninga í ríkissjóð. Það voru látin líða hjá mörg ár, áður en þingið fór að hugsa um að ná fje með gróðaskatti í ríkissjóð, alveg eins og hann þyrfti þess ekki með; en vjer höfum nú fengið að kenna á því. Nú standa krepputímar yfir, svo að það er ekki ástæða til að gera þær breytingar á stjórnarskránni, að þingið sje aðeins látið koma saman á tveggja ára fresti, sá aðili, sem að rjettu lagi á að ráða fram úr vandamálunum, og svo einhverjum tveimur eða kannske þremur herrum uppi í stjórnarráði falið að skera úr öllu upp á eigin ábyrgð, sem þó reynist altaf einskis virði.

Við að athuga Alþt. frá 1919 sje jeg, að fyrv. forsætisráðherra, Jón Magnússon, hefir þá talið, að enginn gæti verið á móti því að hafa þing á hverju ári, því að það hefði verið svo síðan um aldamót, og taldi sjálfsagt að breyta stjórnarskránni í það horf, sem nú er.

Hæstv. ráðh. (JÞ) hefir ekki fundið ástæðu til að gera brtt. um neitt, sem hann vill koma fram um tölu ráðherranna, en tekur fram í aths. frv., að það muni hægt að framfylgja því án þess að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar. En jeg verð að telja það ákaflega hæpið að vera þannig að toga og teygja stjórnarskrána, þótt langt sje gengið í því að teygja almenn lög, og þó að í hv. Nd. hafi einu sinni verið feldur úrskurður um það, að sú till., er hæstv. ráðh. nefndi, mætti komast að, þá sagði forseti Nd. einmitt, að sá úrskurður væri mjög hæpinn. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp þau orð, er forseti Nd. sagði við það tækifæri (Alþt. 1922, D, d. 235):

„Skal jeg þó kannast við, að orka muni tvímælis, hvort þessi úrskurður sje eigi of vægur, samkvæmt orðalagi fyrnefndra lagagreina og skýring þeirri, sem felst í athugasemd stjórnarinnar við frumvarp til núgildandi stjórnarskrár. Og eigi vildi jeg alls kostar synja fyrir, að landsdómur kynni að vera svo skipaður, að hann sakfeldi stjórn, er rjeði konungi til þess að staðfesta slík ákvæði, sem í till. felast, sakir þess, að of nærri gengi stjórnarskránni“.

Þannig sjer maður, hve ákaflega veikur þessi úrskurður forseta hefir þá verið, og ef hæstv. ráðh. og stjórnin vildu ekki altaf vera að teygja stjórnarskrána eins og hrátt skinn, þá mundi hún hafa komið með þessa brtt. um ráðherrana, ef hún hefði ekki viljað láta þetta atriði vera svona óljóst og óákveðið.

Hæstv. ráðh. var ákaflega drýldinn, þegar hann var að svara mjer því, að núverandi ráðherrar tækju ekki laun þriggja ráðherra. En það minkaði þó dálítið, þegar hann sagði, að þeir tækju þó meira en laun tveggja; þeir tækju hálf laun þriðja ráðherrans líka, svo að mjer skilst, að sparnaðurinn verði ekki ákaflega mikill. Svo er það viðvíkjandi 28. gr. stjórnarskrárinnar og breytingum þeim, er felast í frv. stjórnarinnar um þetta, þá held jeg, að hæstv. ráðh. hafi ekki skilið það rjett, hvers vegna kosningar voru látnar fara fram síðastliðið haust; jeg hefi að minsta kosti heyrt alla halda því fram, að það hafi verið vegna þess, að það voru ótvíræð fyrirmæli kosningalaganna fyrir því, að kosning á landskjörnum þingmanni skyldi fara fram, þegar svo er ástatt eins og þá var, að aðalmaður og varamaður voru báðir fallnir frá. Að mínu viti þarf því ekki annað en að gera einfalda breytingu á kosningalögunum til þess að varamenn taki sæti í þeirri röð, sem þeir hafa verið kosnir á landslista. Orðalag 28. gr. stjórnarskrárinnar er alls ekki því til fyrirstöðu að slíka lagabreytingu megi gera. Ástæðurnar fyrir þessari breytingu á stjórnarskránni eru því ekki mikils virði.

En það er eitt, sem gengið hefir í gegnum þessar umræður, og að nokkru leyti um frv. líka; það er þessi vörn í kringum árið 1930. Það er eins og eitthvert dularfult afl sveimi í kringum það ártal, eða eins og hæstv. ráðh. (JÞ) sje að reyna að tryggja umboð íhaldsmanna á þingi fram yfir það ár. Hann vill endilega lengja kjörtímabil þeirra fram yfir það ár, og jafnvel vinna það til að taka hv. 1. landsk. með, og það kalla jeg meira en lítið til unnið frá sjónarmiði hæstv. ráðh. Og það er fleira, sem ber vott um, að það er ákaflega mikið „spekulerað“ í árinu 1930. Í einu stjfrv. er ákvæði, sem sagt er, að sje alveg miðað við árið 1930. Það er í bankafrv., þar sem verið er að hefta einn af núverandi og fyrverandi stjórnmálamönnum landsins í því að taka þátt í stjórnmálum eftirleiðis, og menn segja, að það sje gert til þess, að hann geti ekki kept um virðingar- og valdastöður á því ári, svo að maður sjer, að það er nokkuð langt gengið í því að verja virðingar og völd sín þetta ár. Og jeg hefi líka heyrt, að það sje ákaflega illa við það, ef stjórnin væri þá ekki úr flokki íhaldsmanna, ef þessir svokölluðu stjórnarandstæðingar yrðu þá í meiri hluta, því að þá mundu þeir vafalaust láta núverandi forseta sameinaðs Alþingis „repræsentera“ á hátíðahöldunum 1930, en þeir Íhaldsmenn eru sagðir ekki glaðir í huga, ef sá maður ætti þá slík völd. Það er nú alveg af og frá, að hæstv. forsrh. vilji neinar kosningar hafa fyrir hátíðahöldin, en getur þó gengið inn á að láta kosningar fara fram haustið 1930.

Ef eitthvað í þessa áttina, sem jeg nú hefi minst á, vakir fyrir hæstv. stjórn, þá álít jeg því minni ástæðu til að búast við, að nokkuð gott leiði af þessu frv., því að það er þá orðið svo mikið tildur, að það verður að teljast einskis virði. En svo að jeg víki aftur að þeim hrossakaupum eða þeim leikaraskap, sem jeg gat um, að hefði verið milli Íhaldsflokksins og Framsóknarflokksins á nokkrum þingum um breytingu á stjórnarskránni, þá vil jeg vitna í umræðurnar í gær, þegar hv. 1. landsk., eftir að hafa vikið nokkrum vel völdum orðum að hæstv. forsrh., bauð honum það til sátta að vera með þeirri breytingu, að þing væri haldið annaðhvert ár, ef hann aftur á móti vildi falla frá öðrum grunsamlegum brtt. sínum, en hæstv. forsrh. var þá ekki sáttfúsari en svo, að hann sló á þá hönd, sem fram var rjett, og þykir mjer það benda á, að hjer eigi að halda áfram sama leiknum og á fyrri þingum: að þykjast vera sammála í aðalatriðunum, en finna svo einhver aukaatriði, til þess að geta drepið málið hvor fyrir öðrum. Þetta finst mjer hafa komið fram í ræðum þeirra hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk., sem töluðu hvor úr sínum flokki. Hv. 4. landsk. (MK) kom alveg hreint fram, en það finst mjer, að verði alls ekki sagt um hina tvo hv. þm., sem talað hafa um þetta mál.