15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Jónsson:

Þótt jeg kveðji mjer hljóðs í þessu máli, er það ekki til að styðja þá nývenju, sem á seinni árum er farin að tíðkast á Alþingi, að 1. umr. mála sje ekki lokið á einum degi. Jeg játa raunar, að þetta mál sje þess vert að vera Vel rætt, en jeg hefi sjeð, að að undanförnu hefir þessi nýbreytni oft verið höfð að óþörfu, og þykir mjer illa á henni fara. Mjer virðist svo, sem þessar málalengingar hafi einkum stuðst við þrent. Fyrst endurtekningar á ræðum frá fyrri þingum, þá löngun til að tala, og loks löngun til að hártoga og rangfæra annara orð. — Sje þetta rjett á litið, væri betur að vera laus við þessar aðfarir, og að þeim vil jeg ekki styðja.

En það er í raun og veru ekki undarlegt, þótt miklar umræður verði um svo stórt mál sem það, er hjer liggur fyrir. Það er sannarlega enginn leikur að breyta stjórnarskránni. Vandleg íhugun er því nauðsynleg, hvenær sem út í það er farið.

Í þessu frv. sýnist mjer, að einkum sjeu tvö atriði, er miklu máli skifta, breyting kjörtímabilsins og þing annaðhvert ár. Bæði þessi atriði held jeg, að þjóðinni sjeu kærkomin. — Það er mikilsvert, ef hægt er að kjósa landskjörna þm. um leið og aðra. Það sparar meira en fáar mínútur, svo sem heyra var á hv. 5. landsk. (JBald), í hrepp, sem er 50–60 km. á lengd, að þurfa ekki að fara á kjörstað, einkum þegar minst er stórhríðanna, sem hv. 1. landsk. (JJ) dró hjer ófyrirsynju og að orsakalausu inn í umr. í gær. Það geta orðið meira en fáar mínútur og meira en einn dagur, sem menn tefjast af þessu, ef kjósa þarf í tvö skifti, þar sem eitt er nægilegt. Og fyrst þetta á að komast í framkvæmd, þarf auðvitað að ákveða breyting á kjörtíma nokkurra hv. þm. En það ákvæði hefir verið hártogað að gangi. Það á eingöngu að hafa hag Íhaldsmanna fyrir augum. Eins og hæstv. forsrh. (JÞ) upplýsti, leiðir það af þessu, að kjörtímabil hv. 1. landsk. lengist um eitt ár, en kjörtímabil hæstv. ráðh. styttist um 3 ár. Ekki þykir mjer mikið vinnandi til, að þetta geti orðið. En hinir 4 þm., sem þetta hefir áhrif á, eru úr þrem flokkum, og verður ekki annað sagt en að þetta skiftist jafnt niður á þá flokka, er þeir teljast til. Hvernig sem jeg velti þessu við, fæ jeg enga ástæðu sjeð til að vera því samþykkur, að hjer sje um að ræða eigingirni hjá Íhaldsflokknum. Jeg verð því að vera þessu atriði hlyntur, svo að hægt sje að sameina þessar tvennar kosningar. Það er bæði til sparnaðar og hægðarauka, og kjósendur eiga þá enn betra með að neyta kosningarrjettar síns.

Hitt aðalatriðið, sem hjer ræðir um, er fækkun þinga. Jeg er þess fullviss, að þjóðin vill þetta. En sú löngun veit jeg, að orsakast ekki síst af því, hve þingin eru nú orðin löng. Nærri því alstaðar þar, sem jeg hefi komið og átt tal við kjósendur, hefi jeg fyrst og fremst orðið var við óánægju þeirra út af lengd þingtímans. Ef nokkurt ráð fyndist til þess að stytta hann, mundu menn fegnir vilja það, og þá heldur sætta sig við þing á hverju ári. En þessi er ástæðan til þess, að svo mikil löngun er til að koma á þinghaldi annaðhvert ár aftur. — Þegar þetta komst á, átti jeg heima hjer á Alþingi, og man jeg, að ein sterkasta ástæðan, sem fyrir þessu var færð, var, að fjárlögin yrðu hægari í meðförum og að eðlilegt væri, að ríkið hefði reikninga til eins árs eins og önnur fyrirtæki. Auk þess var því haldið fram, að við þetta yrðu þingin styttri, og verð jeg að játa, að þá lagði jeg nokkurn trúnað á, að svo mundi fara. — Á tímabilinu frá 1912 –’20 var þing raunar haldið á hverju ári, og í gær kom í ljós hjá hæstv. forsrh., að varla mætti vænta þess, að þing fjelli niður hjeðan af fyrr en eftir 1931. Þess vegna virðist mjer svo, sem ekki sje knýjandi nauðsyn að tefja þetta þing með umr. um stjórnarskrárbreytingu. En þegar farið er að breyta stjórnarskránni á annað borð, er nauðsynlegt að íhuga vandlega allar breytingar, sem þörf er á að gera, og koma þeim síðan öllum fram í einu lagi. — Í gær munu allir hafa orðið varir við, að útbýtt var í þinginu ákaflega víðtækum brtt. við stjórnarskrána, frá hv. þm. nokkrum í Nd. Ef nokkuð til muna kæmist fram af þeim, held jeg, að óhætt væri að hætta að tala um stjórnarskrá, og mætti nefna hana Bolsaskrá í staðinn. Í því frv. er ekkert til bóta, að því er mjer virðist, og vil jeg kalla það með öllu óhæft. Því verður hjer að ræða um stjfrv. eitt, án þess að hafa hitt einu sinni bak við eyrað um leið. Enda er það alls ekki hjer til umræðu.

Jeg vil því endurtaka það, sem jeg sagði, að jeg er hlyntur þeim tveim ákvæðum, sem jeg hefi um talað, en jeg er í vafa um, hvort hjer er tekið með alt það, sem þörf er á að breyta, fyrst hróflað er við stjórnarskránni á annað borð. En „tími er til alls undir sólinni“, segir gamalt máltæki, og enn er tími til að koma með fleiri tillögur á þessu þingi, ef hv. þm. þykir ástæða til.

En á því er enginn efi, að þessi tvö atriði eru mjög þörf og þjóðinni kær, enda þótt varla sjáist, að knýjandi þörf sje á að koma þeim fram á þessu þingi.