15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þó að ræða hv. 5. landsk. (JBald) snerti hjer um bil eingöngu einstök atriði frv. og ætti því heima við 2. umr. málsins betur en við 1. umr., vil jeg svara henni að nokkru. Vænti jeg, að mjer leyfist að fara einnig ögn inn á hin einstöku atriði.

Það er svo að segja eina mótbáran gegn því að hafa fjárlagaþing annaðhvert ár, að erfitt muni að semja fjárlögin fyrirfram um tvö ár. Eins og nú er ástatt, er þessi mótbára ekki mikils virði. Nú má heita“ að fjárlögin sjeu sett hjer um bil 11/2 ári fyrirfram, því að sá tími er frá því að fjárlagafrv. er samið til miðs tímabils þess, er það gildir fyrir. Svo löngu áður er ómögulegt að hafa hugmynd um ástand atvinnuveganna á því ári, sem fjárlögin eiga að gilda fyrir. Á þessu verður því engin breyting, þó að fjárlög verði sett til tveggja ára. Þó vil jeg ekki þar með segja, að þetta sje æskilegt að öllu leyti, og ef þjóðin vildi hafa fjárlög á hverju ári, þá mætti kannske færa samningu þeirra og þann tíma, er þau eiga að gilda fyrir, ögn nær hvort öðru. En eins og stendur, kemur mótbára þessi alls ekki til greina.

Þá nefndi hv. 5. landsk. það sem aðra mótbáru, að undir breytilegum fjárhagsástæðum geti oft komið fyrir, að kveðja þurfi saman aukaþing til að samþykkja ný skattafrv. vegna hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. — Þetta er alveg rjett hjá hv. þm., en enginn hlutur verður hægari fyrir landsstjórnina heldur en að gera þetta, ef frv. er samþykt. — Það var dálítið óheppilegt dæmi, sem hv. 5. landsk. valdi máli sínu til sönnunar, ástandið hjer á stríðsárunum. Þá fóru útgjöld ríkissjóðs hækkandi, og hv. þm. þótti þingið hafa verið of seint á sjer að hækka skattana. En kom þá ekki þing saman á hverju ári? (JBald: Annars hefðu tekjuaukarnir komið helmingi seinna). Jeg er ekki viss um nema þetta fari eins vel, þótt þing sje annaðhvert ár, því að þá hvílir meiri ábyrgð á stjórninni, er hún á sjálf að ráða, hvenær aukaþing er kallað saman. En nú er alment litið svo á, að ábyrgðin hvíli að mestu leyti á þinginu um það, hversu fer um fjárhag landsins. Án þess að jeg vilji ásaka nokkurn, verð jeg að segja, að þegar jeg lít yfir liðna tímann, virðist mjer sem hið slæma ástand, er stundum hefir verið, stafi a. m. k. meðfram af dreifingu ábyrgðarinnar milli þings og stjórnar.

Ráðherrafækkunin er útrætt mál af minni hálfu meðan ekki liggur fyrir nein brtt. í þá átt. Þó skal jeg geta þess, að í umræðunum hefir verið blandað saman tveim óskildum atriðum: hvort tveir menn gegna ráðherrastörfum og hvort ráðherraembættin eru tvö eða þrjú. Nú eru aðeins 2 ráðherrar, en embættin eru þar fyrir þrjú, og þess vegna sparast ekki nema hálf ráðherralaun.

Út af ummælum hv. 5. landsk. um, að óþarft sje að breyta 28. gr. um varamennina, get jeg bent honum á, að bandamaður hans, hv. 1. landsk. (JJ), hefir haldið því fram, að óhjákvæmilegt sje að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar um þetta, ef breyta eigi fyrirkomulaginu á annað borð. Jeg er þessu alveg sammála hjá hv. þm., og get bætt því við, að það, að afráðið var í sumar, eftir nákvæma athugun, að láta kosningar fram fara í haust, stafaði engu síður af ákvæðum stjórnarskrárinnar en kosningalaganna.

Þegar hv. 5. landsk. var búinn með þessar athugasemdir, þótti honum ekki nóg komið og fór að semja skáldsögu. Verður ekki annað sagt en að hann tæki sjer ágætt yrkisefni: árið 1930 með öllum þess hátíðahöldum. En alt, sem hann sagði í því sambandi um þetta frv. og annað frv., sem liggur fyrir þessari hv. deild, er til orðið í hans eigin höfði. Mun jeg engar tilraunir gera til að spilla ánægju hans af þessum hugarsmíðum.

Hv. 1. landsk. var óánægður með svarræðu mína í gær. Get jeg ekki tekið honum það illa upp. Seinna í ræðu sinni kom hann að því, sem jeg hafði sett ofan í við hann fyrir í gær, orðbragðið. Það gladdi mig að sjá, að áminningar mínar höfðu borið góðan ávöxt, því að öll ræða hv. þm. gekk út á að reyna að afsaka framferði hans. Get jeg ekki annað en látið mjer vel lynda þá tilfinningu, sem mjer hefir tekist að vekja í brjósti hans.

Svo að jeg komi að þeim atriðum, sem hv. 1. landsk. talaði um og málinu komu við, þá var það fyrst, að hann benti á, að af þessu myndi fyrst um sinn leiða litla þingafækkun. Jeg hafði bent á þetta áður, og hv. 2. þm. Rang. (EJ) tók í sama streng. Þegar stjórnarskrárbreyting er samþ. á síðasta þingi kjörtímabils og fer fram á, að fjárlagaþing verði aðeins annaðhvert ár, þá eiga að fara fram kosningar, og verði stjórnarskrárbreytingarnar þá aftur samþyktar, hafa þær loks náð fram að ganga. Nú lít jeg svo á, að á sama þingi og stjórnarskrárbreyting er samþykt til fullnaðar (sem í þessu tilfelli ætti að verða þingið 1928), sje ekki hægt að gera fjárlög nema til hins næsta árs. Er bersýnilegt, að stjórnin getur ekki undirbúið frv. til fjárlaga eftir öðrum reglum en þeim, sem gildi hafa. Þess vegna yrði þingið 1929 að samþykkja fyrstu fjárlög til tveggja ára. Og árið 1930 geri jeg ráð fyrir, að allir sjeu sammála um að hafa þinghald vegna afmælishátíðarinnar. Er bersýnilegt, að þessir örðugleikar koma til greina, hvenær sem slík stjórnarskrárbreyting verður samþykt, og ætti þetta því ekki að hamla mönnum frá að samþ. frv.

Ákvæðið um, að fjárlagaþinghaldi annaðhvert ár megi breyta með einföldum lögum, er eitt af þeim atriðum, sem stjórnin hefir tekið upp í frv. til samkomulags. Hún álítur, að í þessu frv. sjeu slíkar rjettarbætur fólgnar, að sjálfsagt hafi verið að beygja sig fyrir þessu ákvæði, sem sett var í frv. í Nd. árið 1923. Annars er stjórninni ósárt um þetta atriði.

Þá hreyfði 1. landsk. því, hvort ekki mætti ákveða, að landskjör færi fram 1929, alveg eins vel og 1931. En eins og frv. er úr garði gert, nær það ekki einvörðungu til landskjörs. Jeg vil vekja athygli hv. þd. á því, að ákveðið er, að almennar kosningar eigi fram að fara á sama tíma. Ef hans uppástunga næði fram að ganga, þá yrði líka að ákveða, hvenær almennar kosningar skuli fram fara.

Sje meiningin sú, að færa kosningar til ársins 1929, þá þýðir það sama sem, að kosningar þær, sem fram eiga að fara í ár, gilda aðeins til tveggja ára. En það sýnist ekki rjett að stofna til þessa, því að samkvæmt núgildandi reglum eiga næstu almennar kosningar að gilda til fjögurra ára. Sú uppástunga, er frv. þetta, er hjer liggur fyrir, felur í sjer, að láta kosningarnar gilda til fjögurra ára, er því í samræmi við núgildandi stjórnarskrá og í alla staði sanngjörn, og þá yrðu næstu almennar kosningar árið 1931, eins og í frv. stendur. Við þetta var miðað, þá er frv. var samið, en ekki við flokkshagsmuni. Hitt hefði mátt segja, að þar sem frv. þetta fer fram á að lengja kjörtímabilið upp í 6 ár, þá hefði það ákvæði átt að gilda um kosningarnar 1927, svo að það kjör næði til 6 ára. Þetta þótti stjórninni þó ekki rjett, enda hefði afleiðingin orðið sú, að lengst hefði um 3 ár kjörtímabil þeirra landskjörinna þingmanna þriggja, er kosnir voru 1922, eða þeirra, er kosnir voru í þeirra stað.

Hv. 1. landsk. reyndi að vekja hjer upp umræður um stjórnarskrármálið frá 1924. Sjerstaklega var það eitt atriði, er hann mintist á, sem jeg þarf að leiðrjetta, sem sje, að frv., sem þá var felt, hafi verið nær samhljóða þessu frv. En þetta er fjarri öllu lagi. Frv. 1924, sem var felt með hjer um bil jöfnum atkvæðum, fól í sjer afnám landskjörsins. Þó ekki væri annar munur á frv. en þessi, þá væri geysimikil fjarstæða að halda því fram, að frv. væru samhljóða, og verður þó enn meiri fjarstæða, er þess er gætt, að í eldra frv. var margt annað, sem ekki var samhljóða því, er í þessu frv. stendur.

Þá er að minnast á lengingu kjörtímabilsins enn betur. Hv. 1. landsk. sagði, að þjóðin væri ekki of góð til að leggja á sig þann kostnað, sem fylgdi því, að kosningar færu fram 4. hvert ár. Þjóðin væri svo þjáð af skattaálögum hvort sem væri. En þessi hugsanagangur hans leiðir beint til þess að ofbjóða mönnum með gjöldum. Hann hugsar eins og svo margir aðrir, að það muni ekkert um, þótt bætt sje þessum og þessum kostnaði á þjóðina, en þeir gá ekki að hinu, að safnast þegar saman kemur og að af þessum hugsanagangi leiðir ofsköttun og ekkert annað.

Hv. 1. landsk. hefir ekki minst á það, að nú er ekki kosið 4. hvert ár, heldur að meðaltali 2. hvert ár, vegna tvennskonar kosninga. Kosningarnar falla raunar sem stendur þannig, að kosið er tvö ár hvort á eftir öðru, og svo líða tvö ár án kosninga, en ávalt verður þó að kjósa tvisvar á hverjum 4 árum eftir núverandi tilhögun. Slíka tilhögun, eða svo tíðar kosningar, þekki jeg ekki annarsstaðar.

Jeg veit, að það er rjett hjá hv. 2. þm. Rang., að þjóðin vill kippa þessu í lag, t. d. með því að láta hvorartveggja kosningar fara saman. Spurningin er þá sú, hvort kjósa á 4. eða 6. hvert ár. Það er að vísu rjett, að meðalkjörtímabil lengist með því að taka 6 ára tímatakmarkið, en það rjettlætist af þeirri hugsun frv., að þing skuli ekki haldið nema annaðhvert ár og að allir þingmenn skuli kosnir til þriggja þinga.

Þegar menn halda því nú fram, að kjörtímabil eigi ekki að vera nema 4 ár, og halda því fast fram, þrátt fyrir það, þótt gert sje ráð fyrir, að þing sje ekki háð nema annaðhvert ár, þá hlýtur að liggja þar á bak við sú hugsun, að heimildin til þingafækkunar verði ekki notuð og þing verði látið koma oftar saman en annaðhvert ár. En þessir menn ættu að hugsa sig vel um, áður en þeir eru á móti umbótum, sem eru þarfar að dómi þeirra manna, er vilja fara bil beggja og færa saman til 6 ára kjörtíma allra þingmanna.

Þá mun engu verulegu ósvarað af því, er hv. 1. landsk. sagði um málið. Skal jeg því ekki að svo stöddu auka skemtun manna með því að fara út í þær hugleiðingar, sem eru málinu óviðkomandi. En jeg þakka þó gullhamra hans, svo sem þá, er hann eignaði mjer svo fagra dygð sem lítillæti, er jeg tel með bestu mannkostum. Þetta hefði þó glatt mig enn meira, ef jeg hefði ekki jafnframt þóst finna, að ástæðan var sú hjá hv. þm., að koma með samanburð á mjer og háttv. 6. landsk. (JKr) og reyna í þeim samanburði að tylla sjálfum sjer stigi ofar en hv. 6. landsk., því að það sýndi ekkert lítillæti af hans hálfu. Jeg þykist vita, að hv. 6. landsk. eigi víðtækara fylgi hjá þjóðinni en jeg, og þykir sómi að því að vera settur honum hærra, en jeg get ekki felt mig við það, er hv. 1. landsk. þykist standa ofar hv. 6. landsk.