15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Það kom í ljós í ræðu hv. 2. þm. Rang. (EJ), að hann tekur ekki þetta frv. alvarlega, og svo mun vera um samherja hans yfirleitt.

Aftur á móti hygg jeg, að „heili heilanna“, sem svo var nefndur af einum íhaldsmanni, muni ekki vera í sem bestu ástandi nú sem stendur, hafi hann tekið ummæli mín í gær svo, að jeg sje óánægður með ræðu hans þá, enda hefi jeg beint því að honum, að sjálfsásökun hans þá hafi verið rjettmæt. Og hitt skjöplast honum, að jeg hafi nokkuð að afsaka fyrir mína hönd. Aðrir hafa afsökunarþörf, þeir, er standa að þeim úrskurði, er hjer var feldur þvert ofan í þingsköp.

Hæstv. stjórn gerir ráð fyrir því, að þó aðalatriði frv. þessa verði samþ., komi það ekki til framkvæmda fyr en eftir 1930. Mjer finst undarlegt, að hæstv. stjórn skuli ekki hafa sömu skoðun á þessu máli og hv. 2. þm. Rang., að sje miklu breytt, verði að taka fleiri atriði til athugunar. Jeg skal hjer nefna tvö atriði, sem jeg býst við, að brtt. komi um við 2. umr., að dómarar og bankastjórar sjeu ekki kjörgengir.

Eitt blöskrar mjer og, að menn skuli enn ekki hafa áttað sig á því, að sá kjördagur, sem nú er, er óhafandi. Það hefði verið heiðarlegt að koma fram með till. um færslu hans, því að það mun einstakt, að í nokkru siðuðu landi sje kjördagur á þeim tíma árs, er krap, snjór og frost getur gert mönnum ómögulegt að sækja kjörfund. Í þess stað er það beinlínis meiningin í frv. að færa landskjör frá þolanlegum degi yfir á hinn kjördaginn, sem reyndist ófær í haust.

Þá er að minnast á lítillæti hæstv. forsrh. Það gleður mig að heyra þá skoðun hans, að hann telur lítillæti fara sjer vel. En því miður verð jeg að geta þess, að lítillætið býr ekki í honum sjálfum. (Forsrh. JÞ: Ætlar hv. þm. að taka aftur það, sem hann sagði áður?). Nei, en hitt er annað mál, að það er þungbær reynsla, sem hann hefir fengið nú að síðustu, að lenda í minni hluta í hv. Nd. og að forsetakosning gekk svo hrapallega á móti honum. Jeg hygg, að hæstv. forsrh. fari nú bráðum að sjá, að úr því hann taldi það sjer og sínum flokksmönnum að þakka hjer á árunum, að þorskurinn lagðist að landinu, þá ætti óáran sú, sem nú stendur yfir, og yfirvofandi fjárhagshrun, að benda til þess, að lítillæti hæfði ráðherranum best.