15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3329 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Það er aðeins stutt athugasemd viðvíkjandi samningu fjárlagafrv. fyrir 2 ár. Hæstv. stjórn hefir ekki komið fram með neina brtt. um það að flytja þingtímann fram á sumarmánuðina heldur er gert ráð fyrir því, að þing komi saman í febrúar, eins og verið hefir. Hjer er því gert erfiðara fyrir en áður um fjárlagaáætlunina.

Það er ólíku saman að jafna nú og áður, er alt var í föstum skorðum og menn gátu sjeð fyrirfram, hvað verða mundi. Nú vitum við, að stórbreytingar verða á öllu árlega, og þær snerta bæði fjárhag ríkis og einstaklinga.

Eins og jeg hefi oft tekið fram áður, tel jeg óforsvaranlegt að leggja það í hendur 2–3 ráðherra að gefa út bráðabirgðalög um fjárhagsmálin. En ef stjórnin jafnt eftir sem áður, þrátt fyrir frv. þetta þótt að lögum verði, kallar saman þing árlega, þá sje jeg ekki betur en þetta sje alt helber leikaraskapur; fyrir utan það, að frv. er rjettarskerðing fyrir þjóðina, ef það verður samþykt.

Hv. 2. þm. Rang. (EJ) kom með nokkrar hugleiðingar um stjórnarskrármálið yfirleitt og virtist andvígur brtt. hæstv. stjórnar. Hann var líka að tala um mælgi í sambandi við málið, en hann má ekki furða sig á því, þótt rætt sje um annað eins stórmál og stjórnarskrárbreytingu. Hann mintist líka á frv. það, er hv. 4. þm. Reykv. (HjV) ber fram í hv. Nd. um breytingar á stjórnarskránni. Býst jeg við, að hann hafi valið því það ljótasta nafn, er hann kunni, er hann nefndi það Bolsaskrá, en hjer hrekkur nú enginn við, þótt hann heyri slík nöfn. Menn hjer eru ekki eins hræddir eins og sagt er um einn kjósanda í kjördæmi hv. þm. (EJ), er var á báðum áttum um það, hvern kjósa skyldi við kosninguna síðustu, en snerist er honum var sagt, að ef hann yrði ekki með Íhaldinu, þá mundu Bolsar koma og taka alt hangikjötið úr eldhúsinu hjá honum.

Hv. þm. bjóst ekki við því, að neinn þm. mundi greiða stjórnarskrárfrv. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) atkvæði; en þó gerði hann ráð fyrir því að taka það frv. rækilega í gegn, þegar það kæmi til umræðu. En frv. getur nú ekki orðið hjer til umr. nema því aðeins, að fleiri en einn og fleiri en tveir þm. verði með því í Nd.; það getur sem sje alls ekki komið hjer til umræðu nema hv. Nd. samþykki frv., og vona jeg, að ef á annað borð verða gerðar breytingar á stjórnarskránni, þá verði það það frv., sem nær samþ. þingsins, en ekki frv. stjórnarinnar.