25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka háttv. meiri hl. stjórnarskrárnefndar fyrir afgreiðslu hans á þessu frv. Við það, sem hv. form. nefndarinnar (JóhJóh) sagði um ástæðurnar fyrir þeim breytingum á stjórnarskránni, sem stjfrv. felur í sjer, hefi jeg engu að bæta. En út af orðum hv. frsm. minni hl. (IP) vildi jeg segja nokkur orð. Hann sagði, að af hálfu minni hl. hefðu verið gerðar tilraunir til samkomulags í nefndinni, en að meiri hl. hefði ekki viljað það. Um það get jeg vitanlega ekkert sagt. En mjer finst það ekki nema eðlilegt, þar sem málið er ekki komið lengra en að það er nú til 2. umr. hjer í þessari hv. deild, að hv. þm. vilji láta koma til atkvæða hverja till. eins og þeir óska helst, að hún sje. Það kemur í ljós við atkvgr. í þessari háttv. deild og í hv. Nd., um hvað geti orðið samkomulag, og þá fyrst er kominn tími til þess að tala sig. saman um málið. Hv. frsm. minni hl. kvaðst vera á móti 4. gr. í frv. stjórnarinnar, um það, að allir þingmenn skuli kosnir til 6 ára, og kvað það fela í sjer breytingu á stöðu landskjörinna þingmanna. Hv. frsm. minni hl. fanst vera stigið spor aftur á bak með þessu ákvæði og sagði, að greinin væri skerðing á íhlutunarrjetti kjósenda um það, hvernig þingið væri skipað. Það gat eingöngu verið kjörtímabilið að því er snertir hina kjördæmakosnu þingmenn, sem gaf hv. þm. tilefni til þessara ummæla, því að það má ef til vill til sanns vegar færa, að íhlutunarrjettur kjósenda um þá sje að einhverju leyti skertur með ákvæði 4. gr., þar sem ekki á að spyrja þá um vilja þeirra nema 6. hvert ár, í stað 4. hvert ár nú. En þó tel jeg enga ástæðu fyrir hv. þm. að nota þessi orð. Þó tók út yfir, er hann hjelt því fram, að sú breyting á stöðu landskjörinna þingmanna, sem í frv. stjórnarinnar felst, væri einnig skerðing á kosningarrjetti manna. Það er þvert á móti. Höfuðbreyting stjfrv. á stöðu landskjörinna þingmanna er sú, að þingrof nái einnig til þeirra. Er það öllum ljóst, að með þeirri breytingu fá kjósendur meiri íhlutunarrjett um kosningu þeirra en þeir hafa nú. Þeir hafa hingað til orðið að sætta sig við, að kjörtímabil þessara þingmanna væri 8 ár, — en eftir frv. er það stytt í 6 ár, og gefur það kjósendum kost á því að koma fram vilja sínum oftar en áður um það, hverjir sjeu hinir landskjörnu þingmenn, auk þess sem þeir geta ráðið kosningu þeirra, ef um þingrof er að ræða. Með þessu er kjósendum sýnd meiri viðurkenning á valdi þeirra en nú er gert, með því að hvert þingrof felur í sjer, að þá er valdið lagt í hendur kjósendanna. Þó að svo mætti líta á, að lenging kjörtímabilsins fyrir kjördæmakosna þingmenn upp í 6 ár væri skerðing á íhlutunarrjetti kjósenda, þá er það bætt með því ákvæði, að þingrof nái einnig til landskjörinna þingmanna. Jeg held yfir höfuð, að ekki sje mikið gerandi úr sjónarmiði hv. frsm. minni hl. um það, að með stjfrv. sje verið að taka af kjósendum íhlutunarrjett þeirra, heldur er þvert á móti verið að fá þeim aukið vald í hendur. Jeg vil taka það fram út af afstöðu háttv. frsm., að hvort sem álitið er hentugt, að kjörtímabilið sje 4 eða 6 ár, þá er ekki hægt að halda því fram, að rjett sje að halda þing 2. hvert ár og láta kosningar fara fram jafnoft og þingin eru mörg. Ef ákvæðið um 4 ára kjörtímabilið verður látið standa óbreytt, þá verður þetta svo, ef þing verður aðeins háð 2. hvert ár. Það á sjer ekki stað í nokkru ríki, að kjósendur sjeu kvaddir að kjörborðinu jafnoft og þing á að halda. Jeg held, að það sje ekki holt að vera sífelt að kalla kjósendur á kjörfund og vekja með því allan þann óróa, sem jafnan er samfara kosningum, þó að jeg hinsvegar líti svo á, að það sje holt með hæfilegu millibili, því að kosningar hræra þá upp í því logni, sem legst yfir þjóðina að því er landsmál snertir, ef hún er aldrei spurð um álit sitt. En að ætla að fara að kjósa jafnoft og þing er háð, þýðir hið sama og að stofna til látlausra kosningaæsinga, en það gerir engin þjóð, af þeirri ástæðu, að það er talið of hættulegt fyrir rólega yfirvegun og skynsamlega afgreiðslu á löggjöf þjóðanna.

Hv. minni hl. nefndarinnar hefir lagst á móti 5. gr. stjfrv. Jeg skal játa, að það kom mjer algerlega á óvart. Jeg hjelt, að í því ákvæði frv. fælist sú rjettarbót, sem allir gætu verið sammála um, að girða fyrir, að aukakosning þyrfti að fara fram á einum þingmanni, þegar skipað hefir verið í mörg þingsæti með hlutfallskosningu. Það liggur í eðli hlutfalskosningar, að það þarf við hana varamenn, en hitt væri brot á grundvallarreglu hlutfallskosninga, sem bygð er á því, að ef þingmaður minni hluta fjelli frá, þá gæti að öðrum kosti meirihlutaþingmaður tekið sæti hans. En nú er þetta svo í Reykjavík. Þetta er með öllu órjettlátt, og get jeg ekki skilið í því, að hv. þm. (IP) skuli leggjast á móti því, að við hlutfallskosningar þar skuli einnig kosnir varamenn.

Um nauðsynina á því að breyta stjórnarskrá til þess að komast hjá aukalandskjöri get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem hv. form. stjórnarskrárnefndar (JóhJóh) hefir sagt.

Af ræðu hv. 4. landsk. (MK) skildist mjer, að hann væri á móti stjórnarskrárbreytingum að svo stöddu, og var afstaða hans í alla staði bein og heiðarleg. Um hugsun þá, er hann varpaði fram, að það þyrfti að gera víðtækar breytingar á skipulagi þingsins, mætti margt merkilegt segja, en af því að ekkert liggur frá honum um það efni í till.formi, þá er engin ástæða til þess að ræða það nú.

Um brtt. hv. 2. þm. Rang. (EJ) á þskj. 192 við frv., þar sem farið er fram á það, að ákveðið sje í stjórnarskránni, að ráðherrar skuli vera 2, þá skal jeg taka það fram, að jeg held fast við þá skoðun, sem kemur fram í greinargerð stjórnarinnar fyrir frv., að það þarf ekki stjórnarskrárbreytingu til þess að ákveða, að ráðherrar skuli vera 2. Reynslan er sú frá þingunum 1923–’24, þar sem fram komu till. í þá átt að ákveða með stjórnarskrárbreytingu tölu ráðherra, að þær till. urðu frv. um breytingu á stjórnarskránni í heild sinni að fótakefli. Stjórninni er ant um, að það megi takast nú á þessu þingi að breyta stjórnarskránni í samræmi við óskir þjóðarinnar. Hún vill því ekki ljá lið sitt öðrum brtt. en þeim, sem máli skifta. Hún getur því ekki fylgt till., sem eru allsendis óþarfar, þó að hún í mörgum tilfellum sje ekki mótfallin efni þeirra. — Það hefir aldrei verið svo, síðan ráðherrunum var fjölgað 1917, að tala þeirra væri ákveðin í sjálfri stjórnarskránni. Fram til 1920 gilti það ákvæði, að tala ráðherra skyldi ákveðin með lögum, en eftir núgildandi stjórnarskrá ákveður konungur tölu ráðherra. Ef þinginu er sjerstaklega ant um að nota vald sitt til þess að ákveða tölu ráðherra á hverjum tíma, þá er eðlilegast, að það geri það með venjulegum lögum, en ekki með því að setja um það ákvæði í sjálfa stjórnarskrána.

Um brtt. á þskj. 141, frá hv. þm. Snæf. (HSteins), vildi jeg leyfa mjer að segja nokkur orð, þó að hann hafi ekki mælt fyrir till. enn. Það eru víðtækari breytingar en núverandi stjórn hefir viljað orða, og breytingar, sem, ef dæma má eftir reynslunni frá 1924. mundu valda sundrung og ef til vill verða frv. að fótakefli. Þetta er nægileg ástæða til þess, að stjórnin hefir ekki viljað fara fram á slíkt. Auk þess telur stjórnin, að sú breyting á landskjörinu, sem farið er fram á í frv., sje eðlileg og heppileg úrlausn á þeim annmörkum, sem nú eru á landskjörinu.

Jeg get ekki fundið nema eina ástæðu fyrir því að afnema landskjörið, sem sje sparnað og ýms þægindi, sem leiða mundu af fækkun þingmanna. En eins og till. á þskj. 141 liggur fyrir, tel jeg ekki, að hún feli í sjer neina tryggingu fyrir fækkun þingmanna, nema kannske rjett í bili. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá má breyta tölu þm. með lögum, og jeg er of hræddur um, að sú heimild verði notuð til þess að fjölga þeim aftur upp í þá tölu, sem nú er, til þess að jeg greiði afnámi landskjörsins atkvæði mitt að óbreyttri heimildinni til fjölgunar þingmanna. Aftur á móti gæti verið, að jeg til samkomulags gæti gengið inn á að afnema landskjörið, ef það yrði fastbundið í stjórnarskránni, að tala þm. væri aðeins 36.