25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór Steinsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 141, sem jeg vil leyfa mjer að fara um nokkrum orðum.

Í stjórnarskrárfrumvarpi hæstvirtrar stjórnar eru miklar breytingar, sem jeg tel flestar til bóta. En úr því að farið er að hrófla við stjórnarskránni á annað borð, er ekki nema eðlilegt, að fram komi till. um breytingar á þeim ákvæðum hennar, sem ekki hafa reynst vel, því að stjórnarskrá eins lands á að vera sá helgidómur, sem þingin geti ekki hringlað með aftur og fram, hvenær sem þeim svo sýnist.

Jeg hefði alls ekki flutt brtt. þessar, ef jeg hefði staðið einn um þær; jeg tel mig ekki svo óskeikulan, en jeg er þess fullviss, að að baki þeirra stendur fjöldi kjósenda um alt land.

Upphaflega voru hinir konungkjörnu þm. taldir, og það með rjettu, nokkurskonar kjölfesta í þinginu, því að með fylgi þeirra gat stjórnin oftast trygt sjer valdið í þessari deild. En því var líka haldið fram, og það einnig með nokkrum rjetti, að þeir væru hemill á neðri deild þingsins, því að jafnaðarlega voru ekki valdir aðrir en vitrir, ráðnir og rosknir stjórnmálamenn í þessar stöður.

Þegar svo landskjörnir þingmenn komu til sögunnar, var því sama haldið fram, og er haldið fram enn, að þeir ættu að vera kjölfesta í þinginu og draga úr ýmsum ágöllum mála frá Nd. En reynslan hefir sýnt, að þetta er ekki rjett, því að þótt í konungkjörnu sætin væru venjulega teknir bestu menn þjóðarinnar, þá hafa í landskjörnu sætin verið kosnir menn upp og niður, hvorki betri nje verri en þeir þjóðkjörnu. Ef þeir landskjörnu væru ein samfeld heild, sem stæði saman, og væru fyrir utan alla pólitíska flokka, þá væri sönnu nær að tala um, að þeir mynduðu festu í þinginu. En það kemur ekki til eins og nú er ástatt, þegar þeir eru allir sitt af hverju sauðahúsi og eru svo sundurleitir í skoðunum, að óhætt mun að fullyrða, að ekkert það mál, sem nokkru hefir skift, hefir verið borið fram í þessari deild síðan 1916, sem hefir haft fylgi þeirra allra. Þeir hafa altaf skifst í flokka eins og hinir þjóðkjörnu og verið hver upp á móti öðrum. Alt þetta tal um festu hinna landskjörnu er því marklaust hjal á engum rökum bygt.

Jeg hefi aðeins heyrt eina frambærilega ástæðu gegn því að afnema landskjörið. Á hana var bent í dag af hv. frsm. meiri hl. (JóhJóh), sem sje þá, að landskjörið gæti að dálitlu leyti bætt úr hinni ranglátu kjördæmaskiftingu. En þetta eru svo litlar umbætur, að það má segja, að það sje eins og „götótt bót á götótt fat“. Úr göllum kjördæmaskiftingarinnar verður aldrei bætt, svo að alment rjettlæti fáist, nema þá því aðeins, að henni verði breytt til stórra muna.

Aðalástæðan fyrir því, að jeg flyt þessar brtt., er sú, að jeg tel fyllilega nægilegt fyrir þjóð, sem ekki hefir fleiri en 100 þús. íbúa, að hafa 36 þm., því að reynslan er margbúin að sýna það og sanna, að fjölmennar ráðssamkomur starfa á engan hátt betur en þær, sem fámennari eru. Og ef kjördæmaskipuninni verður breytt, þá er það mín skoðun, að ekki eigi að breyta henni á öðrum grundvelli en þeim, að þingmennirnir verði ekki fleiri en 36.

Hæstv. forsrh. talaði um, að það væri ósamræmi í till. mínum, að jeg geri ráð fyrir, að breyta megi tölu þm. með einföldum lögum. Þetta gerði jeg með það fyrir augum, að þær ástæður gætu verið fyrir hendi, t. d. svo mikil fólksfjölgun í landinu, að fjölga þyrfti þingmönnum, þó jeg búist við, að ekki komi til þess í bráðina.

Þá er sparnaðarhlið þessa máls ekki svo lítilvæg. Um hana er jeg ekki samdóma hv. 4. landsk. (MK). Hann gerði svo lítið úr kostnaðinum við landskjörið, að allir hinir 6 landskjörnu þm. myndu ekki kosta þjóðina meira en ca. 10 aura á hvert mannsbarn í landinu. Jeg held nú, að ekki þurfi mikinn reikningsmann til þess að sýna honum fram á, að þar skjöplast honum herfilega. Sje nú gert ráð fyrir, að menn þessir eigi heima úti á landi, þá kostar þó þingseta þeirra árlega 14–15 þús., sem sparast myndu við afnám landskjörsins. Þá er ekki óverulegt atriði, hversu mikið kosning þessara manna kostar þjóðina; þannig taldist einum flokksbróður hv. 4. landsk. svo til á þinginu 1924, að kosningaumstangið við að koma aðeins helmingi þeirra á þing myndi kosta þjóðina um 70 þús. kr. Þar yrði því ekki um lítinn sparnað að ræða.

Í þriðja lagi má nefna það, sem umræðurnar styttast, og sparnað þann, sem þar af leiðandi verður á prentunarkostnaði Alþt., því ekki er hægt að halda því beinlínis fram, að þessir þm. þegi altaf á þinginu. Og þó ekki sje gert ráð fyrir meiri mælgi hjá þeim en í meðallagi, — sem jeg skal þó ekkert segja um, að rjett sje áætlað —, þá styttast þó umr. og þingtíminn um sjöunda part. Það verður því nær að áætla kostnaðinn 100 þús. en 10 þús. kr., og þá eru þeir landskjörnu þó altaf orðnir einnar krónu virði á hvert nef í landinu.

Annars skal jeg taka það fram, að þó mjer dyljist ekki, að hagnaðurinn við afnám hinna landsk. þm. sje æðimikill, þá hefði mjer ekki komið til hugar að flytja þessa brtt., ef jeg hefði getað komið auga á nokkuð verulegt gagn af þessu landskjörsfyrirkomulagi. En hjer er ekki um neitt slíkt að ræða.

Hæstv. forsrh. sagði, að eftir reynslunni frá 1924 myndu þessar tillögur mínar vekja sundrung í málinu og verða því að falli. En jeg er ekki viss um það, því að nú eiga margir aðrir sæti í deildinni en áttu þá. En hvað um það. Jeg lít svo á, að þegar maður hefir einhverja fasta og óbifanlega skoðun, þá eigi maður að láta hana koma fram, án tillits til þess, hvort hún sigrar í það skiftið eða ekki. Og þó að þessar till. falli í þetta sinn, þá er jeg viss um, að þær verða bornar fram síðar og sigra þá.

Þá sagði hæstv. ráðh., að brtt. í frv. stjórnarinnar um landskjörið væru eðlilegri en mínar. Jeg játa fúslega, að þær sjeu til dálítilla bóta, en jeg tel langt frá, að þær nái sama tilgangi.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að þetta landskjörsfyrirkomulag sje óþarft, og jeg vænti þess, að landsk. þm., þó að þeir hafi aldrei staðið saman fyr, þá geri þeir það nú og fylki sjer utan um þessar till., til þess að sýna svona rjett fyrir andlátið, að þeir geti þó einu sinni staðið saman. Bættu þeir á þann hátt dálítið úr því festuleysi, sem því miður of oft hefir ríkt meðal þeirra.