25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Jeg þarf ekki að svara miklu þeim háttv. þm., sem síðast settist niður og eiginlega var að gefa í skyn, að áætlun mín um sparnað við þingafækkun myndi ekki vera á miklum rökum bygð. En jeg varð ekki var við, að háttv. þm. kæmi með neinar tölur, sem sönnuðu hið gagnstæða, og jeg hygg líka, að það væri erfitt. En það er eitt, sem mig furðar á hjá þessum meiri háttar sparnaðarmanni, úr því að altaf er verið með breytingar á þessu máli, að þeir skuli ekki koma með brtt. um það, að þingmenn skuli starfa alveg endurgjaldslaust. Það væri virðingarvert, og gæti jeg líklega fylgt henni, því að jeg get ekki sjeð annað en að það sje mjög auðvirðilegt að vera að ala upp í þjóðinni þann hugsunarhátt, að þm. sjeu einmitt auðvirðilegustu sníkjudýrin á landinu, og vera að telja eftir þeim þau smánarlaun, sem þeim eru boðin. Jeg veit, að það eru einstakir þm. sjálfir, sem gera mest að því að ala þennan lúalega hugsunarhátt upp hjá fólki, og svo geta þeir fengið sig til að vera að vitna í þingmálafundargerðir víðsvegar af landinu um þetta.

Svo vildi jeg segja fáein orð út af ræðu hv. þm. Snæf. Við erum að vísu nokkurnveginn sammála um eitt aðalatriðið. Þessi hv. þm. sagði, að hann hefði mesta tilhneigingu til að skoða stjórnarskrána sem nokkurskonar helgidóm, sem ekki ætti altaf að vera að hringla með. Um þetta erum við sammála, en það nær þá ekki öllu lengra; en það er þó altaf rjettara að breyta eitthvað í líkingu við það, sem maður talar. Það á alveg við þennan hv. þm., sem jeg sagði áðan, og jeg vona þá, að hv. þm. verði því fylgjandi, þegar það kemur fram, að þm. starfi endurgjaldslaust. Þessi hv. þm. ljet það mjög ótvírætt í ljós, að enn sem komið er væri ekki hægt að segja það, að það veldust nokkrir hæfileikamenn í landskjörið. Þetta getur náttúrlega verið mjög mikið álitamál, en jeg er nú þeirrar skoðunar, að það hafi ekki tekist svo illa til og að sumir þeirra verði að teljast með fremstu mönnum í landinu. Líti maður t. d. á, að hjer er það flokksmaður hæstv. stjórnar, sem talar, þá finst mjer, að það komi úr hörðustu átt, því að það gæti þó legið í þeim orðum nokkurskonar vantraust til hæstv. forsrh. (JÞ), því að hann hlýtur að taka þetta til sín eins og allir aðrir, og því eru mjer þessi orð hv. þm. óskiljanleg. Mjer datt í hug, að vonleysi lægi á bak við þetta, að þessi hv. þm. gæti ekki gert sjer von um að komast í slíka stöðu. Jeg vil þá minnast á rök hv. þm. fyrir því, að mínir útreikningar sjeu fjarri öllum sanni, hvað sá eiginlegi kostnaður við þessa 6 landskjörnu þingmenn sje mikill. Jeg vil halda því fram — geri ráð fyrir því — að hver þessara 6 manna beri úr býtum hjer um bil 1500 kr. fyrir þingstörf sín, og þar sem 5 þeirra eru búsettir hjer, þarf þeim engan ferðakostnað að reikna. En jeg geri ráð fyrir, að ferðakostnaður hins 6. fari ekki fram úr 600 kr. Þetta er þá ekki fjarri sanni. Og úr því að alt er talið eftir, sem varið er í þarfir þjóðarinnar við þessa stofnun, þá býst jeg við því, að það verði ofan á, sem frv. fer fram á. Verður þá enginn aukakostnaður samfara hinum landskjörnu, er þeir verða kosnir samhliða hinum kjördæmakosnu þingmönnum, svo að kostnaðurinn við hina fyrnefndu fer þá ekki að verða mikill.

En þegar verið er að meta allan þennan kostnað, þá er aldrei minst á það, að nokkurt gagn sje að starfi þessara manna. Jeg veit ekki, til hvers verið er að halda þing, ef alt á að vera gagnslaust, sem þar er gert. En þetta liggur beint við að álykta út frá röksemdaleiðslu hv. þm. Snæf. Jeg skal víkja að því, af hverju jeg álít, að þeir menn, sem hafa haldið því fram, að núverandi fyrirkomulag sje það heppilegasta. Þeir hafa nefnilega komist að þeirri niðurstöðu eftir nákvæma athugun, að það væri mikill kostur, ef ætíð eru á þingi þingvanir menn. Það var því alveg rjett hugsun, sem lá til grundvallar því, að landskjörnu þingmennirnir væru ekki háðir þingrofi, því að svo gæti farið, að væri mikill fjöldi nýrra þingmanna í Nd., að þeir yrðu of framgjarnir og unggæðislegir. Þá væri ekkert lakara, þótt í þessari deild væri einhver fyrirstaða, svo að ekki yrði farið ógætilega.

Annar kostur við landskjörið, sem ekki verður neitað, er, að þeir kjördæmakosnu eru um of bundnir við hin þrengri svið, sem hagsmunir kjósendanna skapa. Með landskjörinu er bætt úr þessu; hinir landskjörnu eru óháðari og geta fremur litið á hag þjóðarinnar í heild heldur en kjördæmakosnu þingmennirnir gera. Því að eðlilegt er, að framkoma þeirra ef til vill mótist nokkuð af hagsmunum kjördæmanna. Þetta er ekki óverulegt atriði.

Jeg skal ekki fara lengra út í þetta. Jeg hefi gert grein fyrir því, að kostnaðaráætlun hv. þm. Snæf. er fjarri öllum sanni. Þetta atriði gerir það að verkum, að jeg get ekki verið sammála honum um, að afturför sje að fyrirkomulagi því, sem nú gildir. Annars skal jeg geta þess, að mig furðar satt að segja ekkert á því, þótt hv. þm. Snæf. hafi borið fram þessa till., því að hún er, eins og frv. í heild sinni. í afturhaldsáttina. Þessi hv. þm. er að mínu áliti sú sannasta mynd af íhaldinu, sem hægt er að hugsa sjer. Jeg skoða þessi ummæli alls ekkert móðgandi fyrir hv. þm. Jeg segi það honum ekki til lasts. (Forsrh. JÞ: Auðvitað til lofs). Látum svo vera, en mjer dettur í hug Þórólfur bægifótur, sem var Snæfellingur, og þá líklega kjósandi hv. þm., hefði hann verið uppi nú. Hann var sæmilegur maður framan af, en fór versnandi með aldrinum, og kvað svo ramt að, að vandræði hlutust af. Þannig er því farið með hv. þm. Snæf. Honum var komið fyrir í forsetastól til þess að þegja, en það hefir ekki reynst tryggilegt. Og hvernig sem frá Þórólfi var gengið, þá kom hann upp aftur. Þetta má auðvitað taka sem spaug, en getur þó verið nokkur alvara. Ef þetta þykir ofmælt, ætla jeg að reyna að færa orðum mínum stað með því að segja, að þessum hv. þm. hafi ekki tekist að hefja kjósendur sína á hátt stig menningarlega, úr því að þeir hafa enn ekki fundið ástæðu til að breyta um þm. Reyndin hefir orðið sú, að þeim hefir ekki þokað mikið áfram á framfarabrautinni, heldur hefir þar ríkt mikil kyrstaða. Og þar sem hv. þm. er þarna mikils ráðandi maður, mun hann eiga að nokkru leyti sök á því.