25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3387 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Það eru aðeins örstuttar athugasemdir, sem jeg vildi gera. — Það fór sem mig grunaði, að hv. þm. Snæf. (HSteins) var ekki lengi að sanna mál mitt. Hann skýrði frá því umsvifalaust, að hann hefði notað óviðurkvæmileg og svívirðileg orð í minn garð. En við höfum nú oft elt grátt silfur saman, og eigum að líkindum enn eftir að gera það. Jeg legg því óhræddur undir dóm þeirra manna, sem þekkja okkur báða, hvor okkar sje meira í samræmi við það, sem sæmilegt má teljast.

Háttv. þm. hefir ekki getað skilið, að líkingin, sem jeg tók, var sett fram í spaugi. En jeg verð nú að segja, að líkingin hefir ekki verið svo afleit. Jeg átti við drápgirni hv. þm. Hann er blóðþyrstur mjög, eins og berlega hefir nú komið fram. Þess vegna hefir líkingin, sem jeg tók, verið hárrjett og alls ekki út í loftið. — Jeg ætla svo ekki að fara meira út í það. Það vill svo vel til, að háttv. þm. hefir sannað það, sem jeg sagði í spaugi. Má jeg því vera ánægður með viðskifti okkar, eins og svo oft áður.