25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3401 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Guðmundur Ólafsson:

Jeg ætlaði að svara hæstv. forsrh., en jeg sje, að hann er ekki við. Jeg verð þó að halda áfram engu að síður. Hann þóttist þurfa að leiðrjetta misskilning hjá mjer. En það var ekki um neinn misskilning frá minni hálfu að ræða. Jeg sagði, að þó að þessar brtt. næðu fram að ganga, þá kæmi sparnaðurinn, sem af því leiddi, ekki fram fyr en 1932. Það mun því vera rjett, sem jeg sagði, að breytingin getur ekki komið að notum fyr en 1932. Jeg get bætt því við, að ef greinin er samþykt með núverandi niðurlagi, þá spáði jeg því, að þessi breyting kæmi aldrei að notum. Hæstv. forsrh. sagði, að þetta ákvæði hefði verið sett inn nú vegna þess, að á þinginu 1923 hefði nefnd í Nd., sem skipuð var öllum flokkum, tekið það upp. En 1924 var því slept, svo mjer finst, að hæstv. ráðh. hefði ekki þurft að leita fram yfir þann tíma til þess að finna þessi ákvæði, hefði honum ekki verið þau kær. Það var ekki ákvæðinu um reglulegt þing annaðhvert ár um að kenna, að stjórnarskrárbreytingin var þá feld. Jeg verð að halda því fram sem áður, að það sýni áhugaleysi hæstv. stjórnar, að láta þetta ákvæði standa í frv.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á ummæli hv. 5. landsk. (JBald). Það var nú víst sumt í þeim, sem jeg ekki skildi. Hann sagði, að hjer væri rifist í þrennu lagi. Hann virðist hafa gleymt sjálfum sjer. Ef hann hefði talið sig með, þá mætti eins segja, að rifist væri í fernu lagi og að þessi háttv. þm. sje þá altaf að rífast við sjálfan sig. (JBald: Jeg rífst við bæði íhöldin!). Hv. þm. er þá ekki haldlaus á meðan. Þá kom háttv. þm. með mjög svo fáránlega útreikninga viðvíkjandi landskjörinu. Hann ljet hv. þm. Snæf. (HSteins) hafa komist svo að orði, að þingseta hinna landskjörnu kostaði 100 þús. kr. árlega. En síðan fann hann það út, að þingkostnaðurinn væri ekki nema 200 þús. kr. á ári, og því gerði hann þá kröfu fyrir hönd þeirra landskjörnu, sem nú eru, að þeir fengju þessar 100 þús. kr. í þingfararkaup. Þetta var nú ljótur misskilningur hjá hv. þm. Hv. þm. Snæf. sagði ekki, að landskjörið kostaði árlega 100 þús. kr., heldur mundi það kosta það þau árin, er landskjör fer fram. (JBald: Þá hefir útreikningurinn verið vitlaus!). Ef útreikningur hv. þm. Snæf. hefir verið vitlaus, þá veit jeg ekki, hvaða orð á að hafa yfir útreikning háttv. 5. landsk. Þá talaði háttv. þm. um að leggja niður messugerðir, hreppsnefndir og dansleiki, til sparnaðar. Já, því verður nú náttúrlega ekki neitað, að það væri töluvert mikill sparnaður að leggja niður messugerðir, en það er of stórt mál til þess að ræða það hjer nú. En að því er snertir danssamkomur, þá hygg jeg, að ekki mundi mikið sparast fyrir ríkissjóð, þó þær yrðu lagðar niður, því að jeg hefi aldrei heyrt, að þær væru kostaðar af ríkinu. Jeg hygg, að hv. þm. hafi orðið svona óskýr í þetta skifti af því að vera altaf af rífast við sjálfan sig.