30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Fyrsta brtt. minni hl., sem nú hefir verið gerð grein fyrir, stendur í sambandi við hinar brtt., þannig, að þær síðari eru fylgifiskar hennar. Þykir mjer því rjett að gera grein fyrir afstöðu minni.

Jeg viðurkenni, að minni hl. hefir nú komið á móts við stjfrv. um lagfæringu á landskjörinu, og hv. fram. sagði, að meiri hl. stjórnarskrárnefndar hefði ekki sýnt þessari brtt. neina andúð. Og mín afstaða er hin sama, en jeg get samt ekki greitt atkv. með brtt. eins og hún er nú, og til þess liggja tvær höfuðástæður. Önnur er sú, að inn í till. hefir verið sett það ákvæði, að ef þing er rofið, þá sje aðeins kosið fyrir þann tíma, sem eftir er af kjörtímabilinu. En þetta er ekki nauðsynlegt til þess að kosning landskjörinna þm. og kjördæmakosinna geti fylgst að. Það er ekki nauðsynlegt að fá þetta inn í stjórnarskrána, því að þessu má ná með því að mæla svo fyrir, að þingrof skuli ekki ná til þeirra af hinum landskjörnu, sem síðar voru kosnir, heldur einungis til hinna þriggja fyr kosnu, en kjörtímabil hinna síðar kosnu einungis styttast jafnmikið vegna þingrofsins, þ. e. vera útrunnið við næstu almennar kosningar á eftir þingrofskosningunni. Þetta væri miklu eðlilegri úrlausn. Þannig yrði að jafnaði kosið til 4 ára, eins og nú á sjer stað.

Annmarkarnir á því að hafa þetta ákvæði í lögum eru þeir, að almennar kosningar vegna þingrofs eiga þá aðeins að gilda það, sem eftir er af kjörtímabilinu. Þessir annmarkar verða enn meira áberandi, ef reglulegt Alþingi er háð annaðhvert ár og kjörtímabilið er 4 ár. Við skulum nú, svo tekið sje dæmi til þess að halda sjer við, gera ráð fyrir, að seinna þingið á kjörtímabilinu beri upp á 3. ár þess og eitthvað komi fyrir á því þingi, sem geri þingrof nauðsynlegt, t. d. stjórnarskrárbreyting. En hún útheimtir, að kosningar fari fram tafarlítið, helst ekki seinna en tveim mánuðum eftir þingrof. Er það líka eðlilegt, því að mál það, sem þingrofinu veldur, á að bera svo fljótt undir dóm kjósenda sem unt er. Ef nú þetta þing ber upp á 3. ár kjörtímabilsins, eins og jeg gerði ráð fyrir, þá ættu kosningarnar að gilda það, sem eftir væri af því. Væri þá ekki kosið til neins reglulegs þings og þyrfti því að halda aukaþing. (IP: Þegar þing er rofið, leiðir altaf af því aukaþing). Það þarf ekki altaf að vera, þó að þing sje rofið. Það þarf, ef þingrofið stafar af stjórnarskrárbreytingu, en ekki, ef það er af öðrum ástæðum. Það er afar óaðgengilegt að þurfa að gera stjórnarskrána svo úr garði, að almennar kosningar þurfi að fara fram til þess að halda eitt aukaþing með hinum nýkjörnu þm., og svo verði enn að koma til nýrra kosninga. Þessi till. er því óaðgengileg og hún hefir heldur ekki sannfært mig um, að nauðsynlegt sje til þess að ná þeirri hugsun, sem hv. minni hl. virðist leggja áherslu á, að skifta landskjörinu í tvent, þannig að 3 þm. skuli kosnir í hvert sinn.

Annað, sem gerir það að verkum, að jeg get ekki greitt þessari till. atkv., er það, að í brtt. vantar ákvæði, sem er nauðsynlegt til þess að koma í fyrstu framkvæmd þeirri skipun, sem brtt. fer fram á. Ef þetta verður nú samþykt á þessu þingi, og svo aftur á næsta þingi, 1928, eftir afstaðnar kosningar, þá á næsta landskjör að fara fram 1. júlí 1930. Jeg hefi ekki athugað, hvort breyta megi deginum með breytingu á kosningalögunum. En kjördæmakjörið gildir til 4 ára frá 1927 að telja og endar 1931. Til þess að koma því á, að kjördæmakjör og landskjör fylgist að, liggur líklega einna næst, eftir till., að láta þingrof fara fram hæfilega löngu fyrir kjördag 1930. Geta þá almennar kosningar farið fram samtímis landskjörinu. En þá kæmi líka til framkvæmda ákvæðið í tillgr., sem segir, að kosningar vegna þingrofs gildi aðeins það, sem eftir sje kjörtímabilsins, eða til 1931. Á því að kjósa þá aftur í kjördæmunum.

Eins og brtt. er má hún ekki fara út úr deildinni, því að það eru missmíði á henni, sem laga verður, annaðhvort með ákvæði í 1. brtt. eða með nýrri brtt., sem hefði inni að halda bráðabirgðaákvæði. Það, sem jeg hefi á móti till., er einungis efnislegs eðlis, en á ekki að skoðast sem fyrirboði þess, að jeg muni ófáanlegur til samkomulags um þá hugsun, sem í till. felst af hálfu flm., þegar til kemur. Jeg álít naumast tímabært að gera samkomulagsatriðin við þessa umræðu. Jeg held, að rjettara sje að sjá fyrst, hvað hv. Nd. kann að finna uppástungum stjórnarinnar til foráttu. Þó að hv. Nd. geti ekki fallist á þær, býst jeg fastlega við því, að málið komi þó hingað aftur. Þess vegna er það ekki rjett tilgáta hjá hv. þm. (IP), að ef brtt. þessi verði feld, þá lýsi það því, að það sje ekki sparnaður, sem sje aðalatriðið við uppástungur stjórnarinnar. Því að aðalatriðið er sparnaður, bæði á fje og á tölum kosninga. Jeg get ekki annað sagt en að það sje mikil umbót frá því, sem nú er, ef kosningar fara ekki fram nema 4. hvert ár. Mjer skilst, að minni hl. sje fús til samkomulags um það. Jeg tel það enga sök, þótt brtt. falli. Það er unt að taka hana aftur upp í breyttri mynd og sneiða þar hjá þeim annmörkum, sem nú eru á henni.