05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þetta stjfrv. til stjórnskipunarlaga hefir legið fyrir háttv. Ed. og kemur þaðan óbreytt eins og stjórnin lagði það þar fram. Aðalbreytingarnar, sem frumv. gerir á núverandi stjórnarfyrirkomulagi, eru þær, að reglulegt Alþingi skuli haldið annaðhvert ár og fjárlög þannig sett til tveggja ára, og breyting gerð á landskjörinu í þá átt, að landskjör skuli fara fram samtímis almennum kjördæmakosningum í landinu. Þetta eru höfuðbreytingarnar. Í sambandi við þær er svo stungið upp á, að kjörtímabil hinna landskjörnu og einnig hinna kjördæmakjörnu skuli vera 6 ár.

Jeg þarf ekki að fjölyrða um fyrri breytinguna, þing annaðhvert ár, því að það mál hefir verið til umr. hjer á þingi fyrir fám árum, og einnig hefir það verið mikið rætt bæði í blöðunum og á þingmálafundum. En hin breytingin er aftur á móti nýmæli, sem ekki hefir legið fyrir þinginu áður. Ástæðurnar til þessa eru þær, að stjórnin, eins og landsmenn yfirleitt, hefir fundið til þess, hve óeðlileg fyrirhöfn og kostnaður það er að hafa fjórða hvert ár almennar kosningar um alt land til þess að kjósa eina þrjá þm. Menn fundu sjerstaklega til þessa síðasta sumar, er slík landskjörskosning fór fram, og þó einkum þegar þar við bættist, að það vildi svo til, að sama sumar þurfti að fara fram aukakosning til landskjörs vegna fráfalls eins landsk. þm., en varamaður hans var fallinn frá áður. — Til þess að gera mönnum sem ljósast, hve óhentug tilhögunin á landskjörinu er, þá má segja, að eftir núverandi fyrirkomulagi, þó að ekki sje gert ráð fyrir aukakosningum, fari fram almennar kosningar á öllu landinu tvisvar sinnum á hverjum fjórum árum, eða að meðaltali annaðhvert ár.

Jeg tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið nú eða víkja að hinum ýmsu smávægilegu breytingum, er fram hafa komið. Stjórnin áleit ekki rjett að taka upp í frv. aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem vitað sje um með vissu, að ekki væru verulega skiftar skoðanir um, svo að það yrði ekki frv. að falli. Einnig í Ed. beitti hún sjer gegn till. einstakra þm. um aðrar slíkar breytingar, af því að henni er ant um, að aðallagfæringin, sem frv. stingur upp á, nái fram að ganga.