05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3436 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Það er ekki ástæða til þess að stofna til langrar umr. um málið nú, enda hefði jeg ekki tekið til máls, ef ekki hefði verið gefið tilefni til þess með síðustu orðum hæstv. forsrh. (JÞ). Hann sagði, að landsstjórnin hefði forðast að taka þau atriði upp í frv., er ætla mætti, að ágreiningur væri um og gæti hindrað framgang málsins. En jeg álít, að hæstv. landsstjórn hafi einmitt ekki gert þetta, sem hæstv. ráðh. sagði. Stjórnin hefir tekið upp í frv. atriði, sem mikill ágreiningur er um, og það er lenging kjörtímabilsins. Það er atriði, sem jeg er viss um, að meiri hl. þjóðarinnar er andvígur, og það er spor aftur á bak. Jeg vona samt, að bak við ummæli hæstv. forsrh. sje vilji til þess að koma fram atriðinu um þing annaðhvert ár.