28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3457 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Hjeðinn Valdimarsson:

Frv. það, sem hæstv. forsrh. hefir borið hjer fram, hefir, eins og skýrt var frá, þau aðalatriði, að þingum skuli fækkað og þingkosningum, og ennfremur er breytt til um landskjörið, þannig að sú kosning fari fram um leið og almenn kosning, og allir landskjörnir kosnir í einu. Auk þessa eru smáatriði um varamenn, sem ekki skifta miklu máli.

Beri menn þetta saman við nál. hv. meiri hl. stjórnarskrárnefndarinnar, þá virðist það ekki vera mjög frábrugðið, sem vakir fyrir honum; það er fækkun þinga, en þó ekki fækkun kosninga. Aftur á móti er hróflað við landskjörinu á annan hátt en hjá hæstv. forsrh., sem sje afnumið alveg. Og tilgangurinn er sá, að fækka þingmönnum.

Það, sem bæði hæstv. forsrh. og hv. meiri hl. bera fram fyrir þessu, að hrófla við stjórnarskránni nú, það er, að það þurfi að spara. Jeg hygg nú, að ef það er eingöngu sparnaðurinn, sem ríkir í þessu efni, þá mætti ganga talsvert lengra en hjer er gert; það mætti kannske spara Alþingi með öllu, og yrði það óneitanlega meiri sparnaður en þetta. Því að það virðist vaka fyrir hæstv. forsrh. og hv. meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar, að þingið sje til ills eins, og stefni því alt til bóta, er miðar að því að takmarka það. Öðruvísi er þetta alment álitið, og yfirleitt vilja menn fylgja því, að þingið eigi að hafa völdin í landinu og að hjer ætti að ríkja þingræðisstjórn. Það hefir verið álitið, að þing væri til þess fallið að koma á góðum og gagnlegum lögum fyrir landsmenn, og því ætti ekki að horfa í þann kostnað, sem af þinghaldi og þingfararkaupi leiddi, af því að hjer bæri nauðsyn til. — Og jeg hygg, að mjög margir kjósendur úti um land hafi þá skoðun, að kosningakostnaður sje mjög lítils virði í samanburði við það gagn, sem af því mætti leiða að skifta um ýmsa þá hv. þm., sem nú sitja á þingi. Það mun vera nokkurnveginn víst, að lakur þm. getur bakað landi sínu miklu meira tjón en kostnaði nemur við að kjósa á ný.

Ef það er líka sparnaðurinn, sem aðallega vakir fyrir bæði hæstv. stjórn og hv. meiri hl., þá hefði verið hægt að fara nokkuð aðra leið en að leggja til að afnema landskjörið. Einfaldasta ráðið var að afnema efri deild þingsins; við það er hægt að fækka þm. mjög mikið. Öll afgreiðsla yrði þá skjótari, minni umr. og minni kostnaður. Og í þeim löndum, þar sem tekin hefir verið upp sú regla að hafa aðeins eina deild, eða sameinað þing, virðist það ekki ver gefast en tvískift þing. Það hefir hingað til verið svo í tvískiftum þingum, að venjulega hefir lent í deilu milli deildanna, sem hefir orðið að enda þannig, að önnur varð yfirsterkari og hin ekki nema skuggi af henni. Jeg vil leyfa mjer að benda á stjórnmál Danmerkur, Englands, Frakklands og fyr meir Þýskalands.

Þegar þing var sett hjer upphaflega, þá var það tilætlunin auðvitað, að hjer ættu að sitja rjettir fulltrúar þjóðarinnar; þeir ættu að fara með umboð almennings, og þannig væri hægt að ganga út frá, að það, sem þingið gerði, væri sem næst þjóðarviljanum. Eftir þær breytingar á landshögum, sem á síðustu áratugum hafa orðið, og á kjördæmaskipun, þá er þetta á annan veg, eins og viðurkent er af mörgum hv. þm. Þeir eru jafnvel farnir að segja hver um annan þveran, að valdið eigi ekki lengur að fara eftir höfðatölu um kosningar til Alþingis. Þegar kjördæmaskipunin er orðin þannig, að menn geta á sumum stöðum komist inn með miklu færri atkv. heldur en á öðrum stöðum, þá virðist það aðallega vaka fyrir þeim, sem komast inn með tiltölulega fáum atkv., að halda því áfram, svo að tiltölulega minni hl. þjóðarinnar geti ráðið hjer á Alþingi, — og þar af leiðandi, að þær ályktanir, sem þingið gerir, þurfi alls ekki að vera í samræmi við óskir þjóðarinnar.

Ef lesin eru niður í kjölinn þau atriði, sem hæstv. forsrh. og hv. meiri hl. bera fram, þá virðist það heldur ekki vera svo mjög sparnaðurinn, sem fyrir þeim vakir, en frekar eitthvað annað.

Tökum fyrst það atriði, að þing sje annaðhvert ár og fjárhagstímabilið tvö ár, í stað eins, sem nú er. Það er augljóst, að þá er starfandi stjórn í hvert sinn innan handar að láta vera að kalla saman aukaþing hitt árið, og getur setið í friði og ádeilulaust af sínum andstæðingum og þeim af stuðningsmönnum, sem kynnu að snúast á móti henni milli þinga. Með öðrum orðum: Þetta styrkir mjög vald stjórnarinnar gagnvart þinginu. Eins er stjórnin óháðari um fjárveitingar, þegar fjárlagaþing er annaðhvert ár.

Það verður því svo, að þingið missir að miklu leyti þau tök, sem það nú hefir á stjórninni; og stjórnmálin verða ekki svipað því eins vakandi eins og nú er. Nú er það svo, að í raun og veru er það það strangasta eftirlit með stjórninni, að þingið sitji sem tíðast; því að þær eru fáar, stjórnirnar, sem ekki mundu ganga lengra, ef þær ættu ekki altaf yfir höfði sjer atkvæðagreiðslur og — jafnvel þótt hjá minni hluta sje — gagnrýni frá þingsins hendi. Þetta hafa nágrannalöndin sjeð. Þar er í hverju landi árlegt þing. Það er sjerstök áhersla á því, að fjárlög sjeu afgr. árlega. Á þeim miklu byltingatímum, sem eru í fjármálum, er það auðsjeð, að áætlanir eru því rangari, því lengra sem gerðar eru fram í tímann. Sumir hafa haldið fram, að aukaþing, sem afgreiddu ekki fjárlög, myndu verða miklu styttri. Jeg er ekki viss um, að það mundi nema nokkru sem heitir. Að minsta kosti hefir svo verið á mörgum þingum, að fjárlögin hafa ekki tekið nema tiltölulega lítinn hluta af þingtímanum. — Það er augsýnilegt, að það, sem vakir fyrir stjórninni með fækkun þinga, er annað og meira en sparnaður; það er að auka vald sitt gagnvart þinginu.

Þá er lenging kjörtímabilsins, sem raunar meiri hl. stjórnarskrárnefndar gengur á móti. Hv. þm. Borgf. (PO) gat þess, að í nágrannalöndunum væri ekki lengra kjörtímabil en 4 ár, en virtist þó helst vilja mæla með því, að það yrði 6 ár, vegna þess að í Englandi væri það 7–8 ár. í Englandi er kjörtímabilið ekki nema 5 ár; en það, sem meiru varðar, er það, að það kemur varla nokkurntíma fyrir, að enska Parlamentið sitji þingtíma sinn út. Ef stjórnin mætir mikilli andúð, þótt hún hafi meiri hl., er þing rofið löngu áður en kjörtímabil er úti. Eftir stríðið mikla hafa þingrof átt sjer stað þar á 2–3 ára fresti. Það er hægt að ganga út frá, að kjörtímabil þar sje ekki lengra en hjá okkur. — Langt kjörtímabil hefir það sama í för með sjer, að þingmenn og þar með stjórnin fer að treysta meira á sinn eiginn mátt og megin, en minna á óskir kjósenda, og fer að breyta að mörgu leyti á móti þeim. Enda sjást þess oft merki hjer á hinu háa Alþingi, að þegar fer að halla að kosningum, þá fara ýmsir hv. þm. að gerast miklu liðlegri í ýmsum umbótamálum heldur en þeir voru snemma á kjörtímabilinu.

Meiri hl. í stjórnarskrárnefndinni vill afnema landskjörið; og eftir því, sem frsm. segir, er það vegna þess, að hann telur landskjörið óhentugt. Það hefir upphaflega verið ætlað í stað konungskjörsins, til þess að tryggja, að betur yrðu valdir menn þar en við almennar kosningar. Og nú hefir reynslan sýnt það eftir að farið var að nota landskjör, að yfirleitt — kannske undantekning við síðustu kosningar, þegar hv. 6. landsk. (JKr) var kosinn —, yfirleitt hafa verið kosnir þeir, sem einna mest hefir gætt í sínum stjórnmálaflokkum og jafnvel formenn flokka sinna. Þetta hefir orðið af hálfu Íhaldsflokksins, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Það virðist því ekki nein ástæða að ætla — með þeirri undantekningu, sem jeg gat um —, að ekki muni veljast hæfir menn, eftir því sem stjórnmálalífi er háttað í landinu.

Hv. frsm. gat þess líka, að fyrir sjer vekti, að einmenningskjördæmin væru betur sett, því að menn nytu sín þar betur; þar væri ekki að ræða um ofbeldi af flokksstjórnar hálfu, sem annars mundi skipa mennina. En jeg er þeirrar skoðunar um þessi smákjördæmi yfirleitt, að þar komi oft annað til að hafa miklu meiri áhrif en það, að menn sjeu stjórnmálastarfinu vaxnir. Það er persónuleg kynning og hitt og þetta í hvert sinn. Á þann eina hátt getur maður hugsað sjer, að þrífist sú „pólitíska“ lausamenska, sem stundum hefir borið á hjer á Alþingi. Aftur á móti þegar kjördæmin eru stærri og menn verða að halla sjer að ákveðnum flokkum, ef þeir eru ekki því þektari menn, þá kemur meiri festa í öll stjórnmálin, sem hefir það í för með sjer, að kjósendurnir vita nokkurnveginn, hverja stjórnmálamenn þeir kjósa.

En ef sagt væri nú það, að rjettara væri að hafa einmenningskjördæmi en stór kjördæmi, — landskjör eða fjórðungskjördæmi, þar sem hlutfallskosning gæti farið fram, þá virðist að ef nokkurt minsta tillit ætti að taka til þess misrjettis um kjördæmaskipun, sem nú er í landinu, að haga yrði kosningu öðruvísi en nú, hafa sem sje aukasæti eins og í Danmörku, þannig að minni hl. á hverjum stað hafi nokkuð að segja.

Hv. þm. Borgf. kvaðst vera á móti þessari breytingu á landskjörinu vegna þess, að það mundi ýta undir breytingu á kjördæmaskipuninni. Nú er mjer spurn, þar sem hann virðist hafa mjög mikið á móti því að kjósa eftir höfðatölu: Eftir hverju álítur hann, að eigi að kjósa til þings, ef ekki eftir mannfjölda, þ. e. kjósendafjölda? Og hvers vegna álítur hann, að höfðatala eigi ekki að ráða milli kjördæma landsins eins og hún ræður innan kjördæmanna? — Hv. þm. Borgf. er kosinn með höfðatölu einni innan síns kjördæmis.

Hv. þm. kvað það stórhættulegt, ef farið væri að hrófla við kjördæmaskipuninni, sem nú er. Það er ekki sjáanlegt, á hvaða hátt það væri hættulegt annan en þann, að þá myndu komast að hæfari menn, — ef breytt væri svo til, að tiltölulegur meiri hl. kjósenda í landinu fengi vilja sínum framgengt.

Það eru ýms atriði í stjórnarskránni, sem Framsóknarflokkurinn og Íhaldsflokkurinn, hafa hvað eftir annað leikið sjer að. Þegar þeir eru spurðir út í þetta á kosningafundum, segja þeir um eitt og annað, að því miður verði umbótum ekki við komið, af því að stjórnarskráin sje nú einu sinni eins og hún er. — Jeg ætla að minnast á tvö atriði, kjördæmaskipunina og kosningarrjettinn. Nú væri einmitt tækifæri til, þegar stjórnarskráin liggur fyrir, fyrir þá, sem viðurkenna á nokkurn hátt, að kjördæmaskipunin væri röng, að koma með till. til bóta, ef þeir þá vildu ekki ganga inn á hreint landskjör, eins og jeg bar fram í mínu stjórnarskrárfrv. — Í öðru lagi hafa þm. hver eftir annan hjer í hv. deild risið upp, þegar fátækralögin voru til umræðu, og sagt, að það væri engin meining í því, að menn mistu kosningarrjett sinn, ef þeir yrðu að þiggja af sveit fyrir einhverjar óviðráðanlegar ástæður. Álitu rjettast að afnema þetta ákvæði úr stjórnarskránni. Nú þegar þetta tækifæri kemur til þess að breyta þessu ákvæði stjórnarskrárinnar, þá eru hvorki ráðherrarnir nje meiri hluti stjórnarskrárnefndar því meðmæltir. Þetta sýnir, að það vakir ekki fyrir stjórninni eða stjórnarskrárnefndinni að gera umbætur á stjórnarskránni. Það eina, sem þeir gera, er að koma með smábrtt., sem síðan er hægt að drepa á milli deilda. Er engu líkara en að þeir sjeu í feluleik fyrir kjósendum.

Við næstu umr. kem jeg með nokkrar brtt. við þetta frv., svo hv. þm. geti með atkv. sýnt, hvað þeir vilja.