28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3469 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Eins og hv. deildarmenn sjá, þá hefir það verið sett í nál. meiri hl., að afnám landskjörs væri skilyrði fyrir fylgi nefndarinnar við frv., og skrifuðu nefndarmenn undir þetta fyrirvaralaust. Nú vilja einhverjir skerast úr leik, að minsta kosti 2 nefndarmenn. En jeg get fullyrt um þrjá okkar, að við höldum fast við þetta skilyrði. Mjer finst einkennilegt af hv. þm. Ak., að hann skuli lýsa yfir því, að það sje miklu meiri sparnaður að fækka þingmönnum en að fækka þingum, en leggja þó ekki meiri áherslu á það en svo, að falla frá þessu skilyrði meiri hl. nefndarinnar. Mjer er óhætt að segja fyrir hönd mína, hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. V.-Húnv., að við höldum fast við nefndarálitið og afnám landskjörs sem skilyrði.

Það er rjett hjá hv. þm. Borgf., að hann hefir talað máli þingafækkunar röggsamlegar en jeg hefi gert, enda hefi jeg ekki sannfæringu hans í því máli. Hann var að sýna fram á, að þær vonir, sem menn hefðu gert sjer um þing árlega, hefðu brugðist. Menn hefðu vonað, að þingin yrðu þá stytrri og kostnaðarminni en áður, en þetta hafi ekki farið svo. En honum láðist að athuga, hvernig í þessu liggur. Á meðan þing var aðeins haldið annaðhvert ár, lengdist þingtíminn stöðugt, og þar af leiðandi jókst kostnaðurinn við þingið líka. Þetta er ekki nema eðlileg afleiðing þess, að eftir því, sem lengra leið, urðu þingstörf meiri og margbrotnari. Og þannig mundi verða áfram. Það er fyrirsjáanlegt, að ef til vill mætti komast af með að hafa þing annaðhvert ár um nokkurt skeið, en það mundi aldrei verða til langframa. Jeg get því ekki fallist á þá till. hv. þm. Ak. að fella burt það ákvæði, að þessu megi breyta með einföldum lögum. Það er síst ástæða til að fara að rígbinda það í stjórnarskránni, sem fyrirsjáanlegt er, að breyta þarf innan skamms tíma. (BL: Hvers vegna er þá verið að breyta nokkru?). Jú, því hefir verið komið inn hjá kjósendum, að þetta væri mikill sparnaður. Það er því rjettast að láta það koma á daginn, ef svo er, og láta reynsluna skera úr því.

Hv. þm. Borgf. hjelt því fram, að þingtíminn þyrfti ekki að lengjast, þótt fjárlagaþing væri aðeins á tveggja ára fresti. En þar kemst hann strax í mótsögn við sjálfan sig, því hann viðurkennir, að það taki lengri tíma fyrir stjórnina að undirbúa tveggja ára fjárlög en eins árs. Og er það ekki einmitt aðalstarf þingsins að fara í gegnum þetta undirbúningsstarf stjórnarinnar? Fjvn. verða að fara yfir áætlanir stjórnarinnar í fjárlögum og rannsaka, hvort þær eru ekki á rökum bygðar. Þar sem það tekur lengri tíma fyrir stjórnina að undirbúa tveggja ára fjárlög, hlýtur það að taka lengri tíma fyrir fjvn. að fara í gegnum þau, og um leið og starf fjvn. lengist, verður þingtíminn lengri. Hv. þm. Borgf. hefir því viðurkent það, sem hann var að mótmæla.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. segir um landskjörið, hefi jeg engu að bæta við það, sem jeg hefi áður sagt. Jeg sje enga ástæðu til að fella niður ákvæðið um afnám landskjörs, þótt hv. Ed. hafi felt það mál áður. Jeg skil ekki í öðru en að þessi hv. deild megi halda fram sinni skoðun á málinu eins fyrir því; að öðrum kosti getum við alveg eins fengið Ed. öll mál í hendur og beðið hana að ráða fyrir okkur.

Auðvitað mun Nd. afgreiða þetta mál eins og hún álítur rjettast, og svo getur hv. Ed. ráðið því, hvort hún gengur að því eða breytir frv. aftur, og geri hún það, kemur málið aftur til Nd. Á þessu stigi málsins er því engin ástæða til að falla frá kröfunni um afnám landskjörs, og því algerlega óþarft fyrir hv. þm. Borgf. að mála þessa grýlu á vegginn. Annars er hann mjer sammála um, að rjett sje að fella niður landskjörið.

Þá hefir hæstv. forsrh. ekki gert mikið til þess að gylla þetta fyrirkomulag. Mjer skildist, að hann vildi telja landskjörið sem einskonar uppbót á kosningarrjett í mannmörgu kjördæmi. En þetta er aðeins uppbót fyrir flokkana. Það er tilviljun ein, ef þm. bætist á þann hátt mannmörgu kjördæmi.

Um það, hvort æskilegt sje að gefa flokkunum slíka stoð, hefi jeg lýst skoðun minni áður. Jeg heyrði lítið af ræðu hv. 4. þm. Reykv., en komst samt að raun um, að hann er á gagnstæðri skoðun. Samt sem áður tel jeg það þýðingarlítið, að við förum að leiða saman hesta okkar um þetta. Hjer eiga ekki hagsmunir flokkanna að ráða, heldur hagsmunir þjóðarinnar í heild sinni, en þetta tvent fer sjaldnast saman. Hæstv. forsrh. gerði mikið úr því, að ef landskjörið væri felt niður, mundi verða róið að því öllum árum að fá kjördæmaskipuninni breytt. Það getur verið, að einhver flokkur yrði ákafari í að fá þessu breytt, en jeg legg lítið upp úr því.

Jeg er sannfærður um, að þetta atriði liggur ekki svo laust fyrir, og það verður ekki með hægu móti hróflað við kjördæmaskipuninni; hún er orðin svo rótgróin og þjóðin yfirleitt ánægð með hana. Það gæti verið, að þm. fjölgaði, en það liggur fyrir, að þeim fjölgi hvort eð er. Jeg geri ekki ráð fyrir, að Siglfirðingar eða Hafnfirðingar gerðu sig ánægða með að fá landskjörinn þm.; þeir vildu heldur fá þm. fyrir sitt kjördæmi. Mjer skildist hæstv. forsrh. vilja halda því fram, að öflugasta ástæðan gegn fjölgun þm. væri sú, að þinghúsið rúmaði ekki fleiri en nú væru. Þessu mun hafa verið slegið fram í ræðu áður, en jeg veit ekki, hvort það hefir verið alvarlega meint, enda víst fáir tekið það svo. Jeg hefi ekki trú á, að stærð eða snið þess húss, er þingið kemur saman í, verði látið ráða nokkru um fjölmenni þess. Það liggja alt aðrar ástæður til þess, að Alþingi vill ekki fjölga þm. En að svo vöxnu máli ætla jeg ekki að segja meira. Sem frsm. nefndar hefi jeg ekki umboð til þess að tala á móti frv., þótt mjer væri það næst skapi, en það var ætlun nefndarinnar, að málið gengi gegnum þessa umr., og ef samkomulagstillögur hennar yrðu samþyktar, að afgreiða það þá til 3. umr. Ef þær verða ekki samþyktar, mun jeg fyrir mitt leyti snúast á móti frv., og mun þá gefast tækifæri til að rökræða málið frá því sjónarmiði síðar.