28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3480 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg finn enga ástæðu til að fara út í deilur um röksemdir við hv. frsm. meiri hl. (JakM). Hann fylgir frv. ekki nema með hálfum hug. (JakM: Nei). Ekki einu sinni það, ef til vill? (JakM: Nei, tæplega). Nei, og jeg sje því ekki ástæðu til að fara frekar út í hans ræðu. Jeg skil vel. að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) er óánægður með þetta frv. Það er skiljanlegt, að honum þyki það ganga of stutt og jafnvel ekki í rjetta átt. Það er meira nýnæmi í hans frv., sem hann hefir flutt sjálfur, sem sje byrjun til róttækrar breytingar á þjóðfjelagsskipun vorri. Í frv. stjórnarinnar er ekki hreyft neinu slíku; þar er aðeins um hagkvæmnisbreytingar að ræða.

Út af orðum hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) vil jeg segja það, að jeg get ekki gert að því, þó að honum þyki frv. sviplítið. Þetta er vitanlega ekki stórfelt stefnumál, en hitt vil jeg ekki viðurkenna, að stjórninni sje ekki full alvara með að koma þeim aðalbreytingum fram, sem í frv. felast. Svipuð ummæli komu fram hjá stjórnarandstæðingi í hv. Ed., og svaraði jeg þeim á sama hátt. Þessir 3 hv. þm., hv. þm. V.-Húnv., hv. þm. Ak. og hv. 1. þm. Reykv., hafa látið í ljós efasemdir um það, hvort ákvæðið um þinghald annaðhvert ár reynist til bóta, en eins og hv. þm. V.-Húnv. rjettilega tók fram, verður reynslan að skera úr því. En það er ekki í samræmi við þessa hugsun þeirra hv. þm. Ak. og hv. þm. V.- Húnv., vegna efasemda þeirra um gæði ákvæðanna, að vilja einskorða þau svo í stjórnarskránni, að þeim yrði ekki aftur breytt með einföldum lögum. Hv. þm. V.-Húnv. færði fram þau rök fyrir því, að ef heimilt væri að breyta þessu með einföldum lögum, mundi ekki fást nægileg reynsla um haldgæði ákvæðanna. Jeg get vel ímyndað mjer, að hann geri ráð fyrir, að þessu verði breytt með einföldum lögum áður en nokkur reynsla er fengin. En ef þessi þm. efast um, hvernig reynslan falli, þá skil jeg ekki, hvers vegna hann vill festa þessi ákvæði svo í stjórnarskránni, að ekki megi breyta þeim með einföldum lögum. Mjer finst, að það væri rökrjett afleiðing af hugsun þessara manna að bera fram brtt. um það, að eftir vissan árafjölda, sem þætti hæfilegur reynslutími, mætti breyta þessu með einföldum lögum, ef það þætti þá rjett.

Jeg skil það vel hjá hv. þm. Ak., að honum þyki leitt að vera altaf að breyta stjórnarskránni, en það á þá ekki að vera að setja ákvæði inn í hana, sem ætla má, að gefi bráðlega tilefni til nýrra breytinga.

Þar sem hv. þm. var að tala um veðrabrigði af stjórnarinnar hendi frá 1923, þá skal það tekið fram, að þetta ákvæði um að kalla þingið saman á hverju ári var sett inn í frv. samkv. samhljóða áliti stjórnarskrárnefndar þessarar hv. deildar 1923. Og jeg get sagt það fyrir hönd stjórnarinnar, að hún lætur sjer í ljettu rúmi liggja, hvort ákvæðið um það, að heimilt sje að breyta þessu með einföldum lögum er látið standa í stjórnarskránni eða ekki, en jeg álít það hinsvegar gætilegra að hafa það þar. — Jeg vil því skjóta því til hv. þm. V.-Húnv., hvort hann geti ekki fallist á þá miðlun að setja aðeins tímatakmörk fyrir því, hvenær megi breyta þessum ákvæðum með einföldum lögum.

Það, hvort fjárlög eru sett til eins eða tveggja ára, er í sjálfu sjer ekki stjórnarskráratriði, heldur fyrirkomulagsatriði eða tilhögun á framkvæmd, en ekki stefnumál, sem þurfi að vera fastákveðið í stjórnarskrá landsins. Viðvíkjandi till. um afnám landskjörsins vil jeg segja það, að jeg skil ekki, að sú till., eins og hún er orðuð hjá hv. meiri hl., yrði, þó að samþykt væri, til mikils sparnaðar, því að hún mundi knýja fram breytingu á kjördæmaskipuninni. Það mundu fljótt fyllast skörðin á þann hátt, að þm. yrði fjölgað í þeim kjördæmum, sem nú hafa tiltölulega fæsta þm., miðað við fólksfjölda, og öðrum kjördæmum yrði skift. Jeg tel því víst, að fækkun þm. næðist ekki á þeim grundvelli, og tel till. ekki miða til sparnaðar eins og hún er fram borin. En ef sú till., sem boðuð hefir verið um að lögfesta tölu þm. við 36 með stjórnarskrárákvæði, yrði samþ., þá má búast við þeirri deilu og togstreitu milli kaupstaða og sveita landsins, sem mig langar ekkert til, að löggjafarvaldið stofni til. Jeg vil því halda þeirri kjördæmaskipun, sem nú er, því að jeg tel það mjög hæpið, að afnám landskjörsins eða fækkun þm. í 36 verði til nokkurra bóta. Um það, hvort ákvæði eins og afnám landskjörsins geti orðið frv. að falli í hv. Ed., skal jeg ekkert segja, en svipuð ákvæði hafa áður orðið máli þessu að falli þar, þannig að atkvæði voru jöfn.

Jeg er ekki að gera sjerstaklega ráð fyrir því, að svo fari nú; jeg veit ekkert um það, en það má gera ráð fyrir því, að meiri hluti þeirrar deildar sje andvígur afnámi landskjörsins, ef dæma má eftir atkvgr. um tillögu í þá átt við 2. umr. málsins þar.