28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Ak. (BL), hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 1. þm. Reykv. (JakM) hafa talað á móti landskjörinu og því, að alt þingið væri skipað landskjörnum þm. og bygt það á því, að með því fyrirkomulagi hefðu stjórnmálaflokkarnir meiri áhrif á skipun þingsætanna en æskilegt væri. En nú vil jeg spyrja, — hvað er stjórnmálaflokkur? Stjórnmálaflokkur er ekki annað en hópur manna, sem sameiginlegar skoðanir tengja saman og sem þess vegna bindast samtökum um ákveðna stefnu í þjóðmálum. Maður skyldi ætla, að einmitt slíkur hópur manna væri best fær um það sjálfur að velja þá menn, sem best mætti treysta til að fylgja fram stefnu flokksins. Í þeim stjórnmálaflokki, sem jeg fylgi, eru það flokksmennirnir sjálfir, sem mestu ráða um það, hver er boðinn fram. Jeg vil spyrja, hvort það mundi reynast betur, að þingmannaefnin útnefni sig sjálf, eins og oft á sjer stað með kjördæmakosningar. Við landskjör er þó nokkuð stór hópur manna, sem útnefnir frambjóðendur, en við kjördæmakosningar stundum aðeins þingmannaefnin sjálf. Menn geta til samanburðar athugað, hvort betur muni hafa tekist valið á hv. þm. Borgf. (PO) eða mjer. — Það er einkennilegt að heyra hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ak., sem eru í svo fastreyrðum flokki eins og Íhaldsflokknum, vera að tala um flokksbönd sem eitthvert böl.

Hv. þm. Borgf. þóttist vita, að jeg fengist ekki mikið um sparnað, eða gæfi ekki mikið fyrir slíkt, en jeg hygg, að hann hafi litla reynslu til að geta dæmt um slíkt. Að minsta kosti kom hann ekki með neitt dæmi um það, að jeg hefði viljað ausa fje út í óhófi.

Það er auðvitað, að slík nurlarasál eins og hv. þm. Borgf. lítur alt öðruvísi á fjármál yfirleitt en jeg. Hann vill ekki tekjur í ríkissjóðinn, heldur að hver nurli fyrir sig, og einkum að kjósendur hans sjálfs fái eitthvað í sína vasa. En jeg álít, að það sje miklu hagkvæmara, að menn leggi fje sitt saman til framkvæmda, er miða að almannaheillum, svo að annað sje hægt að gera en ráðast í smámuni.

Hv. þm. Borgf. sagði, að fjárlögin tækju mestan tíma þingsins, og skil jeg það vel, þar sem hann er í fjvn., að hann finni til þess, hvað þau taka mikinn tíma. En fjárlögin eru nú afgreidd hjeðan úr deildinni, og þau væru nú afgreidd algerlega, ef ekki væri deildaskiftingin. Það er því augljóst, að það er ekki afgreiðsla fjárlaganna í sjálfu sjer, heldur deildaskiftingin, sem lengir þingið mest, enda verður þess sjaldan vart, að þingið hafi ekkert að gera, af því að standi á fjárlögunum.

Hv. þm. Borgf. vildi álíta það mikilsvert, að þm. væru í persónulegum kunningsskap við kjósendur. En jeg lít svo á, að þm. eigi að kjósa eftir skoðunum, en ekki eftir persónulegum kunningsskap eða vináttu. Háttv. þm. Borgf. hjelt fram, að það væri mikilsvert, að þm. væru kunnugir staðháttum í kjördæmunum. En nú eru margir þm. alls ekki búsettir í kjördæmum sínum og þekkja því lítt til staðhátta, og það sýnir, að kjósendum þykir meira um annað vert en að þeir þekki þar hverja smugu. En ef þess væri óskað, yrði líka að fara aðra leið en þá, sem nú tíðkast; þá yrði að ákveða, að frambjóðendur væru búsettir í kjördæmum sínum.

Hæstv. fjrh. sagði, að stjórnarskrárbreytingar sínar væru ekki stefnubreytingar, heldur aðeins hagkvæmnisatriði. En stjórnarskráin er nú einu sinni grundvöllurinn undir þjóðskipulaginu, og við henni er ekki hægt að hreyfa nema koma við stefnumálin.