02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3511 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi því miður ekki haft tækifæri til þess að fylgjast alveg með þessum umræðum. En jeg sje, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM), sem var, og er ef til vill enn, frsm. meiri hl. stjórnarskrárnefndarinnar, hefir talað, og býst jeg því við, að hann hafi skýrt frá því, að aðstaða meiri hlutans hefir breyst frá því, sem hún var við 2. umr. málsins. Það voru tvö meginatriði, sem sköpuðu meiri hlutann. í fyrsta lagi fækkun þinga og í öðru lagi fækkun þingmanna. Þegar svo þessi tvö atriði voru aðskilin, breytingartillagan um þingmannafækkunina var feld, voru þær meginstoðir, sem sköpuðu meiri hlutann, fallnar, og því alt samkomulag í nefndinni um þessa hluti komið út um þúfur, sem og meðal annars má sjá á því, að fjöldi brtt. er fram kominn, og eru flestir nefndarmanna riðnir við einhverja þeirra. Hvað mig snertir, þá get jeg lýst ánægju minni yfir því, hvernig máli þessu er komið nú, því að nú má segja, að það sje í sama formi og jeg bar það fram, þar sem búið er að fella burtu úr því lengingu kjörtímabilsins og breytinguna á landskjörinu. En engu að síður hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 476, og jeg hefi hagað henni svo, að hún kemur síðast til atkvæða; hefi jeg gert það til þess að geta tekið hana aftur, ef allar aðrar tillögur verða feldar, til þess að tefja sem minst framgang málsins.

Svo jeg geri grein fyrir þessari brtt., þá tel jeg það mjög þýðingarmikið, að slíkt ákvæði sem þetta standi í stjórnarskránni, og yfir höfuð lít jeg svo á, að í stjórnarskrá landsins eigi þeir hlutir að vera, sem varða þjóðfjelagið mikils.

Þetta atriði, sem brtt. mín fjallar um, að ekki megi veita sjerleyfi til fossavirkjunar í stórum stíl nema með samþykki tveggja Alþinga í röð, tel jeg tvímælalaust svo stórt atriði, að það eigi að standa í stjórnarskránni, svo ekki sje hægt að veita slíkt leyfi með einföldum lögum. Um þetta þarf jeg svo ekki að fjölyrða, því að í sambandi við þá stórfeldu fossavirkjun, sem var hjer til umræðu fyrir skömmu, ljet jeg í ljós þá skoðun mína, að jeg tel, að slík stórvirki geti haft í för með sjer mikla og hættulega röskun fyrir þjóðfjelagið. Og út frá öðru sjónarmiði tel jeg líka sjálfsagt, að ákvæði um þetta standi í stjórnarskránni. Það er alkunna, að á undanförnum þingum hafa ýmiskonar sjerrjettindi verið veitt til handa útlendum mönnum, en svo hefir ekkert verið aðhafst. Þessar sjerrjettindaveitingar tel jeg smán fyrir Alþingi. Leyfishafar flagga með rjettindin úti um allan heim, segjandi, að þetta hafi Alþingi Íslendinga veitt þeim. Í fyrra voru ekki færri en þrjú slík mál á ferðinni, og jeg greiddi atkvæði á móti þeim öllum. Og nú er búið að afgreiða eitt frá þessu þingi, og það er ekki hvað síst vegna þess, að jeg kem með þessa brtt.

Jeg er að vona, að jafnvel þeir þingmenn, sem annars eru því hlyntir að veita sjerleyfi, telji þó nóg komið í bili og geti því verið með að þrengja vald Alþingis á þessu sviði. Til þess að þrengja þetta vald þingsins hefði mátt fara ýmsar leiðir, t. d. hefði mátt setja þingrof að skilyrði, en svo langt vildi jeg þó ekki ganga, enda þótt jeg hefði helst viljað hafa slíkt ákvæði. Mun jeg því fús að fylgja hverri þeirri breytingu, sem gengur í þá átt að herða á þessu, ef einhver skyldi koma fram með hana. í annan stað hefði mátt skapa þetta aðhald með því að láta fara fram þjóðaratkvæði áður en slíkt leyfi væri veitt.

Annars virðist mjer, að eitt hið stærsta skilyrði til þess að tryggja farsæla þróun í landinu sje að fyrirbyggja það, að útlendingar nái alt of miklum yfirráðum yfir mikilsverðum auðsuppsprettum landsins.

Um brtt. þær, sem komið hafa frá einstökum þingmönnum, ætla jeg ekki að fjölyrða. Þó hefi jeg tilhneigingu til að greiða mörgum þeirra atkvæði, því að jeg tel þær til bóta. Má þar til nefna tillöguna frá hv. þm. Dal. (JG) um að færa kosningarrjett við landskjör niður. Sömuleiðis tel jeg til stórra bóta tillöguna um að fella burt úr stjórnarskránni ákvæðið um, að skuld fyrir þeginn sveitarstyrk skuli svifta menn kosningarrjetti til Alþingis. En sem sagt, þá legg jeg aðaláhersluna á þingafækkunina og mun fylgja frv. með þeirri aðalbreytingu, hvað sem öðru líður.