02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3518 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Líndal:

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) gerði svo glögga og góða grein fyrir brtt. á þskj. 474, að jeg hefi ekki ástæðu til að bæta þar við neinu öðru en því, að mjer finst það vera ótvíræður vottur um, hve litla trú hv. þingmenn hafa á fækkun þinga, ef þeir ætla að greiða atkvæði á móti þessari brtt. okkar. Jeg get vel skilið það, að þeir hv. þingmenn, sem ekki álíta, að þetta megi að nokkru gagni koma, vilji ekki fella heimild til þess niður, að þessu megi breyta aftur með einföldum lögum. En hinir, sem þykjast trúa því, að fækkun þinga sje breyting til varanlegra bóta, sýna sannarlega ekki trú sína af verkum sínum með því að greiða atkvæði á móti því, að þessu megi ekki aftur breyta með einföldum lögum, eða vilja með öðrum orðum, að hægt sje með einföldum lögum að hringla með fjölgun og fækkun þinga eftir því sem hinn pólitíski vindur blæs í þann og þann svipinn. Eins og jeg tók fram við 2. umr. þessa máls, tel jeg það mjög hættulegt, að unt sje að hringla með mikilsverð ákvæði stjórnarskrárinnar frá ári til árs með einföldum lögum, og hvað þetta atriði snertir, þá tel jeg, að hjer sje um svo mikla breytingu að ræða, að þetta verði að telja eitt af höfuðatriðunum.

Þá vil jeg minnast á brtt. mína á þskj. 481. Hún byggist fyrst og fremst á því, þó að það sje ekki berlega sagt í tillögunni, að jeg vil nema úr stjórnarskránni aðra heimild til að breyta því, sem miklu máli skiftir, með einföldum lögum, og það er samkomudagur þingsins. Jeg gerði grein fyrir því líka við 2. umr., að svona ákvæði í stjórnarskrá má misbrúka ákaflega mikið, ef harðvítugur og illvígur stjórnmálaflokkur fær að hringla með samkomudag þingsins eins og honum sýnist, þá getur hann jafnvel algerlega útilokað suma andstæðinga sína frá að sitja á þingi, því að atvinnuvegum margra er svo háttað, að þeir geta ekki með nokkru móti setið á þingi nema að vetri til. Jeg tel það þess .vegna mikilsvert, að heimildin til að breyta þingsetningartímanum með einföldum lögum verði feld niður. Hitt játa jeg, að jeg tel það skifta minna máli, hvort þingið byrjar 1. eða 15. febrúar, því að vitanlega verður að vera heimild eins og áður til þess að kalla þingið saman nokkru fyr á árinu, ef þurfa þykir. Þessari heimild hefir líka verið beitt mikið síðustu árin, jeg held undantekningarlaust altaf síðan jeg eignaðist hjer sæti. Tel jeg það mjög til bóta, að þingið geti byrjað fyr en verið hefir, og þá helst ekki seinna en 1. febrúar, því að það hygg jeg öllum ljóst, sem hugsa um málið af skynsamlegu viti, að fækkun þinga hlýtur að leiða til þess í framtíðinni, að þau verði lengri, með því skipulagi, sem nú er, og það jafnvel mun lengri.

Þeir, sem hafa mörgum störfum að gegna, vita vel, hve erfitt það er að þurfa að vera jafnvel fjóra mánuði ársins að heiman, og þó sjerstaklega á vorin, þegar vorannir eru að byrja. Jeg verð að telja, að þessi brtt. miði til þess að draga úr því tjóni, sem af því geti stafað, að þingmenn komist ekki heim til sín fyr en jafnvel í miðjum júní.

Það hafa lengi verið skiftar skoðanir um það, hvenær þing ætti að halda, og það sýnir sig berlegast á einni þeirri tillögu, sem hjer liggur fyrir. Það er brtt. frá hv. 1. þm. Árn. (MT), á þskj. 468; en því verð jeg nú samt að halda fram, að þessi hv. þm. geti naumast hugsað sjer það í alvöru að flytja samkomu þingsins til 20. sept., því að það er öllum vitanlegt, að það er hinn allra óheppilegasti tími, sem hægt er að finna, jeg held undantekningarlaust fyrir alla atvinnurekendur, en þó sjerstaklega fyrir bændur landsins, því að það er algerlega útilokað, að þeir geti farið frá heimilum sínum um sláttarlokin og verið í burtu um sláturtíðina og allan haustannatímann. Jeg held, að háttv. þm. hafi hlotið að segja þetta í spaugi, og þótt jeg geti illa fyrirgefið spaug í jafnalvarlegu máli og stjórnarskráin er, þá get jeg þó betur fyrirgefið það en alvarlega tilraun til þess að gerspilla stjórnarskránni.

Þá skildi jeg ekki vel, hvað vakti fyrir hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), þegar hann vildi flytja þingið sem næst sumri eða fram á sumar. Var helst að skilja hann þannig, að hann teldi þingstörfin mundu verða betur unnin, þegar sól væri og sumar, en í skammdegismyrkrinu. Mjer þykir það undarlegt, að hv. þm. skuli þá helst vilja loka sig inni í húsum við heldur andlítil og þreytandi þingstörf, þegar sól er hæst á lofti og hásumarblíða, í stað þess að geta notið þess stutta sumars, sem við fáum hjer, til þess að starfa að útiverkum og verið sem mest undir beru lofti, því að skammdegið okkar er sannarlega nógu langt. Jeg get að minsta kosti sagt það fullum fetum hvað sjálfan mig snertir, að minn hugur dregst mjög frá þessum verkum, þegar sumarið gengur í garð, og hygg jeg, að svo sje um fleiri, að þeir sjeu svo mikil sólskinsbörn, að þeir vilji heldur sinna þingstörfum að vetri til en um hábjargræðistímann.