02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vildi aðeins segja örfá orð, til þess að lýsa afstöðu minni til brtt. þeirra, er fyrir liggja, og tek jeg þær í röð eftir þskj.

Jeg er mótfallinn brtt. á þskj. 461, frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), og er um það, að fjárlögin verði rædd í Sþ. einungis og tekin til meðferðar við 3 umr. Það er ljóst, að fjárlögin eru eitt af mikilsverðustu málum hvers þings, og má því alls ekki ætla þeim óvandaðri meðferð en öðrum málum. Og þegar ofan á þetta bætist svo ef til vill, að farið verður að halda reglulegt þing aðeins annaðhvert ár, þá verður enn minni trygging fyrir góðri afgreiðslu fjárlaganna.

Jeg er mótfallinn brtt. á þskj. 468, frá hv. 1. þm. Árn. (MT). Þar er farið fram á að fella burt það skilyrði fyrir kosningarrjettinum, að menn sjeu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, og einnig er aldurstakmarkið fært niður í 21 ár. Mjer sýnist ekki rjett að fara að breyta þessu. Það er alment álitið, að kosningarrjetturinn, að því er þetta atriði snertir, sje við okkar hæfi, og það er engin röksemd, þó að menn sjeu fullveðja um sín eigin fjármál, að rjett sje líka að gefa þeim umráð yfir málum þjóðarinnar. Og ekki sýnist mjer heldur ástæða til þess að lækka aldurstakmark landskjörskjósenda úr 35 árum niður í 30 ár, eins og annar hv. þm. (JG) fer fram á. Um 3. brtt. hv. 1. þm. Árn., sem er um það að láta þingið hefjast 20. sept., get jeg sagt það, að það er óhentugasti tími, sem hægt er að velja fyrir marga, sjerstaklega fyrir bændur, til þess að sitja á þingi. Þeir verða þá að fara að heiman fyrir rjettirnar og eru svo burtu frá öllum haustönnunum. Auk þess fellur líka kjördagurinn þá á miðjan þingtímann.

Um brtt. á þskj. 471, frá háttv. 4. þm. Reykv. (HjV), hefi jeg hið sama að segja. Jeg er þeim mótfallinn, og einnig 1. brtt., þó að hún í sjálfu sjer sje meinlítil. Jeg tel rjett að halda svo lengi sem unt er í aðalatriðunum þeirri kjördæmaskipun, sem nú er í landinu.

Um brtt. á þskj. 474, frá hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og tveim öðrum hv. þm. (PO, BL), og er um það að fella burt ákvæðið um það, að með lögum megi ákveða, að þing skuli haldið á hverju ári, þarf jeg ekki að segja annað en það, sem jeg sagði við 2. umr. þessa máls. Mjer fyrir mitt leyti er sama, þó að hún verði samþ. En jeg er á móti henni fyrir þá sök, að hún kann að draga atkv. frá frv. í heild sinni. Að efni til er jeg ekki á móti henni.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 475, frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM). Þar er farið fram á, að kjörtími allra þm. jafnt skuli vera 4 ár. En eins og hv. flm. tók fram, er þetta í samræmi við sama ákvæði, sem var í stjfrv., nema bara að hjer er kjörtíminn 4 ár, í stað 6 ár í stjfrv. Jeg heyri, að úr ýmsum áttum er lögð mikil áhersla á það, að kjörtíminn verði ekki lengri en 4 ár. Jeg get því lýst því yfir, að til samkomulags við þá þm., sem leggja áherslu á þetta, skal jeg fallast á þessa brtt. háttv. 1. þm. Reykv. eins og hún er fram borin. Jeg sje aftur á móti ekki ástæðu til þess að mæla með hinum tveim brtt. Jeg er alveg mótfallinn 2. brtt., þar sem kippa á burt því skilyrði fyrir kosningarrjettinum, að menn standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. (JakM: Það er borið fram sjerstaklega). Nei, ekki eins og það er hjer. Það er heldur engin ástæða til þess að breyta þeim takmörkunum, sem stjórnarskráin setur fyrir kosningarrjetti til landskjörs. Með því að halda þessu, er haldið þeim verulegasta þætti í ætlunarverki landskjörsins, sem er það að skapa gætni og festu í Ed. þingsins.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 476, frá hv. þm. Str. (TrÞ), og er um það að taka sjerstök ákvæði um vatnsorkusjerleyfi upp í stjórnarskrána. Mjer finst það satt að segja ekkert varhugavert, þó að virkjuð verði hjer yfir 25000 hestöfl, og jeg sje ekki, að sá atvinnurekstur þurfi að vera landinu neitt hættulegri en margt annað. Hvaða atvinna, sem rekin er hjer á landi, er til gagns, en ekki ógagns fyrir okkur. Jeg er einnig á móti till. vegna þess, að þegar um sjerleyfi er að ræða, þá eru þau venjulega bundin við hagsmuni vissra landshluta, og því á þetta ekki heima í stjórnarskránni. Þar eiga ekki að standa önnur ákvæði en þau, sem varða alla landsmenn jafnt eða einhverja alþjóðarstofnun. Jeg álít því ekki rjett að samþ. þessa brtt.

Brtt. á þskj. 480 hefir verið tekin aftur, og þarf jeg því ekkert um hana að segja.

Þá kem jeg að brtt á þskj. 481, frá hv. þm. Ak. (BL). Er þar ákveðið að þingið skuli hefjast 1. febr. Mjer þykir sú till. einskorða um of tíma þann sem ákveður, hvenær þingið eigi að byrja störf sín. Það er alveg nógu þröngt eins og það er, þar sem ákveðið er, að þingið megi ekki byrja seinn en 15. febr. en svo er það lagt í hendur stjórnarinnar, að taka tillit til óska þm. um það, að þinghaldið byrji fyr, ef því verður við komið.

Jeg er mótfallinn brtt. á þskj. 482. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Mjer sýnist ákvæðið um það, hvenær Alþingi skuli halda, svo rúmt í 33. gr. stjórnarskrárinnar, að ekki sje ástæða til að bæta við því ákvæði, að breyta megi þessu með lögum.

Þá kem jeg loks að brtt. á þskj. 489. frá, hv. þm. Dal. (JG). Jeg er einnig mótfallinn þeim. Það virðist ekki rjett að setja inn það ákvæði, að breyta megi því skilyrði fyrir kosningarrjetti, að menn hafi ekki þegið af sveit, með einföldum lögum. Þá er ekki heldur ástæða til þess að færa aldurstakmarkið til landskjörs úr 35 árum, niður í 30 ár. En jeg verð nú að segja það að ef fara ætti að breyta þessu á annað borð, þá væri miklu betra að stíga sporið heilt út, eins og gert er í till. hv. 1. þm. Reykv. og hafa aldurstakmarkið sama og við kjördæmakosningar. En eins og jeg hefi lýst yfir, er jeg ekki þeirrar skoðunar, að ástæða sje til að stíga þetta spor.