04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Líndal:

* Við 2. umr. Ljet jeg þau orð falla, að jeg teldi fækkun þinga kost, vegna þess að stjórnin yrði þá minna háð þinginu um dagleg störf. Háttv. 1. þm. Reykv. mintist á þetta í gær, og þar sem hann beindi orðum sínum aðallega til mín, get jeg ekki látið þeim ósvarað. Hann sagði, að sjer þætti það mjög undarlegt, ef um andstæðingastjórn væri að ræða, að jeg gæti þá haldið fram þessari skoðun minni. En jeg get sagt hv. þm. það, að þótt jafnvel væri um andstæðingastjórn að ræða, þá býst jeg ekki við, að svo slysalega tækist til um val hennar, að jeg gæti ekki treyst henni betur til þess að fara með völdin en flokknum, sem að henni stæði.

Þess ber að geta, að ráðherra er ábyrgur gerða sinna og finnur yfirleitt til þeirrar ábyrgðar. Aftur á móti er þing ábyrgðarlítið og nær ábyrgðarlaust, eða að minsta kosti er ábyrgðartilfinning þess ekki á óþarflega háu stigi. Jeg álít, að landinu sje yfirleitt betur stjórnað, ef flokkurinn, sem styður stjórnina, ræður minna en ráðh. Fyrst og fremst felst það í þingræði, að þingið geti rekið stjórnina, ef því býður svo við að horfa, og álít jeg, að það sje fremur til tjóns en gagns, ef þingið getur blandað sjer í stjórnarfar landsins. Verst er það þó, þegar stjórnin styðst við tvo sundurleita flokka, sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að vera á móti fyrverandi stjórn, því að þessir flokkar togast þá á um. stjórnina og ginna hana út á þá glapstigu, sem hún hefði eigi hætt sjer út á ella.

Það bætir hvern góðan mann að hafa ábyrgð á orðum sínum og gerðum, eins og það gerir hvern mann verri að geta unnið verk sín ábyrgðar laust. Þetta er það, sem skilur milli þings og stjórnar að mínu áliti. Vona jeg nú, að hv. þm. skilji, hvað fyrir mjer vakir.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.