04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir fundið ástæðu til að sýna þessu máli þann heiður að nota tækifærið til þess að ausa út nokkru af þeim aur sem niðri fyrir er hjá honum og nokkrum hluta þess straums beindi þm. að mjer en hinu af frv. sjálfu. Nú ætla jeg ekki að hafa mikið fyrir því að þvo þennan óþverra af mjer, því að jeg hefi þekkingu og reynslu fyrir mjer í því að hann hrín ekki svo mjög við.

Hv. þm. sagði , að jeg hefði svívirt stjórnarskrána með því að vera ekki viðstaddur umr. hjer í gær. En hv. þm. veit vel, að 2. umr. fjárlaganna stóð, yfir í gær í hv. Ed., þeirri þingdeild, er jeg á þingmannssæti í og fjárlögin eru mitt mál ekki síður en stjórnarskráin, og jeg átti að greiða um þau atkv. og gat því ekki verið hjer altaf. Þetta ætti í raun og veru að vera nóg skýring á því, að jeg gat ekki altaf verið hjer viðstaddur, en þó að jeg væri það ekki þá heyrði jeg þó mikið af þeim umr. sem hjer fóru framv. og að minsta kosti alt sem hv. 1. þm. Árn. sagði um sínar till. Hv. þm. beindi því að mjer að jeg hefði haft lítið við sínar brtt. og að eins lýst afstöðu minni til þeirra. En það stóð nú svo á, að þegar allir tillögumenn höfðu gert grein fyrir sínum till., gat jeg búist við að ekki væru nema 10 mínútur þangað til atkvgr. um fjárlögin í Ed. mundi hefjast og það reyndist líka svo. Þessi tími var mjer því afskamtaður og jeg notaði hana til þess að lýsa afstöðu minni til þeirra till. sem fyrir lágu. Jeg leit líka svo á, að það hefði ekki mikla þýðingu að færa fram mikil rök með því að allar till. eru um efni sem allir hv. þdm. eru þaulkunnug, og þeir sjá því rökin án þess að jeg bendi á þau.

Ef svo hefði nú verið að till hv. 1. þm. Árn. hefði verið eitthvað sjerstaklega merkileg, þá skal jeg viðurkenna, að það hefði verið sjerstök ástæða til þess fyrir hann að firtast. En till. á þskj. 468 mun nú ekki þykja merkilegri, en svo, að jeg má miklu fremur sjá eftir því að hafa minst á hana heldur en hitt að ástæða væri til að eyða að henni mörgum orðum.

Hv. þm. hefir nú tekið 1. og aðalbrtt. aftur og 3. brtt. hans hefir orðið til athlægis meðal allra hv. þdm., enda hefir nú þm. gefið þá skýringu, að hún væri flutt fremur til ábendingar en með þeirri tilætlun, að hún yrði samþ. Hv. þm. getur því tæplega með neinum rjetti legið mjer á hálsi fyrir það, að jeg ekki ræði sjerstaklega till., sem fær slíkan dóm í sínum föðurhúsum. Þá er eftir 2. brtt. hv. þm., sem hann sagðist ekki taka aftur að svo stöddu, en gerði þó ráð fyrir, að svo gæti farið, ef önnur brtt., sem hjer liggur fyrir, yrði samþ. — Að þessu athuguðu get jeg ekki sjeð, að hv. þm. hafi neina ástæðu til að kvarta yfir því, að jeg hafi ekki sýnt því fóstri, sem eftir hann liggur hjer á þskj., nóga sæmd.

Þá beindi hv. þm. því, sem eftir var af sálarforða sínum, að frv. sjálfu, og fórust honum svo orð um það. að það væri afturhaldsfrv., skemdafrv. o. s. frv., að það ætti að afla hlunninda handa flokksmönnum stjórnarinnar, og í niðurlagi ræðu sinnar kom hann með þá smekklegu samlíkingu, að frv. væri ærulaust eins og kýr Sigurðar á Selalæk. Það verð jeg að segja, að þó að jeg hefði ekki vitað, hver talaði, en aðeins heyrt þessi orð þm., þá hefði jeg strax verið þess fullviss, að hjer gat ekki annar verið á ferðinni en hv. 1. þm. Árn.; þar kom hans innri maður svo ljóslega fram.

Hv. þm. er nú mótfallinn höfuðbreytingu frumvarpsins, sem sje því að ákveða fjárlagaþing aðeins annaðhvert ár, í staðinn fyrir á hverju ári. — Jeg skil það vel og það er ekkert undarlegt, að hv. þm. langar til að fá að sitja hjer á hverju ári, ef hann kynni að ná endurkosningu, en þó að sjálfsögðu megi finna einhverjar skynsamlegar ástæður gegn því að breyta þessu, eða fyrir því að það væri varhugavert, þá tókst hv. þm. það ekki. Hv. þm. talaði um, að stjórnin þyrfti að sjá 3 ár fram í tímann, og hann kvaðst ekki treysta núverandi stjórn til þess, vegna þess að hún hefir verið svo lánsöm, að gengi íslenskra peninga hefir hækkað í hennar stjórnartíð. En hv. þm. gaf í skyn, að hann mundi geta treyst annari stjórn, sem bæri giftu til að sjá upp á það, að gildi peninganna hreyfðist niður á við.

— Ef þetta væri nú svo, sem hv. þm. segir, þá þyrfti stjórnin á sama hátt að sjá 2 ár fram í tímann við samningu fjárlaganna eftir núgildandi tilhögun. En eins og jeg hefi lýst yfir, þá sjer stjórnin alls ekki 2 ár fram í tímann, heldur er samning fjárlaganna bygð á ágiskunum, sem aðeins styðjast við reynslu undanfarinna ára um afkomuna og útlitið yfirleitt, en geta ekki bygst á neinni spádómsgáfu stjórnarinnar. Á þessu verður engin breyting, þó tíminn lengist um eitt ár, þó fjárlögin eigi að semja til tveggja ára, í stað eins árs. Það verður jafnerfitt að byggja á útliti og horfum afkomuna á sjálfu fjárhagstímabilinu. En það eru þó líkur fyrir því, að það geti tekist betur, þegar samið er til tveggja ára heldur en eins, vegna þess að það eru altaf líkur til þess, að 2 ár bæti hvort annað upp.

— Þetta vita allir, sem vanir eru að fást við að gera áætlanir, að þegar áætlunin má ná yfir mörg samskonar atriði, verður skekkjan minni í heildinni en ef áætlunin er gerð um hvert einstakt atriði út af fyrir sig. Það er því ómögulegt að færa þessar ástæður fram gegn því að halda fjárlagaþing aðeins annaðhvert ár. Ástæður þær, sem mæla með slíkri breytingu, hafa oft verið teknar fram áður. Þær eru í fyrsta lagi sparnaður á þinghaldskostnaði, sem jeg er sannfærður um, að mundi verða allverulegur. Í öðru lagi ætti stjórninni að gefast betri tími til að undirbúa löggjöfina undir þingið.

Þriðja atriðið og það stærsta er það, að því sjaldnar sem þingið hefir fjárlög til meðferðar, því minna er eytt í miður nauðsynlega hluti.

Hv. 1. þm. Árn. kallar þetta engar rjettarbætur. Jeg læt mjer það í ljettu rúmi liggja, meðan hann hrekur ekki ástæður mínar.

Þá kem jeg að hinu höfuðatriðinu í stjfrv., viðvíkjandi landskjörinu. Nú er það svo, að stofna þarf til almennra kosninga að meðaltali annaðhvert ár. Önnur þessara kosninga er sjálfsögð, en hitt er alveg óviðunandi, að setja alla kjósendur landsins á hreyfingu til að kjósa 3 menn af 42. Allir sjá, að þetta er missmíði. Það er sjálfsagt, að landskjör sje framkvæmt um leið og kjördæmakosningar. Það kalla jeg hiklaust rjettarbót. Hjer við má bæta, að ef svo illa tekst til, að landsk. þm. og varamaður hans falla báðir frá, þarf að stofna til kosninga á ný um land alt eftir núverandi tilhögun, og er þetta einnig lagfært með frv.

Hv. þm. sagði, að það hefði átt að byrja með því að fá mann til þess að kynna þjóðinni allar þær stjórnmálastefnur, sem uppi væru í öðrum löndum. Jeg skil vel, að sá segi þetta, sem engu vill breyta, en er ekki nógu hreinskilinn til að játa, að svo sje. Því að það starf tæki engan enda, og auk þess eru stefnurnar altaf að taka breytingum, svo að það væri ærið nóg fyrir einn mann að kynna sjer allar þær breytingar. — Einnig kvartaði hv. þm. undan því, að þetta frv. hefði verið borið fyrst fram í Ed., en ekki í Nd., og var að reyna að koma orðum að því, að það hefði verið haganlegra að því er snerti þingstörfin að bera það fram í Nd. Þarna skjátlast hv. þm. mikið. Stjórnarskráin mælir svo fyrir, að fjárlög skuli bera fram fyrst í Nd. Af þessu leiðir, að Nd., en þó einkum fjvn. þeirrar deildar, er svo störfum hlaðin fyrstu vikur þingtímans, að hún má ekki við neinni töf. Aftur á móti hefir Ed. fyrri hluta þingtímans ekkert hliðstætt starf með höndum, og var því alveg eðlileg hagsýni að fara þá leið, sem farin var, með þetta frv. Enda sje jeg ekki annað en að það hafi farið mjög vel. Það fjekk afgreiðslu í Ed. meðan á fjárlagaumræðunum stóð hjer, og nú er það til umræðu hjer, meðan Ed. hefir fjárlögin til meðferðar. Jeg skil ekki þá hagsýni, að rjettara hefði verið að láta stjórnarskrármálið verða samferða fjárlögunum hjer, og svo aftur í Ed.

Hv. þm. mintist á eitthvert flengingarfrv., sem verið hefði til umr. í Ed. Það er alveg jafneðlilegt, að honum dytti í hug flengingarfrv. eins og þegar óþekkum strák dettur í hug vöndurinn.