04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get ekki annað en verið ánægður með árangurinn af ádrepu minni í garð hv. 1. þm. Árn. Núna kvað við alt annan tón hjá þeim hv. þm. en áður. Hann gaf þá yfirlýsingu, hv. þm., að hann ysi aldrei neinn mann auri. Jeg skil það sem loforð um að strika út þau orð í Alþt., sem annars mundu gera hann ómerkan orða sinna.

Hv. þm. hjelt því fram, að sparnaður væri ekki rjettarbót. En jeg held, að fyrir fátæka gjaldendur, sem miklar kröfur eru gerðar til, sem von er í landi, þar sem svo margt er ógert, sje besta rjettarbótin sú, að ljetta þeirra byrðar, án þess þó að draga úr því, sem raunveruleg nytsemd er í fyrir landsmenn. Um umræður okkar hjer á þingi má því miður segja, að þær sjeu að miklu leyti ekki raunveruleg rjettarbót fyrir landsmenn. Hitt, að fara að taka af mönnum kosningarrjett, það nær engri átt að tala um það í sambandi við þetta frv. eins og stjórnin lagði það fyrir þingið, því að sú eina breyting, sem nokkuð snerti kosningarrjett landsmanna í frv., hún var þó heldur í þá átt að gefa þeim frjálsari hendur um að nota hann heldur en þeir hafa nú; er þar átt við ákvæðið um, að þingrof er einnig látið ná til landskjörinna þingmanna. Og auðveldara er þeim gert að nota kosningarrjett sinn með því að þeir megi kjósa landskjörna þingmenn um leið og þeir koma á kjörstað til þess að kjósa kjördæmakosna þingmenn, svo að þessi orð hv. þm. (MT) eru gagnstæð sannleikanum.

Út í veðurspárnar ætla jeg ekki að fara við hv. þm. og jeg er heldur ekki viss um, að hv. þm. hafi skilyrði til að geta skilið það, að það eru meiri líkur fyrir því, að það megi gera rjettari áætlanir, þegar áætlað er um fleiri hliðstæð atriði samtímis. En út af því, sem hv. þm. sagði, að ef við hefðum átt að setja fjárlög í fyrra fyrir árið 1928, þá hefðu útgjöldin orðið meiri, þá vil jeg undanþiggja stjórnina því, sem hv. þm. nefndi „við“, og vísa þar í stjfrv. til fjárlaga fyrir 1927 og fyrir 1928, útgjöldin eru í báðum áætluð tæplega 10400000 kr., og svo nálægt því bæði árin, að það munar ekki nema um 6000 krónum á árunum. Þetta stafar af því, að stjórninni var það ljóst í fyrra, að ástæðurnar myndu ekki verða neitt betri árið 1927 heldur en það, sem nú lítur út fyrir árið 1928, en það eru nokkrar vonir til þess nú, líklega af því að kosningar standa fyrir dyrum, að Alþingi muni ekki leyfa sjer það, sem það gerði við seinustu fjárlög, að hlaða um 700 þús. kr. útgjöldum ofan á þau útgjöld, sem stjórnin stakk upp á.

Þá vildi hv. þm. láta mig ganga í það að fá forseta deildanna til þess að taka málin á víxl út af dagskrá, til þess að jeg gæti verið viðstaddur í deildunum, þegar þau væru til umr.; en jeg vil ekki gera það, þegar ýms stórmál eiga svo langt til úrslita sem nú er, og auk þess er það þýðingarlaust, því að það hefði ekki getað skift neinu fyrir framgang málsins, hvort jeg hefði getað verið svolítið meira við en jeg var í gær, og jeg er um þetta algerlega á annari skoðun en hv. 1. þm. Árn.

Hv. þm. áleit, að það hefði verið lítið að gera í þessari hv. deild fyrstu vikur þingsins, af því að það hefðu ekki verið langir deildarfundir. En hv. þm. má vita það, að allir þdm. eiga sæti í einni eða fleirum fastanefndum, og að þessar nefndir hafa nóg að vinna fyrri hluta þingtímans, svo að hjer var nóg að gera, og miklu meira en í hv. Ed., þótt ekki væri það starf á deildarfundum.

Jeg get látið mjer það vel lynda, að hv. þm. gerði þá yfirbót fyrir þau ummæli sín, sem hann hafði áður, um að engin rjettarbót væri í þessu frv., að hv. þm. hnýtti því við ræðu sína, að það væri lögrjetting innifalin í frv. Það eru lofleg ummæli, sem jeg get látið mjer vel líka, þegar þau koma frá þeim háttv. þm., sem helst virðist vilja leggjast á móti málinu. (MT: Jeg er svo sanngjarn). Ó, já, meðan áminningarnar eru í fersku minni. En svo mintist hv. þm. á það embætti, sem fylgdi vendinum; jeg hygg, að við þekkjum það flestir og ,er engin óvirðing í því, þar sem það er engin óvirðulegri en móðirin sjálf, sem venjulega hefir það starf hjer á landi að halda á vendinum, þó að það komi stundum fyrir, þegar móðurhandarinnar nýtur ekki við, að aðrir verða að hlaupa þar í skarðið.