04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Hjeðinn Valdimarsson:

Mjer finst, að ef hæstv. fjrh. hefði meint eins mikið með þeim sparnaðarbrtt., sem hann hefir komið með, og ætlast mætti til, þá hefði hæstv. ráðh. átt að spara þann hluta ræðu sinnar, sem átti við brtt. mínar, því að það er ekki hægt að sjá, að nein raunveruleg nytsemd væri í þeirri ræðu, og eftir kenningu hæstv. ráðh. eiga þm. ekki að tala nema raunveruleg nytsemd geti stafað af því.

Hæstv. ráðh. hafði ekki annað að bera á móti brtt. mínum en að það ætti ekki að samþykkja þær, en hvaða rök væru fyrir því, gat hæstv. ráðh. ekki um.

Hæstv. ráðh. gat þess um menn, sem hefðu náð 21 árs aldri, að þótt þeir væru fjárráða, þá hefðu þeir ekkert um þjóðmál að segja, en hæstv. ráðh. gat þess ekki, hvaða ástæða væri til, að þeir frekar hefðu þessi rjettindi, ef þeir væru orðnir 25 ára, eða tvöfalt meiri rjett til að ráða um þau mál, þegar þeir væru orðnir 35 ára. Þarna vantaði líka þá raunverulegu nytsemd hjá hæstv. ráðh. til að gera þessa ræðu skiljanlega, svo að hún gæti komið að gagni fyrir þá kjósendur þessa lands, sem fylgjast með ræðum á Alþingi. Jeg hygg, að það muni vera í fáum löndum nú orðið, sem kosningarrjettur er eins bundinn og hjer, svo að menn þurfi að vera 35 ára að aldri til þess að fá að kjósa töluverðan hluta af þingmönnum landsins.

Þá mintist hæstv. ráðh. á kjördæmaskipunina og taldi rjett að halda þeirri kjördæmaskipun, sem nú er, þó að jeg segði, að hún væri mjög ranglát, eins og allir vita, að rjett er. En hvers vegna komu þá engin andmæli gegn því fram í ræðu hæstv. ráðh.? Þarna vantaði líka þær röksemdir, sem koma áttu á móti brtt. minni, og ef hæstv. ráðh. hefði viljað koma með röksemdir á móti ræðu minni, þá hefðu þær átt að vera á þá leið, hvers vegna það væri haldkvæmt að hafa kjördæmaskipunina eins og hún er nú, og hvort það væri rjettlátt, og ef það væri ekki, hvers vegna þá ætti að breyta á móti því rjettlæti. Annars mun hæstv. fjrh. og forsrh. til bráðabirgða vera orðinn nokkuð annarar skoðunar um skipun kosninga heldur en áður, þar sem hann hefir verið með því, að hlutfallskosningar væru notaðar miklu meira, svo að þessi skoðun eða skoðanabreyting virðist hafa komið eftir að hæstv. ráðh. hefir fengið þann háa sess, sem hann nú er kominn í.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri engin ástæða til, að menn hefðu kosningarrjett eftir að þeir hefðu þegið af sveit, en kom heldur ekki með ástæður fyrir því, að ekki væri jöfn ástæða til, að þeir menn hefðu kosningarrjett eins og aðrir. Það mun þó vera öllum kunnugt, að fáa menn varðar það meiru, hvernig opinberum málum er stjórnað heldur en þá menn, sem hafa orðið svo ógæfusamir að þurfa að leita hjálpar til sveitarsjóða, og það er alls ekki svo lítill hluti af tekjum landsins, sem kemur frá þeim mönnum, eftir þeim tolllögum, sem hæstv. ráðh. hefir látið samþykkja.

Þegar fátækralögin voru hjer til umr. í þessari hv. deild fyrir skömmu, gat hæstv. atvrh. (MG) þess, að hann myndi sjá til þess, að fátækralagafrv. færi ekki fyr frá hv. Ed. en útsjeð væri um það, að menn mistu ekki kosningarrjett sinn, ef þeir hefðu þegið af sveit, og mátti ráða það af orðum hæstv. ráðh. (MG), að hann væri því fylgjandi, eins og fleiri af flokksmönnum hans. Nú sýnist vera orðinn klofningur innan flokksins um þetta, ef hæstv. forsrh. berst á móti þessu, en hæstv. atvrh. og fleiri flokksmenn þeirra með því; eða það er þá svo, að þeir menn, sem hafa talað svo vel um þetta mál, hafa ekki meint það, sem þeir sögðu, en það mun þá koma fram við atkvgr. og mun verða minnisstætt íslenskri alþýðu.