04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Út af spurningu hv. 1. þm. Árn. get jeg aðeins gefið það svar, að jeg hefi ekki fyr heyrt, að mismunur væri á skýringunum um ákvæðið viðvíkjandi þingrofi, eftir því hvort það fer fram að tilefni 76. gr. stjórnarskrárinnar eða að öðru tilefni.

Jeg ætla ekki að fara neitt út í fjárhagsumr. þær, sem hv. þm. Str. gaf tilefni til. Jeg býst við, að það verði hægt, er fjárlagafrv. kemur hingað aftur frá hv. Ed. En jeg held, að þó að fjárlagafrv. núv. stjórnar hafi farið nær hinum raunverulegu útgjöldum, sem ber að áætla í fjárlögum, en þau frv., sem lögð hafa verið fyrir næstu þing þar á undan, þá verði ekki hægt að ámæla stjórninni fyrir það. Og jeg hygg, að rjettari mynd af útgjöldum ríkisins ætti ekki á nokkurn hátt að ýta undir þingin með að bæta við meiri fúlgu en hóflegt er. Það væri afsakanlegt, þó að þingin freistuðust til þess, ef frv. stjórnarinnar sýndu lægri útgjöld en þau raunverulega eru, eins og stundum hefir komið á daginn.