16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3570 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get fyrir mitt leyti lýst því yfir, að jeg get fallist á allar brtt. meiri hl. stjórnarskrárnefndar á þskj. 569, og hv. form. nefndarinnar (JóhJóh) hefir gert svo skýra grein fyrir, hvað í þeim felst, að ekki þarf neinu við það að bæta.

Út af því, sem hv. form. nefndarinnar sagði um mögulegleikana á því, að aukaþing væri haldið í haust til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna til fullnustu, þá vil jeg fyrst minna á, að meiri hluti stjórnarskrárnefndar hefir með síðustu brtt. sinni á þskj. 569 bent á aðra leið til þess að ná sama takmarki, sem hann talaði um að ná með þinghaldi í haust, sem sje þá, að heimila með bráðabirgðaákvæði að setja fjárlög fyrir bæði árin 1929 og 1930 á þinginu 1928, enda þótt frumvarp til þeirra hafi ekki verið lagt fyrir í þingbyrjun. Með þessu næst hið sama og ætlast er til að ná með aukaþinghaldi. Jeg get því lýst því yfir, að verði brtt. þessi samþykt, þá mun stjórnin ekki kveðja saman aukaþing í haust vegna stjórnarskrárbreytingarinnar. Hvað fyrir kann að koma af öðrum ástæðum, er ómögulegt að segja fyrirfram frekar nú en endranær.

Þá hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 597, við 10. gr. frv. Það er breyting á öðru ákvæði um stundarsakir eins og það var orðað í neðri deild. Þetta ákvæði frá Nd. hljóðar þannig: „Umboð landskjörinna þingmanna og varamanna fellur niður við næstu almennar þingkosningar eftir að þessar breytingar á stjórnarskránni öðlast gildi“. Þetta ákvæði felur það í sjer, ef ekkert óvænt kemur fyrir, að umboð hinna landskjörnu falli niður 1931. En eins og það er orðað nú frá neðri deild, þá myndi svo fara, ef til þingrofs kæmi á tímabilinu frá 1928–1930, að umboð þeirra myndi falla niður við kosningarnar eftir það þingrof. Nú er að vísu ekki hægt að sjá, að slíkt þingrof komi fyrir, en þó má vera, að það geti komið fyrir eigi að síður. En það myndi hafa í för með sjer, að kjörtímabil þeirra, sem kosnir voru í sumar, myndi styttast um meira en helming, og hinna nokkuð. Mjer finst nú ekki ástæða til að hafa orðalag þessa ákvæðis þannig, að það geti leitt til svona mikillar styttingar á kjörtímabili þessara manna; þess vegna hefi jeg komið fram með brtt. þessa, sem fer fram á, að umboð þeirra falli ekki niður fyr en við fyrstu almennar kosningar eftir 9. júlí 1930. Þetta er miðað við, að kosningarnar 1922 fóru fram þann 9. júlí. Er því ætlast til með brtt., að kjörtímabil þeirra, sem kosnir voru þá, lengist um eitt ár, eins og ætlast var til í stjfrv. Jeg vil því leyfa mjer að vænta þess, að háttv. þdm. geti fallist á þessa brtt., sem ekki er nema orðabreyting, ef ekki kemur til þingrofs frá 1928–1930.

Þá skal jeg leyfa mjer að gera grein fyrir efni brtt. á þskj. 578, en til þess að háttv. þm. geti fylgst sem best með, væri æskilegt, að þeir hefðu stjórnarskrána við hendina, til þess að sjá, hvar brtt. þessar eiga við hana.

Fyrsta brtt. er, að 4. gr. frv. falli niður. Það þýðir, að 27. grein stjórnarskrárinnar haldist óbreytt áfram. Hún hljóðar svo: „Þingmenn kosnir í sjerstökum kjördæmum skulu kosnir til 4 ára, en þingmenn kosnir hlutbundnum kosningum um land alt til 8 ára, og fer helmingur þeirra frá fjórða hvert ár. Þingrof nær ekki til þingmanna þeirra, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum um land alt“. — Það er með öðrum orðum, að láta landskjörið haldast í sama horfi sem það er nú í. Með þessari brtt. næst því ekki það, sem til er ætlast með stjfrv., að hægt verði að framkvæma landskjör og kjördæmakosningar í einu.

Þá er önnur brtt. á þskj. 578. Hún er við 5. gr. frv., sem er aftur breyting á 28. gr. stjórnarskrárinnar. Eftir 5. gr. frv. á að kjósa varamenn bæði til landskjörs og við hlutbundnar kosningar hjer í Reykjavík. En brtt. felur í sjer, að varamenn skuli aðeins kjósa við landskjör, en ekki við hlutbundnar kosningar í Reykjavík.

Þá er 3. brtt. á þskj. 578, sem er við 6. gr. frv. og snertir að efni til 29. gr. stjórnarskrárinnar. Hún fer fram á, að 6. gr. frv. falli burt. Þetta þýðir aftur, að 29. gr. stjórnarskrárinnar heldur áfram að vera óbreytt eins og hún er nú.

Hjer liggur aftur fyrir við þessa grein víðtækari breyting frá meiri hl. nefndarinnar. Hún fer aðeins fram á breytingu á einu atriði. Eins og kosningarrjettur til landskjörs er nú er hann miðaður við 35 ára aldurstakmark, og verði 3. brtt. á þskj. 578 samþykt, þá heldur hann áfram að vera bundinn við það aldurstakmark. En 1. brtt. meiri hl. felur aftur í sjer, að greinin skuli vera óbreytt að öðru leyti en því, að kosningarrjettur til landskjörs færist úr 35 árum niður í 30 ár.

Fjórða brtt. á þskj. 578 er við 7. gr. frv., sem snertir 30. gr. stjórnarskrárinnar. Brtt. þessi fer fram á, að 7. gr. frv. falli burtu, sem þýðir aftur, að 30. gr. stjórnarskrárinnar haldist óbreytt. Hún fjallar um kjörgengi, og helst það óbreytt eins og það er nú, ef brtt. þessi verður samþykt.

Hjer liggur líka fyrir brtt. frá meiri hl.; hún fer fram á, að kjörgengi til landskjörs verði bundið við 30 ár, í stað 35 ára, sem nú er, og er það í samræmi við það, sem meiri hl. leggur til um kosningarrjettinn.

Mjer finst ekki nema eðlilegt, að brtt. þessar komi fram og til atkvæða, ef brtt. meiri hl. verða feldar, til þess að mönnum gefist kostur á að greiða atkvæði um það, hvort þeir vilji heldur fylgja því, að kosningarrjettur og kjörgengi til landskjörs verði bundinn við 35 ára aldurstakmark, eins og nú er, eða við 25 ár, eins og er samkvæmt frv. eins og það kom frá Nd.

Þá er 5. brtt. á þskj. 578; hún er í tveimur liðum, a. og b., og felur í sjer í raun og veru sama og brtt. mín á þskj. 597. Þó fer það nokkuð eftir því, hvað áður verður búið að samþykkja í frv. Ef brtt. um það, að landskjörið haldist óbreytt eins og það er nú, verða samþyktar, þá felur brtt. þessi það í sjer, eftir því sem mjer skilst, að umboð þeirra landskjörnu, sem kosnir voru 1922, falli ekki niður fyr en eftir kosningar þær, sem væntanlega verða 1931. Brtt. þessi er því nær sama efnis og mín og afpössuð eftir till. meiri hlutans, ef þær verða ekki samþyktar.

Jeg hefi svo ekki meira um þetta að segja. Jeg hefi aðeins viljað gera grein fyrir því, hvernig brtt. þessar standa af sjer gagnvart neðrideildarfrumvarpinu og stjórnarskránni, til glöggvunar við atkvgr.