16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Jeg ætla aðeins að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. stjórnar.

Fyrst og fremst vil jeg spyrja, hvers vegna hæstv. stjórn hefir lagt svo mikla áherslu á það að koma aukaatriðum inn í frv., sem hafa orðið til þess að draga úr ánægjunni með þau aðalatriði, sem hún vill koma fram. Það lítur út fyrir, að hæstv. stjórn leggi meiri áherslu á kosningalagabreytingar en þá höfuðbreytingu, sem flestir eru sammála um, nefnilega þinghald annaðhvert ár. Ef jeg man rjett, hjelt hæstv. forsrh. því fram, að þing yrði að halda á hverju ári til 1931. En nú hefir verið sýnt fram á möguleika á því að spara eitt af þessum þingum, en mjer finst það lýsa sjer í framkomu meiri hl. stjórnarskrárnefndar, að hann telji þetta aukaatriði, að breyta þinghaldinu.

Jeg held jeg megi til að grípa hjer inn í og spyrja hæstv. ráðh. nokkrum spurningum áður en hann fer úr deildinni.

Í fyrsta lagi vil jeg spyrja hann, hvers vegna hann leggur áherslu á þessi aukaatriði, að fá kosningaaldrinum breytt í sambandi við landskjörið. Í öðru lagi við jeg spyrja hæstv. ráðh., hvers vegna hann gekk inn á brtt. hv. 1. þm. Reykv. (JakM), sem eru allmikið annars eðlis en till. stjórnarinnar og settu málið í nýjan farveg.

Eftir 2. umr. var frv. orðið eins og meiri hl. hv. Nd. vildi hafa það. Breytingin aðeins þinghald annaðhvert ár, og þó að óvíst sje um framtíðargengi þeirrar breytingar, þá vil jeg þó freista þess, hvernig hún reynist. En við 3. umr. í Nd. var með stuðningi stjórnarinnar samþ. ein till. frá hv. 1. þm. Reykv. og með andstöðu stjórnarinnar aðrar brtt.

Jeg vil út af þessu undirstrika það, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði, að það er ekkert fast „plan“ í þessu. Þessi grautargerð í hv. Nd. er til mikils spillis fyrir málið. Hæstv. forsrh. ber ábyrgð á þessu. Hann lagði sína blessun yfir fyrstu brtt. og tók á móti þeim, sem síðar fylgdu á eftir, sem mótvægi. Á þennan hátt hefir hæstv. ráðh. sett stjórnarskrána í hættu.

Jeg er hræddur um, eins og hv. 2. þm. S.-M., að þetta verði ekki samþ. og þessi breyting fullnægi ekki nema um stundarsakir. Menn verða óánægðir með þessar óhreinu línur og fara að fitja upp á nýjum breytingum. Menn munu segja sem svo, að úr því að landskjörið er ekki orðið annað en viðbót við kjördæmakjörið, hvers vegna á þá ekki að gilda hið sama um kosningaaldur og kjöraldur við þessar kosningar? Jeg vil ekki trúa því, að hæstv. ráðh. vilji umsnúa málinu sjer í hag til þess eins að geta látið kosningar fara fram áður en þjóðin veit um fjármálahrunið. Ef hann ætlar að láta kosningar fara fram um sláttinn, þá get jeg sagt það fyrir hönd mikils meiri hl. minna kjósenda, að það er þeim mjög óhagstæður tími, bæði dýrt og erfitt að hafa kosningar á þeim tíma.

Mjer finst hæstv. ráðh. ætti að geta sagt nokkurnveginn ákveðið um það, hvenær hann hugsar sjer að láta kosningar fara fram, ef til kemur. Það skiftir miklu, hvort það verður t. d. 1., 14., eða 20. júlí eða 20. september eða 1. vetrardag, eins og venja er til.

Það, hvenær kosið verður, er auðvitað ekki stórt mál í sambandi við stjórnarskrána sjálfa, og það svar, sem hæstv. ráðherra gaf um aukaþing, líkaði mjer mjög vel.

Jeg ætla svo ekki að tala mikið nú að þessu sinni, en bíð eftir svari hæstv. ráðh. við þessum spurningum, sem jeg hefi beint til hans. Jeg álít, að hæstv. stjórn hafi gert rangt með þessari grautargerð, einkum til frambúðar. Þessar brtt. voru líka bornar fram af þm. í Nd., sem svo greiddi atkv. á móti frv. í heild.

Jeg endurtek það hjer, að jeg gerði bæði 1924 og nú mitt ítrasta til þess að ná samkomulagi um þetta mál, en það kom fyrir ekki. En í því sambandi vil jeg ekki vera að vekja upp gömul deiluatriði.

En með þessu hefir verið opnuð leið fyrir nýjar breytingar á þessu hálfverki.