16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Allar þessar breytingar, sem nú' á að fara að gera á stjórnarskránni, eru sameiginlegt áhugamál „Íhalds“ og „Framsóknar“. Margir þm. úr báðum flokkum hafa á undanförnum þingum tjáð sig því fylgjandi að hafa þing aðeins annaðhvert ár og hafa kepst um að flytja frv. í þá átt. öll þessi frv. hafa orðið fyrir dularfullum dauðdaga, þangað til nú, að nærri sýnist búið að kara drauginn. Áður fyr var það álitið talsvert þrekvirki að kara drauga, þótt það þætti ekki þrifalegt verk eða mikilmannlegt. En það ætlar að sýna sig nú, að „stóru“ flokkarnir ætla að koma þessu fram í sameiningu. Mjer þykir ákaflega vænt um að sjá, að tilfinningar eina kvenþingmannsins (IHB) banna henni að leggja sína tungu á þennan ófögnuð.

Í blaði því, sem ekki má nefna hjer í þingsalnum nema komast í þingvíti, er auglýsing nú nýlega frá sjerstöku fjelagi, sem á undanförnum árum hefir skift eins oft um nöfn eins og kvikindi það, er kameleon heitir, skiftir um lit. Þetta fjelag, sem nú er kallað „Vörður“, auglýsir sem sagt, að búast megi við því, að kosningar fari fram í júlí næstk. vegna stjórnarskrárbreytingarinnar, og því hefir fjelagið opnað „kosningaskrifstofu“. Íhaldið er þar með búið að setja kosningamaskínu sína í gang, leigja agitatora o. s. frv. Af þessu er auðsjeð, að sá flokkur ætlast til, að frv. nái fram að ganga, og meira að segja hefði hann varla farið að kynda undir kosningavjelinni, nema hann hefði nokkurnveginn vissu fyrir framgangi frv. — Annars var það dálítið einkennilegt, að hæstv. forsrh. vildi ekki svara fyrirspurn hv. 1. landsk. um það, hvenær kosningar ættu fram að fara. Hann talaði um, að það væri samkomulagsatriði. En jeg er sannfærður um, að það er þegar ákveðið og full vissa um það á kosningaskrifstofu Íhaldsins. Hæstv. landsstjórn veitir þeirri stofnun fyr upplýsingar en sjálfu Alþingi. Það er óneitanlega undarlegt, þegar kosningasmalar fá á undan Alþingi vitneskju um það, að kosningar eigi að fara fram á mesta annatíma ársins, gegn yfirlýstum vilja Nd., eða á þeim degi, sem lögboðinn er, 1. vetrardegi. — Það er alveg rjett, sem hv. 2. landsk. segir, að hæstv. stjórn hefir verið bannað að færa kjördaginn, með því að hv. Nd. feldi frv. um það. Nú krefst jeg þess, að hæstv. stjórn gefi í heyranda hljóði skýr svör við því, hvenær á að kjósa, áður en greidd eru atkv. um frv. Jeg vil engan undandrátt um þetta, sakir þess að jeg tel, að Alþingi eigi eins fulla heimting á að vita það eins og kosningaskrifstofa Íhaldsflokksins. Mjer er sagt, að hæstvirt stjórn hafi í hyggju að láta kosningar fara fram, þegar verkalýður kaupstaðanna er farinn að heiman, í kaupavinnu, síldarvinnu o. s. frv. Þetta á vitanlega að gera til þess, að sem allra fæstir verkamenn fái notið kosningarrjettar síns. Jeg verð að segja, að þetta nálgast að vera glæpsamlegt athæfi, einkum þegar það er gert á móti skýlausum vilja Alþingis.

Hv. meiri hl. stjórnarskrárnefndar, sem þó sýnist ekki vera neinn meiri hl., ber fram nokkrar brtt. um að færa í afturhaldshorfið sumar þær breytingar til bóta, er hv. Nd. hafði samþykt, svo sem rýmkun kosningarrjettar til landskjörs og ákvæði 29. gr. stjórnarskrárinnar um, að sveitarskuld svifti menn kosningarrjetti. Hv. Nd. vildi fella úr stjórnarskránni þetta rangláta ákvæði, en hjer sýnist alt íhaldið, nema hv. 2. landsk., vilja halda í gömlu vitleysuna. — Það var ekki rjett hjá hv. form. (JóhJóh), að allur eðlilegur sveitarstyrkur verði ekki til að svifta menn kosningarrjetti, vegna breytingar þeirrar, sem nú er verið að gera á fátækralögunum. Þar er aðeins hreppsnefndum gefin heimild til að telja sveitarstyrk óafturkræfan. (JóhJóh: Jeg gerði ráð fyrir, að því yrði beitt þannig, að allur eðlilegur sveitarstyrkur yrði óafturkræfur). En jeg geri ráð fyrir því, að orðið „afturkræfur“ verði nóg til þess, að flestar sveitarstjórnir gæti þess að vera ekki of mannúðlegar. Hv. form. taldi upp ýmsar ástæður til sveitarstyrks, er hann taldi óviðfeldið að sviftu menn ekki kosningarrjetti. Honum þótti það hart, að þeir, sem hefðu þegið sveitarstyrk vegna leti og ómensku, ættu að „ráða okkur hinum“, eins og hann orðaði það. Fór hann um þetta stórum orðum, kallaði það rothögg á sjálfsbjargarviðleitnina o. s. frv. En hv. þm. gerði að mínum dómi of mikið úr þessu. Það eru ekki nema örfáir menn, sem fá styrk af þessum ástæðum, og þá er hægurinn hjá að svifta þá fjárforræði, og þar með kosningarrjetti. (JóhJóh: En það er bara svo sjaldan gert!). Víst er það sjaldan gert, en það stafar af því, að tilfellin eru svo fá.

Núna er altaf verið að tala um 1930. Mig langar því til að spyrja hæstv. stjórn og hv. þd., hvernig þau treysti sjer til að bjóða hingað á því ári gestum frá merkustu þingræðislöndum, ef þau koma fram þessari breytingu. Hvernig treysta þau sjer til að líta á nokkurn þann erlendan stjórnmálamann, sem halda vill uppi þingræði í landi sínu, þegar þau halda 1000 ára afmæli Alþingis, elsta löggjafarþings í heimi, „hátíðlegt“ með því að fækka þingum um helming? Það er eina bótin, að búast má við, að þessi stjórnarskrárbreyting verði til að stráfella þá þm., sem greiða atkv. með henni. Jeg veit vel, að aðaltilgangurinn með þessari breytingu er að æsa upp lægri hvatir kjósenda, smásálarlega sparnaðarlöngun og annað þess háttar. Sumum kjósendum getur þótt þetta nógu gott, þegar þeir heyra því ekki andmælt, einkum hinum einfaldari og lítilsigldari. En væri einhver til að tala á móti þessu á hverjum þingmálafundi, hygg jeg, að varla fyndist á eftir svo auðvirðileg sál, að hún vildi fækka þingum, og gera þar með einhverju elsta þingræðislandi heimsins óbætanlega smán á 1000 ára afmælishátíð þingsins. — Þetta er svo stórt afturhaldsspor, að menn mundu varla trúa, að það gæti átt sjer stað annarsstaðar en á Spáni eða Ítalíu.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að til neins sje að hafa um þetta lengri umræður. Flokkarnir eru eflaust búnir að koma sjer niður á það, hverjir eigi að greiða atkv. með frv., svo að það skríði í gegn. Þeir láta það eflaust fara til þjóðarinnar, en þeir ættu að fá fyrir það makleg málagjöld. Jeg ann þeim þess, sem aðalhlutverkin leika í þessum skrípaleik, að þeir fái ekki að sitja hjer sjálfum sjer og þjóðinni til skammar á mesta hátíðisdegi hennar.