16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Jeg var svo framsýnn, að jeg gat þess þegar við 1. umr. þessa máls hjer í hv. deild, að þessi stjórnarskrárbreyting yrði aldrei annað en skrípaleikur. Það er nú komið á daginn, og við hverja umræðu og nýja athugun málsins fjölgar þeim, sem taka sjer þessi orð mín í munn. Betur, að menn hefðu verið ögn fljótari að átta sig, því að þá hefði óskapnaðurinn að líkindum ekki lifað fram á þennan dag. Hv. 2. landsk. (IHB) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) hafa nú með hinni mestu snild haldið fram flestu hinu sama, er jeg mundi sagt hafa, og get jeg fyrir þá sök orðið stuttorðari. Þótt mönnum kunni nú að virðast, að jeg endurtaki einhver atriði, sem aðrir hafa sagt, þá vil jeg biðja þá að minnast þess, að við 1. umr. hóf jeg andstöðuna gegn frv., og að þessir hv. þm. hafa talað algerlega í sama anda. Er mjer mikið ánægjuefni, að þeir hafa nú látið uppi þessa skoðun sína.

Það eru einkum 3 atriði af þeim, sem nú standa í frv., sem e. t. v. gætu átt einhvern rjett á sjer, og þó varla nema tvö þeirra. Ákvæðið um þingafækkun, sem flestir leggja mest upp úr, er svo átakanleg rjettarskerðing fyrir kjósendur landsins, að miklu meira nemur en sá sparnaður, sem af þingafækkun leiðir, — ef hann þá verður nokkur, sem jeg efast stórlega um.

Annað atriðið var að færa til sama tíma landskjör og almennar kosningar. Það mátti vel gera án svo verulegra breytinga, sem frv. gerir ráð fyrir. — Hitt atriðið er það, að láta ekki lengur orka tvímælis, hvernig varamenn taki sæti á þingi, ef aðalmenn forfallast. Jeg hefi altaf haldið því fram sem minni skoðun á því máli, að deilan um það sje aðeins ómerkilegt skæklatog um orðalag. Það sýnist nokkurnveginn sjálfsagt, að varamenn taki sæti á þingi í forföllum aðalmanna, meðan nokkur þeirra er uppistandandi. Alt annað er á móti heilbrigðri skynsemi, og jeg hefi ávalt álitið hana meira virði en tvírætt eða margrætt orðalag á einhverri lagagrein.

Jeg hefi nú sýnt þá sanngirni að skýra frá þeim breytingum frv., sem jeg álít vera heldur til bóta. En þær eru ekki svo mikilsverðar, að þær fái mig til að hverfa frá minni fyrri „villu“, — sem jeg býst við, að sumir kalli.

Jeg hygg nú, að ýmislegt hafi komið fram, sem heldur sje til bóta, að fram hefir komið, ef svo illa skyldi til takast, að frv. slampaðist gegnum þingið. Það álit hefir skýrt komið fram hjá hæstv. forsrh., að hann álítur ekki þörf á aukaþingi vegna stjórnarskrárbreytingarinnar. Þetta álít jeg þýðingarmikið, því að altalað er, að hæstv. stjórn ætli að rjúfa þing og láta kosningar fara fram snemma sumars, sjer til hagnaðar eða sínum flokki. En nú er kjörtímabil á enda, og sýnist það vera fullkominn barnaskapur að rjúfa þing í lok kjörtímabils. Sumir kunna að segja það á móti, að lög sjeu lög og þeirra bókstaf verði að fylgja. En það fer betur, svo sem jeg sagði áðan, að oftast er reynt að fylgja heilbrigðri skynsemi. — Hv. 2. landsk. skýrði það í ræðu sinni, að næg fordæmi eru fyrir því að fresta kosningum, þegar svona stendur á. Frá mínu sjónarmiði er það nær eini ljósi punkturinn hjá hæstv. stjórn, að hún sýnist nú hafa öðlast rjettan skilning um þetta atriði.

Það er auðvitað tilgangslaust að hafa um þetta mál frekari umræður, en þó verð jeg að víkja lítillega að brtt. hins ímyndaða „meiri hluta“, því að það hefir nú sannast, að í nefndinni fyrirfinst enginn meiri hluti.

Mjer skilst, að 1. brtt. á þskj. 569, sem jeg tel í sjálfu sjer lítils virði, eigi að vera einskonar uppbót á kosningarrjetti til landskjörs, þar sem orðið hefir að samkomulagi að færa aldurstakmarkið upp úr 25 árum í 30 ár. Um það ætla jeg ekkert sjerstakt að segja. En seinni liður þessarar sömu brtt. virðist mjer með öllu óþarfur, þegar athugað er ákvæði 5. gr. Um þessar brtt. ætla jeg ekki að fjölyrða frekar, enda er jeg staðráðinn í því að greiða atkv. á móti öllum brtt. á þessu þskj. og tel það í fullu samræmi við það, sem jeg hefi áður sagt.

Um brtt. á þskj. 578 er mjer næst skapi að greiða ekki atkv., en tel þó 1. og 2. brtt. vafasama, en leiði hjá mjer að ræða frekar um þær.

Þá er það brtt. á þskj. 597, og um hana verð jeg að segja það, að úr því að málið er komið í það óefni, sem er, þá verður því ekki bjargað nema að litlu leyti. Jeg mun þó greiða atkvæði með þessari brtt., þótt jeg hinsvegar skilji ekki, hvaða þýðingu það hefir að tiltaka sjerstakan mánaðardag, og finst það jafnvel óviðkunnanlegt.

Þessar athugasemdir læt jeg mjer nægja. Málið er þrautrætt, og það er meira en það á skilið. Mitt hugboð er, að þó að þessar breytingar á stjórnarskránni slampist í gegnum þingið, þá muni, við nánari athugun, engin sjerstök hrifni grípa hugi manna, hvorki fyrir hæstv. stjórn eða þeim, sem ljeð hafa því fylgi sitt.