17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Frv. það til laga um breyting á stjórnarskránni, er hjer liggur fyrir á þskj. 622 eftir eina umr. í hv. Ed., hefir tekið nokkrum breytingum frá því, sem það var þegar það fór hjer út úr þessari hv. deild. Þó er það svo, að 5 fyrstu greinarnar eru óbreyttar eins og þær fóru hjeðan, en á síðari greinunum eru gerðar nokkrar breytingar. Skal jeg gera stutta grein fyrir efnisbreytingunum, án þess þó að telja þær upp orð fyrir orð.

Fyrstu tvær breytingarnar snerta kosningarrjett til Alþingis. Hjer í hv. deild var sett inn í frv. ákvæði, er nemur á brott núgildandi ákvæði í stjórnarskránni um það, að skilyrði fyrir því, að menn hafi kosningarrjett til Alþingis, sje, að þeir standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Þessi breyting hefir verið feld í burtu úr frv., og er því eftir frv., eins og það nú kemur frá hv. Ed., ennþá eins og áður það skilyrði fyrir kosningarrjetti manna, að þeir standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Fyrir breytingu hv. Ed. eru færðar þær ástæður, að fyrirsjáanleg þætti afgreiðsla frá þinginu á frv. til fátækralaga, þar sem gerð væri sú sanngjarna árjetting um þetta atriði, að því er snertir menn, sem án sjálfskaparvíta hafa orðið að leita styrks af hinu opinbera.

Hin breytingin, er snertir kosningarrjettinn, er sú, að hjer í hv. deild var sett inn í frv. ákvæði um það, að allir menn 25 ára og eldri skyldu hafa kosningarrjett til landskjörs, í stað 35 ára og eldri, eins og nú er í stjórnarskránni. Til miðlunar hefir hv. Ed. gert þá breytingu, að hún hefir ákveðið lágmark kosningarrjettaraldursins 30 ár.

Samsvarandi breyting var gerð á kjörgengisaldri til landskjörs hjer í hv. deild, er færði lágmarksaldurinn niður í 25 ár, í stað 35 núgildandi. Þessu hefir hv. Ed. einnig breytt, þannig að í frv. eins og það kemur frá henni er það ákveðið 30 ár.

Þá er í frv. frá hv. Ed. bætt við nýrri grein, 10. gr., um það, að stjórnskipunarlögin skuli öðlast gildi þegar konungur staðfestir þau. Stendur ákvæði þetta í sambandi við 12. gr. frumvarpsins, sem bætt var aftan við frv. til þess að gera það mögulegt að setja fjárlög til tveggja ára á þingi 1928, enda þótt stjórnarskráin fái ekki konungsstaðfestingu fyr en um þingtímann það ár. Er þetta gert með því að setja inn bráðabirgðaákvæði um fjárlög til tveggja ára, þó ekki sje slíkt frv. lagt fyrir þingið í þingbyrjun, eins og áskilið er í stjórnarskránni.

Þá er smábreyting við 11. gr. frv., áður 10. gr., um það, hvenær umboð landsk. þm. fellur niður. Í stað þess, að hjer í hv. Nd. var sett ákvæði í frv. um, að umboðið fjelli niður eftir næstu almennar kosningar, þá hefir háttv. Ed. gert þá breytingu, að það falli niður eftir fyrstu almennar kosningar eftir 9. júlí 1931, af því að svo er litið á, að þá sje á enda umboð þeirra, sem kosnir voru 1922. Er þetta gert til þess að tryggja það, að kjörtíminn verði ekki meira styttur en svo, að fyrri helmingur landsk. þm. haldi tíma sínum óskertum, en seinni helmingurinn, þeir, sem kosnir voru 1926, sitji hálft kjörtímabil sitt, til 1930, ef gert er ráð fyrir, að kosið verði 1931. Sama stóð upphaflega í stjfrv. Stjórnin hafði stungið upp á 6 ára kjörtímabili, en hjer í deildinni var sú breyting sett inn í frv., að kjörtímabilið skuli vera 4 ár. Hefir það orðið að samkomulagi í hv. Ed. meðal þeirra, sem annars eru frv. fylgjandi, að láta þetta haldast óbreytt í frv. til samkomulags við hv. Nd.

Eins og frv. er nú úr garði gert, þá felur það í sjer höfuðatriðin í stjfrv. um það, að fjárlagaþing skuli háð 2. hvert ár og að kjördæmakjör og landskjör fari fram samtímis, og þar af leiðandi að þingrof nái til beggja.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um, hvaða breytingum frv. hefir tekið í hv. Ed., en vil aðeins fyrir hönd stjórnarinnar mæla með því, að hv. deild samþykki frumvarpið óbreytt. Ef það verður gert, þá er fyrra sporið stigið til breytinga á stjórnarskránni, og þá liggur fyrir, að frv. komi fyrir næsta þing eftir þingrof og nýjar kosningar. Ef frv. verður breytt hjer, þá ber að líta svo á samkv. stjórnarskránni, að frv. sje fallið á þessu þingi.