18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Líndal:

Jeg hefi ekki lagt það í vana minn að tefja umr. með því að gera grein fyrir atkvæði mínu, en nú er sjerstaklega ástatt, þar sem um stórmál er að ræða.

Eins og hv. deildarmenn sennilega muna, greiddi jeg atkvæði á móti þessari stjórnarskrárbreytingu út úr deildinni, en jeg ætla nú að breyta um og greiða atkvæði með henni að þessu sinni. Til þess er sú ástæða, að jeg vil ekki standa í vegi fyrir því, að þjóðin geti sagt um það við næstu kosningar, hvort hún vill þessar einar breytingar eða ekki. En jeg verð að endurtaka það, að jeg hefi veika trú á því, að þessar breytingar megi að nokkru haldi koma, og þótt jeg hafi litla trú á þessum breytingum sjálfur, þá virðist mjer þó, að flestir aðrir hv. deildarmenn hafi ennþá minni trú á þeim, og því til sönnunar vil jeg benda á, að það var feld hjer með miklum meiri hluta atkvæða brtt. frá okkur nokkrum þm. um það að fella niður það ákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins, að ákveða megi með einföldum lögum, hvort þing skuli haldið árlega eða annaðhvert ár, en það er í mínum augum óræk sönnun þess, að þeir hv. þm., sem greiddu atkvæði á móti þessari brtt., hafa enga trú á því, að þetta verði að nokkru gagni í framtíðinni.

Stjórnarskrárnefndin hefir lítils háttar athugað þetta mál í morgun, og þótt jeg sje ekki frsm. þeirrar nefndar, skal jeg leyfa mjer að geta þess, að fjórir nefndarmenn voru sammála um að mæla með því, að frv. yrði afgreitt, en tveir voru því andvígir (einn fjarstaddur).

Jeg mun nú greiða atkv. með frv., til þess að þjóðinni gefist kostur á að dæma um það við næstu kosningar, en alls ekki af því, að jeg hafi neina verulega trú á því, að þetta verði að varanlegu gagni.