18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Jeg verð því miður að tefja umr. að því er þetta frv. snertir, sem hjer liggur fyrir.

Jeg verð að telja þann sparnað, sem leiðir af því að hafa fjárlög fyrir tvö ár í senn, mjög vafasaman, og tel út af fyrir sig alls ekki vert að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna þess vegna. En því verður á hinn bóginn ekki neitað, að í þessu frv. er dálítil lagarjetting, og heldur ekki, að eftir að frv. hafði verið hjer til meðferðar í deildinni, voru komnar allgóðar rjettarbætur inn í það, en aftur hefir hv. Ed. talsvert skert þær, svo að nú er orðið það minsta af rjettarbótum í frv., sem verða má. Út af fyrir sig get jeg samt sætt mig við þær, þar sem þær voru einmitt bornar fram af mjer fyrstum manna.

En það er eitt atriði, sem jeg sakna í stjórnarskránni, og það er það, að breytt sje núverandi ákvæðum um, að þurfalingar skuli missa af kosningarrjetti. Jeg hefði að minsta kosti talið það miklu hyggilegra af hv. Ed., úr því að hún ekki gat sætt sig við ákvæðið eins og það var sett inn í Nd., að hún hefði samþ. þá till., sem hv. þm. Dal. (JG) bar fram hjer í deildinni, þess efnis, að það mætti skipa þessu með lögum, og jeg verð að líta svo á, að það sje það skemsta, sem fara mætti, þar sem nú er tekið upp í fátækralögin ákvæði um það atriði, en það er vitanlegt, að það ákvæði þótti ekki fara eins vel úr hendi og vera mætti, einmitt vegna þessa stjórnarskrárákvæðis. Jeg sakna þess mjög, en hinsvegar þykist jeg vita það, að það yrði klifað á þessum sparnaði við fækkun þinga ár frá ári, og þess vegna verður ekki komist hjá því að reyna þetta, og úr því að ákvæðið hjelst þó um, að þessu mætti breyta með einföldum lögum, þá sje jeg ekki, að stór skaði sje skeður, og vil jeg þess vegna ekki leggjast á móti frv. eins og það er.