08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Eins og hv. þdm. sjá, varð mentmn. ekki sammála um þetta frv. En þó að hún klofnaði, er ágreiningurinn mjög lítill efnislega. Mjer er víst óhætt að segja fyrir hönd nefndarinnar allrar, að enginn ágreiningur sje um það, að heppilegt og nauðsynlegt sje að koma upp heimavistarhúsi fyrir mentaskólann. Það er samróma álit, að slíkt sje nauðsynlegt, bæði vegna skólalífsins yfirleitt, og svo til þess að ljetta þeim kostnað, sein hjer stunda nám utan af landi. Það, sem ágreiningi olli í nefndinni, var aðferðin við framkvæmd málsins. Stjórnin hafði valið þann kost, að bera fram frv. um þetta, en minni hl. nefndarinnar telur það ekki eðlilegustu leiðina, heldur eigi að veita nauðsynlega upphæð í fjárlögum til þessa fyrirtækis, þegar fært þyki.

Jeg ætla ekki að svo stöddu að tala alment um málið; býst við, að dagskrá minni hl. og greinarg. hans fyrir henni gefi mér tilefni til þess síðar. — Breytingartillögur meiri hl. eru smávægilegar, og þarf jeg lítið um þær að segja. Okkur fanst nauðsynlegt að taka fram, að í húsinu væri íbúð handa kennara. Í lauslegum uppdrætti húsameistara er gert ráð fyrir aðeins tveim stofum handa kennara, en okkur þykir rjettara, að fyrir því sje sjeð, að fjölskyldumaður geti búið í húsinu, enda hleypir það ekki fram kostnaði að neinum verulegum mun. 2. brtt. er aðeins orðabreyting, eins og allir sjá. Jeg býst ekki við, að stjórnin hafi ætlast til, að stúlkur skyldu útilokaðar frá þessum heimavistum, en eftir orðalagi greinarinnar, þar sem talað er um „námssveina“, mátti skilja frv. svo.

Jeg skal svo ekki teygja umræður frekar, en leyfi mjer að leggja til, fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, að hv. deild þóknist að samþ. þetta frv.