08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Jeg bjóst ekki meira en svo við því, að þetta mál kæmi til umræðu í dag, og er því ekki sjerstaklega undir það búinn, að gera grein fyrir áliti minni hl. En málið er einfalt, og það verður að sitja við það, þó að jeg sleppi að minnast á eitthvað, sem vert hefði verið að taka fram.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) skýrði rjett frá því, að um lítinn ágreining hefði verið að ræða, þótt svo færi, að nefndin klofnaði. Nefndin er sammála um, að stefna beri að því, að koma upp heimavistahúsi við mentaskólann. Ágreiningurinn er aðeins um það, hvaða leið skuli farin. Meiri hl. vill láta samþ. frv., sem heimilar stjórninni með sjerstökum lögum að láta reisa þetta hús, en minni hl. telur af ýmsum ástæðum rjettara, að til þess þurfi sjerstaka fjárveiting á fjárlögum.

Það má víst slá því föstu, að þótt þetta frv. yrði samþ., mundi ekki verða ráðist í að reisa húsið á þessu ári, og tæplega á því næsta. Hefir hæstv. forsrh. (JÞ) látið orð falla á þá leið á einum fundi nefndarinnar um þetta mál. Bjóst hann við, eftir því útliti, sem nú væri, að ekki yrði hægt að reisa húsið fyr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Það er því auðsjáanlega nægur tími til þess að koma fjárveitingu til byggingarinnar inn í næstu fjárlög, og ekki hægt að sjá, að það geti gert málinu neinn skaða, þótt þetta frv. sje ekki samþ. nú. Á hinn bóginn lítur minni hl. svo á, að það ætti að vera regla, a. m. k. þegar hægt er að koma því við, að taka fjárveitingar upp í fjárlög, en hafa sem minst af sjerstökum lögum í svona sniði. Við minnihlutamenn erum báðir stjórnarandstæðingar. Afstaða okkar byggist þó ekki á því, að við vantreystum stjórninni til þess að fara með þessa heimild. En við ætlum, að afgreiðsla fjárlaganna verið gætilegri, ef horfst er í augu við gjaldahliðina í einu lagi. Það er ekki æfinlega litið nógu vandlega á, hve háir gjaldaliðir felast í sjerstökum lagaheimildum. Jeg veit ekki annað en að hæstv. fjrh. (JÞ) sje okkur sammála um þetta. Jeg held, að jeg fari rjett með það, að hann hafi oftar en einu sinni haldið því fram hjer, að rjett væri að fylgja þeirri reglu, að slíkar fjárveitingar sem þessi væru teknar í fjárlög.

Í stað þess að bera fram rökstudda dagskrá, hefði að vísu nægt að setja það ákvæði í frv., að það kæmi til framkvæmda, þegar fje væri til þess veitt í fjárlögum. En frv. var þá orðið þýðingarlaust, því að það felur ekki í sjer annað en fjárveiting. Verkið er auðvelt að framkvæma, hvenær sem fje er fyrir hendi. Við gátum ekki lagt til, að frv. yrði samþ. með breytingu, sem gerði það þýðingarlaust, og kusum því að bera fram dagskrána.

Auk þess, sem jeg hefi nefnt, má fleira telja, sem gerir varhugavert að samþ. frv., eins og það liggur fyrir, m. a. það, að undirbúningur málsins virðist ekki svo góður sem skyldi. Jeg hefi heyrt núna rjett nýlega — og getur hæstv. ráðh. (MG) upplýst, hvort það er rjett — að þetta mál hafi ekki verið borið undir skólameistara og kennara mentaskólans, og verð jeg að telja það galla. Þá stendur í frv., að þetta hús eigi að reisa á lóð mentaskólans. Við höfum reynt að athuga, hvort þetta væri tiltækilegt, og komist að þeirri niðurstöðu, að enginn heppilegur staður væri fyrir húsið á þeirri lóð. Það verður að hugsa fyrir fleiru en húsnæðinu einu. Aðstaða verður að vera þægileg, og nemendur verða að eiga kost á að komast undir bert loft.

Jeg sá, að í fundarbyrjun var útbýtt brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um, að orðin „á lóð skólans“ skuli falla niður. Minni hl. hefir ekki enn tekið afstöðu til till. þessarar, og vil jeg því ekki tala um hana að svo komnu.

Að öllum ástæðum athuguðum leyfir minni hl. mentmn. sjer að leggja til, að rökst. dagskráin verði samþ. og frv. þannig afgreitt. Sú dagskrá ber það með sjer, ef hún verður samþykt, að háttv. deild álítur, að heimavistahús beri að byggja, þegar ástæður ríkissjóðs leyfa, enda þótt hún sjái ekki ástæðu til að afgreiða málið í lagaformi.