08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer þykir leitt, að hv. mentmn. skuli ekki hafa orðið samferða í þessu máli, þar sem jeg fæ ekki sjeð, að meiri og minni hl. greini í raun rjettri nokkurn skapaðan hlut á. Eini ágreiningurinn virðist vera um það, hvort rjett sje að samþykkja slíkar áætlanir sem þessa fyrir framtíðina. Hv. minni hl. virðist hugsa eitthvað á þá leið, að það sje alveg óvíst, hvenær hægt verði að hefjast handa í þessu máli, og liggi því ekki á að gera samþyktir um það fyr en síðar. En jeg vil benda á, að það er ekki sjaldgæft hjer á þingi, að gera þess háttar áætlanir. Jeg man eftir tvennum slíkum lögum, sem samþykt voru hjer á þingi í fyrra, önnur um viðauka við Flóaáveitulögin og hin um bryggjugerð í Borgarnesi. Jeg skil ekki þau straumhvörf, sem orðin eru, ef þetta er ekki eins leyfilegt nú. Þessi dæmi, sem jeg nefndi, eru heldur ekki hin einu. Stórir lagabálkar, eins og símalög og vegalög eru einmitt þessa eðlis. Í fyrra voru t. d. samþ. um 20 nýjar símalínur, sem leggja skyldi einhverntíma í framtíðinni. Sje jeg ekkert á móti þessari lagasetningu. Hún sýnir, að Alþingi álitur þörf á að gera þetta, enda þótt það treystist ekki til að ákveða, hvenær byrjað skuli á framkvæmdum.

Mjer skildist á hv. frsm. minni hl. (BSt), að hann setti það fyrir sig, að svona lagasetning kæmi illa heim við fjárhagsáætlanir fjárlaganna. En þegar hann lætur það fylgja með, að hann treysti stjórninni til að leggja ekki út í framkvæmdir nema haganlegt sje, fæ jeg ekki betur sjeð en að hann hafi þar með eyðilagt sína eigin mótbáru.

Það er rjett hjá hv. þm. (BSt), að ómögulegt verður að leggja út í nokkrar framkvæmdir í málinu á þessu ári, en hver veit, nema það verði hægt á árinu 1928? Hverjum skyldi t. d. hafa dottið í hug á þingi 1924, að ríkissjóðum mundi hafa svo mikið fje sem raun varð á árið 1925? Jeg held, að þessi litli ágreiningur milli hv. nefndarhluta ætti ekki að mega verða frv. að fótakefli, þegar öllum kemur saman um þörfina á því, að byggja heimavistir.

Hv. frsm. minni hl. (BSt) talaði uni, að undirbúningur málsins væri ekki góður, og að frv. hefði ekki verið borið undir rektor eða kennara mentaskólans. Það er nú rjett, að þetta frv. hefir ekki verið formlega undir þá borið, en bæði skólameistari og kennarar hafa áður látið í ljósi, að það væri eindregin ósk þeirra, að heimavistir yrðu bygðar. Veit jeg enga ástæðu til að ætla, að þeir hafi breytt skoðun um það efni. Í sambandi við þetta frv. var ekki annars að spyrja en hvort þeir vildu heimavistir eða ekki, og jeg verð að taka undir þá skoðun, að það væru undarlegar skólastjórnir, sem ekki vildu heimavistir fyrir nemendur sína. Mjer er einnig kunnugt af viðtali við suma kennara, að afstaða þeirra hefir í engu breyst. Hitt er alt annað mál, og liggur ekki hjer fyrir, að sjálfsagt er að leita álits skólans um einstök atriði í fyrirkomulagi heimavistanna, þegar þar að kemur.

Við brtt. hv. þm. V.-ísf. (ÁÁ) hefi jeg ekkert að athuga. Hún fer aðeins fram á að slá því á frest, að ákveða stað fyrir heimavistahúsið, og ætti það ekki að gera neitt til. Jeg álít það raunar heppilegast, að hafa heimavistirnar sem næst skólanum sjálfum. Og jeg get ekki heldur viðurkent það, sem sagt hefir verið, að lóð mentaskólans sje lítil. Hún er einmitt ein með stærstu lóðunum í þessum bæ, og man jeg ekki eftir, að nokkur skóli bæjarins hafi svo stóra lóð til umráða. Gæti helst verið, að það yrði hinn nýi barnaskóli, sem á að fara að byggja, sem þar kæmi til samjafnaðar.

Jeg get ekki skilið, að þeir, sem vilja málinu vel, áliti, að því sje hrundið aftur á bak með þessu frv. Þvert á móti verður það að teljast stórt spor áleiðis. Oft hefir verið um það rætt, hve erfitt sje fyrir fátæka pilta utan af landi að stunda hjer nám, og hefir þó varla verið ofsögum af því sagt. Væri því mikið unnið, þótt ekki munaði nema einu ári, sem heimavistunum yrði fyr upp komið fyrir frv. Alt þetta veit hv. frsm. minni hl. (BSt), og hefir meira að segja sjálfur haldið því fram á þingi áður.

Um brtt. hv. meiri hl. þarf jeg fátt að segja. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort ákveðið er í lögunum sjálfum, að kennari skuli hafa íbúð í húsinu. Um síðari brtt. skal jeg aðeins taka það fram, að það var alls ekki tilgangur stjórnarinnar að útiloka kvennemendur frá heimavistum mentaskólans, þó að ef til vill mætti skilja orðalag frv. svo. Hinsvegar játa jeg, að þetta orðalag er mjer að kenna. Mjer fanst orðið „skólasveinn“ svo fallegt og það búið að fá þá hefð í málinu, að jeg vildi helst hafa það, og kom þá ekki til hugar, að það gæti valdið neinum misskilningi, enda mun það tíðast, að það sjeu skólasveinar, sem hjer er um að ræða, að njóti þessara hlunninda, því að utan af landi munu tiltölulega fáar námsmeyjar sækja hingað til mentaskólans; þær eru yfirleitt hjeðan úr bænum, sem stunda hjer nám.

Annars hefi jeg ekki frekar við þetta að athuga, og vona, að frv. fái að halda áfram.