08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, að minni hl. færði engin rök gegn því, að frv. næði fram að ganga í því formi, sem það er; aðeins því haldið fram af okkur minnihlutamönnum, að málið væri óþarft eins og nú horfir. En í sömu andránni tók hann þó upp sömu rökin, sem jeg færði móti frv.: að afgreiðsla fjárlaganna mundi síður verða gætileg, ef fje væri þannig heimilað með sjerstökum lögum. Þetta voru rökin, sem jeg færði, Hann bætti því við ennfremur, að afgreiðsla fjárlaganna væri því aðeins gætileg, að fult tillit væri tekið til þeirra fjárveitinga, sem fælust í 24. gr. fjárlaganna. Þetta er að vísu rjett, en reynslan sýnir, að það hefir ekki verið gert nægilega hingað til.

Hv. frsm. benti á, að tíðkast hefði áður að heimila fje úr ríkissjóði með sjerstökum lögum, t. d. til ýmsra opinberra húsabygginga. Það neitar víst enginn því, að þetta hefir verið gert. En jeg er þeirrar skoðunar, að þetta sje óheppilegt og alls ekki forsvaranlegt, og síst, þegar fjárhagur ríkissjóðs er jafnörðugur eins og nú. Það hefir líka komið á daginn, að þingi og stjórn hefir þótt varlegra að nota ekki þá heimild, sem felst í lögunum frá 1919, heldur hafa fjárveitingar til flestra þeirra bygginga, sem reistar hafa verið samkvæmt þeim, jafnframt verið teknar upp í fjárlög. Þá mintist hann á, að þingið hefði áður skorað á stjórnina að koma með till. um heimavistir við hinn almenna mentaskóla, og því væri undarlegt, ef þetta frv. yrði ekki samþ. nú. Það er nú svo, að till. um þetta geta komið fram með ýmsu móti. Jeg hefði t. d. talið rjettara, að till. kæmi frá hæstv. stjórn um að taka þetta upp í fjárlög, þegar hún sjer það fært fjárhagsins vegna, og fyr ekki, og á þann hátt hefði áskorun þingsins verið fullnægt á sínum tíma.

Háttv. frsm. taldi heppilegra fyrir stjórnina að hafa heimild um þetta í sjerstökum lögum en að fje væri til þess veitt í fjárlögum; þá væri hægt fyrir hana að grípa tækifærið, þegar fjárhagurinn leyfði, og láta þá byrja á byggingunni. En jeg býst nú við, að fje, sem safnast í góðu ári, þurfi ekki að eyðast samstundis, og að þá verði tekjuafgangur; mætti þá taka upp í fjárlögin næsta ár á eftir fjárveitingu til þess að reisa heimavistarhúsið. Hann tók líka fram, að það gæti verið þægilegt fyrir hæstv. stjórn að hafa þessa heimild, sem frv. fer fram á, ef um sjerstakt atvinnuleysi væri að ræða í bænum. Þetta kann rjett að vera, en jeg held, að síst sje skortur á verkefni, ef fje er fyrir höndum til framkvæmdanna. Væri nær að ljúka við þær framkvæmdir, sem þegar er byrjað á, eins og t. d. byggingu landsspítalans, heldur en að ráðast í nýjar.

Hv. frsm. vildi halda því fram, að það væri ekkert undarlegt, þó að þetta mál hefði ekki nú verið borið undir rektor og aðra kennara mentaskólans, enda væri kunnugt, að þeir vildu allir, að heimavist kæmist á, og því ekki annað að gera hjer en að Alþingi ákvæði, hvort heimavist skuli takast upp við skólann eða ekki. Þó að jeg sje ekki beinlínis að efa, að hjer sje farið rjett með, þá finst mjer þó, að æskilegt hefði verið, að þessu máli hefði að minsta kosti fylgt umsögn og álit rektors um það, hvort hann teldi nauðsynlegt, að heimavist kæmist á við skólann. Í því sambandi vil jeg geta þess, að jeg hefi þekt skólastjóra, seni var algerlega á móti því, að heimavist væri tekin upp við skóla hans, og svo kann að vera um fleiri. En þó víst kunni að vera, að rektor og kennarar skólans vilji fá heimivistina, þá finst mjer, að samt hefði átt að bera þetta frv. undir þeirra álit. Skal jeg í því sambandi benda á tvö atriði í frv.: Í fyrsta lagi er það um lóð skólans, hvort hún sje hentug eða nógu stór til þess, að á henni verði reist nægilega stórt hús fyrir heimavist. Og í öðru lagi var ekki hægt að skilja frv. á annan veg en þann, að heimavistin ætti eingöngu að ná til skólapilta. Hæstv. ráðh. (MG) hefir nú skýrt frá því, að svo væri ekki. Heimavistin ætti jafnt að ná til karla og kvenna, sem til skólans sækja utan af landi. En bæði þessi atriði tel jeg að minsta kosti sjálfsagt, að borin hefðu verið undir rektor og kennara skólans, því að bæði geta þau orkað mjög tvímælis, þó fallist sje á, að heimavistin eigi að koma.

Hæstv. atvrh. (MG) mintist á, að hentugt væri fyrir ríkið að gera áætlun um framtíðina, og benti í því sambandi á, að þetta væri gert, t. d. með símalögunum. Í þeim lögum væri bundin áætlun um símalínur, sem ekki væri búið að leggja. Jeg er honum sammála um, að slíkar áætlanir fyrir framtíðina sjeu nauðsynlegar, og því sje heppilegt að gera þá áætlun um heimavist mentaskólans, að húsið verði þá reist, er fje er til þess veitt í fjárlögum. En í frv. felst heimild fyrir stjórnina að láta byrja á þessum framkvæmdum þegar henni sýnist. Um símalínurnar er alt öðru máli að gegna. Þó að þær sje upp teknar í símalögin, er aldrei ráðist í að byggja þær, nema fje sje til þess veitt í fjárlögum. Við minnihlutamenn hefðum ekkert á móti því, að samþ. frv., ef það ákvæði fylgdi með, að heimavistarhúsið skyldi ekki reist fyr en fje sje veitt til þess á fjárlögum. Þá er það orðið hliðstætt við símalögin, en fyr ekki.

Hæstv. atvrh. (MG) ljet þess getið, að mjög litlar líkur væru til þess, að heimavistahúsið mundi bygt á þessu eða næsta ári, en þó væri ekki loku fyrir það skotið. En jeg tel víst, að þó hægt væri að reisa húsið, þá mundi það því aðeins gert, að hætt væri við aðrar framkvæmdir. Og þó að eitthvert fje yrði afgangs, þá mundi nóg við það að gera, t. d. mundi landsspítalanum ekki af því veita. Hæstv. atvrh. (MG) vjek að því að lokum, sem oft hefir verið minst á áður, að aðalástæðan fyrir þessu máli væri sú, hve erfitt það reyndist utanbæjarpiltum að kosta sig hjer námsár sín. Þetta er satt, og því mesta þörf, að úr þessu sje bætt, og það sem fyrst. En jeg fæ ekki sjeð, að með þessu frv. verði úr þeim vandræðum bætt á næsta ári. Þess vegna er engin ástæða til, að þingið fari nú að afsala sjer fjárveitingavaldi sínu í hendur hæstv. stjórnar. Auk þess mætti benda á í þessu sambandi, að nú er svo komið, að ekki er útilokað fyrir fátæka pilta utan af landi að afla sjer ódýrari kenslu en verið hefir, t. d. við gagnfræðaskólann á Akureyri. Hann hefir nú, eins og kunnugt er, byrjað á framhaldskenslu undir stúdentspróf, og vona jeg, að á því verði áframhald, sem beri góðan ávöxt í framtíðinni. Og þó að sumir líti svo á, að hann muni að mestu ætlaður Norðlendingum og Austfirðingum, þá stendur hann öllum opinn, hvaðan af landi sem er, á meðan húsrúm leyfir. Svo er líka þess að gæta, eins og jeg hefi margoft tekið fram áður, að á Akureyri er ódýrara að dvelja en hjer í Reykjavík, að heimavistin þar verður námspiltum þeim mun ódýrari en hjer sem nema mun ferðakostnaði þangað. Hinsvegar má enginn skilja orð mín svo, að jeg telji þetta fullnægjandi um aldur og æfi, heldur megi við það una um 2–3 ár, með þeim tækjum, sem skólinn hefir fengið, og þess vegna ekki jafnbrýn nauðsyn einmitt nú að koma upp heimavist við mentaskólann, þó að sjálfsagt sje að gera það undir eins og Alþingi viðurkennir, að þær ástæður sjeu fyrir hendi, sem leyfa það.

Annars ætla jeg ekki að fjölyrða frekar um þetta. Það er ekkert kappsmál fyrir mjer, að standa móti því, að frv. þetta verði samþ., þó jeg telji heppilegra að bíða, þangað til betur árar fyrir ríkissjóð og hægt sje að veita fje til þessara framkvæmda í fjárlögum.