08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tók það fram áður, að rektor mentaskólans hefði verið spurður um það í öndverðu, hvort hann vildi, að heimavist væri upp tekin við skólann, og að hann hefði svarað því játandi, og hinir aðrir kennarar sömuleiðis. Þess vegna er ástæðulaust að spyrja um þetta aftur. En efist hv. minni hl. um, að hjer sje rjett frá skýrt, þá var þeirra að spyrja rektor og kennara og vita, hvort hugur þeirra væri hinn sami. Jeg fyrir mitt leyti geri ekki ráð fyrir, að hann hafi breyst.

Annars held jeg, að allir skólastjórar sjeu þeirrar skoðunar, að skólum sje það betra og hollara að koma sjer upp heimavistum, ef þess er nokkur kostur á annað borð, svo að hann er víst einasta undantekningin, þessi skólastjóri, sem hv. frsm. minni hl. (BSt) mintist á.

Viðvíkjandi lóðarspursmálinu, þá játa jeg, að brtt. hv. þm. V.-Ísf. (AA) bætir úr og að stjórnin er þá ekki bundin við neinn ákveðinn stað, sem húsið skuli reist á.

Hv. frsm. minni hl. (BSt) sagði, að frv. þetta, eða heimild sú, sem farið er fram á með því, væri ekki sambærileg við símalögin. En jeg skal aðeins benda honum á, að samkvæmt símalögunum hefir stjórnin heimild til að láta byggja símalínur fyrir afgang þann, sem verða kann á tekjum við rekstur símans, þó að stjórnin hafi hinsvegar ekki sjeð sjer fært að gera það. Með þessu frv. er því síst farið lengra en símalögin mæla fyrir, heldur mætti miklu fremur segja, að skemra væri gengið.

Hv. frsm. minni hl. (BSt) vildi hafa þessa heimild í fjárlögum, en ekki í sjerstökum lögum, en tók þó fram um leið, að hann treysti stjórninni til að misnota ekki þessa heimild. M. ö. o.: hann treystir stjórinni til þess að byrja ekki á þessum framkvæmdum fyr en fje er fyrir hendi.

Annars verð jeg að halda, að það sjeu einhverjar stjórnir fram í tímanum, sem hann vill ekki veita þessa heimild, enda skaut því upp í ræðu hans, að heimavistarhúsið ætti helst ekki að reisa fyr en búið væri að ljúka við landsspítalann, en til hans er árlega veitt í fjárlögum, svo að ekki kemur í bága við hann, að ráðast í að reisa húsið, ef fje er fyrir hendi áður en spítalinn er fullgerður. Það mætti benda á það, að ótal dæmi eru þess í þingsögunni, að Alþingi hefir í stærri málum en þessu afsalað fjárveitingarvaldi sínu í hendur stjórninni, og ekki orðið að sök.

Að vísa á Akureyrarskólann í þessu sambandi, kemur að litlum notum, því þar mun setinn bekkur, og fáir einir, sem þar fá inni, svo að slík ávísun mun að litlu haldi koma. Mjer skildist líka á síðustu orðum hans, að honum væri ekkert kappsmál að fella frv., en vildi hinsvegar fresta framkvæmdum, þangað til fje væri veitt til þess í fjárlögum. En þar sem hann lýsir því yfir, að hann vantreysti ekki stjórninni og trúir henni til að misnota ekki heimildina, þá skilst mjer ekki, hvers vegna hann er eiginlega á móti frv. og leggur til, að málinu sje að þessu sinni eytt með rökstuddri dagskrá.