08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Tryggvi Þórhallsson:

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) og hæstv. dómsmrh. (MG) hafa haft svo hörð orð um það, ef atkv. skyldu verða greidd með dagskrártill. á þskj. 104, eins og þar væri um einhverja goðgá að ræða.

Nú ætla jeg að greiða atkv. með dagskránni, og þykir því hlýða að gera örlitla grein fyrir því.

Jeg vil þá byrja með því, að gera þá yfirlýsingu, að jeg er því fylgjandi, að reistur sje heimavistabústaður við mentaskólann, þegar ástæður leyfa og fje er fyrir hendi. Jeg er þeirrar trúar, að það sje farsælt piltum og þeim til góðs, auk þess sem það setur sinn svip á skólann. En jeg verð að taka undir með hv. frsm. minni hl. (BSt), að til þess sje ekki heppilegur tími nú, og því síður, að það sje heppilegt, eins og sakir standa, að afsala fjárveitingarvaldi þingsins í hendur stjórnarinnar, þegar þess er þá gætt, að fjvn. Nd. hefir ekki sjeð sjer fært að taka upp á fjárlög 1928 fjárveitingu í þessu skyni.

Jeg er sammála hæstv. fjrh. (JÞ), er hann heldur því fram, að fjárlögin eigi að vera sem rjettust mynd af fjárhagsgetu ríkisins, og þess vegna eigi að forðast öll aukin útgjöld með heimildum sjerstakra laga.

Þar sem hæstv. dómsmrh. (MG) talaði um heimild stjórnarinnar til þess að láta byggja símalínur, þá er það að vísu satt, að það er svo á pappírnum. En hitt veit jeg, að stjórnin sjer sjer ekki fært að framfylgja því, nema símastjóri hafi lagt fram sitt álit og að fje sje til þess veitt í fjárlögum. Þess vegna er ekki um hliðstæð dæmi að ræða, að bera frv. þetta saman við símalögin.

Ástandið, sem nú ríkir, er þess valdandi, að ekki er hægt að sinna þessu máli, og að Alþingi verður að gjalda varhuga við að afsala á nokkurn hátt fjárveitingarvaldinu úr sínum höndum.

Jeg býst við, að fjvn. Nd. verði að leggja til, að fella niður sumar nauðsynlegustu framkvæmdirnar eða þá að draga úr þeim til stórra muna. Til þessa finnum við best og sárast, sem vinnum í fjvn. og verðum á hverjum degi svo að segja að skera niður eða þá að rifa seglin, svo að fjármálaskútunni sje óhætt. Úr öllu verður meira og minna að draga, eigi okkur að fleytast fram úr örðugleikunum. Jeg skal t. d. nefna eitt dæmi. Embættismenn ríkisins hafa sent fulltrúa sína á fund fjvn. og farið fram á að fá laun sín bætt. Þeir hafa áður snúið sjer til hæstv. stjórnar, og hún ekki sjeð sjer fært að verða við óskum þeirra, og líklega fer á sömu leið fyrir nefndinni, að hún sjái sjer ekki fært að sinna þessu, þótt hún hinsvegar játi, að meir muni nú þrengja að embættismönnunum en áður. Nefndin hefir að vísu ekki tekið afstöðu um þetta, en jeg geri ráð fyrir því, að ekki verði hægt að sinna því. Og þegar ástandið er svo, að nefndin verður auk þessa að neyðast til að flytja till. um að stöðva sum þörf og nauðsynleg fyrirtæki, þá er ekki að vænta, að hún geti lagt til, að fje verði veitt til þess að reisa heimavistahús, sem álíta má, þótt nauðsynlegt sje, að betur þoli bið en sumt annað, er niður verður að skera. Og jeg get bætt því við, frá mínu sjónarmiði, að það hefir ekki aukist traust mitt á hæstv. stjórn til þess að fara með heimild þá, er frv. nefnir, þó að hæstv. dómsmrh. (MG), sem einu sinni var „ekki dómsmálaráðherra“, eins og alkunnugt er, sje nú orðinn það.