08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Atv. og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Út af seinni ræðu hv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg aðeins benda á það, að hann blandar saman tvenn hlutum, þegar hann talar um fjárlagafrv. fyrir 1928 og þetta frv. Í því frv. er skipað fyrir, hvaða útgjöld skuli int af hendi á því ári, en í frv., sem hjer er um að ræða, er alls ekki sagt, að þetta eigi að gera 1928. Það er lagt í vald stjórnarinnar. Og það hefir komið fram meðal annars frá hv. minni hl., að hann vantreysti ekki stjórninni til að meta þetta atriði. Hv. þm. Str. (TrÞ) getur því ekki haldið því fram, að þetta hljóti að verða byrði á árinu 1928, nema með svo feldu móti, að fært yrði að leggja fram af tekjum þess árs, þegar búið væri að inna af hendi þær greiðslur, sem fjárlögin fyrir 1928 gera ráð fyrir. Hjer er verið að vinna fyrir unga og efnilega pilta, sem eru svo staddir, að þeir geta ekki stundað nám án þess að lenda í vandræðum. Og þar sem við vitum það, að þessir piltar eru bestu mannsefni þjóðarinnar, þá væri hart, ef stjórninni væri ekki veitt þessi heimild. Hv. þm. Str. (TrÞ) ljet svo um mælt, að ýmislegt gott hefði komið fram frá hæstv. forsrh. (JÞ) og jafnvel frá mjer. Verð jeg að segja, að það er meira en jeg gat átt von á frá honum, og meira en jeg get sagt um hann.