13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Eins og hv. deild er kunnugt, lagði ríkisstjórnin frv. þetta fyrir Alþingi í byrjun þings. Kemur það hingað frá hv. Nd. Mentmn. hefir íhugað frv. rækilega og borið það undir, rektor mentaskólans. Að fengnu áliti hans gat nefndin ekki átt samleið, og hefir meiri hl. birt álit sitt á þskj. 546, sem jeg vænti, að hv. deild hafi kynt sjer. Frá almennu sjónarmiði hefi jeg litlu við að bæta það, sem þar er sagt. Samtalið við rektor mentaskólans styrkti okkur í þeirri trú, að hjer væri um að ræða gamla og nýja kröfu. En það, sem hann aðallega upplýsti, var, að nægja mundi rúm fyrir 40 námsmenn í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir 50. Leiðir af því nokkurn sparnað, og er því ekki nema gott eitt um það að segja. Mun rektor hafa miðað álit sitt m. a. við það, hve margir utanbæjarnemendur hafa sótt um húsaleigustyrk á undanförnum árum. Eru árlega veittir 36 skamtar, 50 krónur í hlut, og hefir það virst nægja, ekki verið fleiri umsækjendur. — Frv. tók litlum breytingum í Nd. Aðallega voru gerðar á því tvær breytingar, að í húsinu skyldi vera íbúð fyrir kennara, sem væri umsjónarmaður, og að í stað „námssveina“, sem í stjfrv. stóð, kæmi „nemenda“. Þetta er hvorttveggja í rjetta átt, því að skólann sækja bæði piltar og stúlkur, og heimavistin þarf að hafa umsjónarmann, sem þar hefir íbúð. Mín skoðun er sú, að undir vali umsjónarmannsins verði það mest komið, hvernig heimavistin reynist.

Eins og tekið er fram í nál., hefi jeg sjerstöðu að því er hússtæðið snertir. Jeg álít ekki tiltækilegt að reisa húsið á mentaskólalóðinni. Vegna hollustuhátta þurfa svona hús að vera björt og rúmgóð og helst íþróttasvæði úti við, sem nemendur hafi aðgang að. Það er ekki nægilegt, að hugsa eingöngu um rúm til lesturs og svefns. Það verður að búa svo um, að nemendur uni hag sínum vel og geti lifað heilbrigðu lífi, notið útivistar og íþrótta. Jeg mundi telja æskilegt, að húsið stæði svo sem 15 mínútna gang frá skólanum, helst utan við bæinn. Nemendur mundu njóta þar miklu betra næðis, heldur en ef húsið væri reist á lóð skólans, enda kemur ekki til mála, að það geti staðið þar, vegna þrengsla. Það hlyti líka að skyggja á aðalhúsið, sem er gamalt og gluggar helst til litlir. Orðalagsbreytingin „nemenda“ fyrir „námsveina“ er eðlileg. Jeg skal þó taka fram hjer, að jeg álít, að það hefði of mikinn kostnað í för með sjer að byggja hús bæði fyrir pilta og stúlkur. Það þyrftu að vera tvö hús eða a. m. k. tvær álmur. En það kemur varla til þess, að svo margar utanbæjarstúlkur sæki skólann, að til mála komi að byggja þeirra vegna. Það væri þá betra, að veita þeim nokkurn styrk eða fá þeim vist á væntanlegu kvennaheimili, sem gert er ráð fyrir, að upp verði komið 1930. Þó að jeg vænti þess, að heimavistin komist upp sem fyrst, geri jeg varla ráð fyrir, að hún komi fyr. Krafan um að fá nýja heimavist í stað hinnar gömlu, sem ekki þótti allskostar góð, er fjarri því að vera ný. Þeir, sem voru í gömlu heimavistinni, telja ilt, að hún skyldi leggjast niður, þó gölluð væri. Þeim finst með núverandi skipulagi hvergi griðastaður fyrir nemendur. Jeg mótmæli því algerlega, sem felst í áliti hv. minni hl., að þetta frv. sje ófyrirsynju fram borið. Slík ummæli eru alveg út í bláinn. Þá er það líka tekið fram í nál. minni hl., að frv. þetta hafi verið borið fram, án þess að bera það undir rektor mentaskólans. Þetta er engin ástæða á móti frv., og mjer var persónulega kunnugt um, að rektor var oftar en einu sinni búinn að leggja til, hvað gera ætti í þessu efni, og hann hefir ekki verið einn um þá skoðun, að nauðsyn bæri til, að koma upp heimavist við mentaskólann, heldur hefir það um langt skeið verið áhugamál fjölda kennara og fleiri manna út um land.

Sú tilgáta, að frv. þetta sje komið fram mestmegnis til þess að telja fyrir því, að þroskaðir piltar, sem aðallega styðjast við vinnu sína, fái aðstöðu til þess að nema til stúdentsprófs á Akureyri, er bara gripin úr lausu lofti, og því fjarri öllum sanni. Það er fjöldi þroskaðra pilta, sem stunda nám við skólann hjer, og er því engu síður þörf fyrir þá að geta notið heimavistar en hina, sem stunda nám á Akureyri.

Jeg skal svo enda mál mitt með því, að óska þess, að fjárhagur ríkissjóðs verði sem fyrst þess megnugur, að hús þetta geti komist upp, og jafnframt, að valinn maður verði til þess að veita því forstöðu. Vænti jeg svo, að deildin sýni máli þessu þann skilning, að afgreiða það sem fyrst.