14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. landsk. (JJ) hefir talað hjer langt mál til þess að andmæla þessu frv.; en jeg get verið stuttorður.

Hv. þm. fann að undirbúningi þessa máls. Kvað hann slæman. Teikningar vantaði o. s. frv. En fyrst er að ráða við sig, hvort húsið skuli byggjast eða ekki. Um lóð undir húsið er ekkert til fyrirstöðu, og hv. þm. veit, að það; hefir verið ákveðið, að byggja á lóð skólans hús í þessum tilgangi. Það er ekki rjett, að þessi ráðagerð hafi ekki verið borin undir rektor skólans. Jeg hefi áður upplýst, að þá er breytingin á mentaskólanum kom til greina, var meðal annars þetta atriði, heimavistir, borið undir hann, og hann kvað mjög æskilegt og enda ómissandi, að kleift reyndist að reisa þær. (JJ: Þá var miðað við alt annað fyrirkomulag). Skólinn var skóli eftir sem áður, og þörfin er jafnbrýn nú, þótt breytingin hafi ekki komist á. Jeg vildi ekki móðga rektor með því, að fara að spyrja hann, hvort hann hefði nokkuð skift um skoðun síðan. Þetta kom til tals hið fyrra sinn. En mjer er kunnugt um, að hann álítur þetta enn hið sama nauðsynjamál.

Háttv. 1. landsk. (JJ) segir kröfur í þessa átt ekki komna frá skólanum sjálfum. Jeg segi: þótt þær væru ekki þaðan, væru þær jafngóðar fyrir því, ef málið er á annað borð þarft og gott.

Samkvæmt sinni alkunnu rökfestu fór hv. 1. landsk. að tala um, að ástæðan fyrir þessum „fjörkipp í heimavistamálinu“ væri ótti við Akureyrarskóla. En jeg fyrir mitt leyti þekki ekki þann ótta og veit ekki, hvað væri á móti því, að hjer í Reykjavík þyrfti líka heimavistir, þótt Akureyrarskóli fengi rjett til þess að útskrifa stúdenta. Það tvent getur meira en samrýmst.

Háttv. 1. landsk. (JJ) álítur rjett að bægja fátækum sveitapiltum frá því, að geta tekið próf við mentaskólann í Reykjavík og hrekja þá endilega til Akureyrar, þar sem svo kynni að vera plásslaust fyrir þá, enda ekki sanngjarnt að heima af piltum, sem eiga heima á Suðurlandi, að fara norður til Akureyrar til þess að stunda sitt nám. Mentaskólakennararnir eru ekki ánægðir, fyr en skólinn fær gott heimavistahús fyrir fátæka sveitapilta.

Eins og vant er, fór hv. þm. (JJ) út fyrjr efnið og fór að vitna í atkvgr. um unglingaskóla úti um land. Hann sagði nýlega í blaði sínu, að íhaldsmenn hefðu grandað því máli, en gleymdi að geta þess, að fræðslumálastjóri, sem þó er ekki íhaldsmaður kallaður, greiddi atkvæði á móti því. Svo var það vanhugsað, að alveg var með ólíkindum. Meðal annars skyldi leitað upplýsinga hjá stofnendum skólanna, sem vitanlega eru löngu dauðir margir hverjir.

Þá fór hv. þm. að tala um stjórnina; hún hefði lagst á sitt eigið frv., þótt vitanlegt sje, að það er í nefnd, sem hv. þm. á sjálfur sæti í og leggur sjálfur mesta áherslu á, að það komi ekki fram. þetta er spegill af sannleiksást þessa hv. þm. (JJ), sem jeg get ekki stilt mig um að draga fram. Það sýnir sig og sannast af afskiftum þessa þings af mentamálum, að, ekki er minni áhugi fyrir þeim málum innan Íhaldsflokksins heldur en í flokki hv. 1. landsk. (JJ). En það er rjett eins og hann telji sig einskonar mentamálaguð hjer á landi, af því að hann hefir slysast til þess að vera skólastjóri í nokkur ár yfir 20–30 nemendum og hefir skrifað kenslubækur fyrir barnaskóla. Jeg get ekki fundið, að þetta veiti honum neinn rjett til þess að skoða sjálfan sig sem neinn mentamálaguð hjer á landi, og jeg tek ekki á móti neinum ákúrum frá honum í þessu efni. Jeg man ekki til þess, að fyrir lægju neinar teikningar af viðbót Laugaskólans, eins og hv. þm. (JJ) hefir haldið fram. (JJ: Jú, og teikningarnar eru eftir Jóhann húsameistara Kristjánsson). Nei, nei. — Annars hefði ekki verið til neins að leggja teikningarnar fyrir hv. 1. landsk. (JJ), því hann hefir ekki hið minsta vit á slíku; það verður í því efni að fara til manna, sem vit hafa á því. Enda þótt teikningar hefðu legið fyrir hv. 1. landsk. (JJ), þá hefði hann verið engu nær. Háttv. þm. (JJ) sagði, að Akureyrarskóli væri ekki mentaskóli, hliðstæður mentaskólanum hjer. Hann er þá í því efni kominn á sömu skoðun og háskólaráðið, eftir að hann hefir hugsað sig um. En hjer liggur ekki fyrir að ræða um fyrirkomulag mentastofnana okkar, og skal jeg því ekki fara nánar út í það, sem hv. þm. (JJ) sagði um skólafyrirkomulagið í Noregi. Út af því, sem hann sagði um aldurstakmarkið, skal jeg taka það fram, að það er reglugerðaratriði, sem altaf er hægt að breyta. Jeg hefi þegar bent hv. þm. (JJ) á þetta, svo að hann ætti að vita, að þetta er ekkert aðalatriði málsins. Honum fanst undarlegur fjörkippur í þessu heimavistamáli, þar sem engin þingmálafundargerð lægi fyrir um það. En hv. þm. (JJ) hefir oft komið fram með mál hjer á þingi, þó ekki lægi fyrir um þau þingmálafundagerðir. Annars er það um ýmsar þingmálafundasamþyktir, að þær eru þannig til komnar, að hv. 1. landsk. (JJ) býr þær til hjer, sendir þær fylgismönnum sínum úti um land og þar eru þær samþyktar með fáeinum atkvæðum, sendar þinginu og eiga að gilda hjer sem almennur þjóðarvilji.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að ekki ríkti góður andi í mentaskólanum milli nemenda og kennara, og nefndi hann því til sönnunar eitt margra ára gamalt dæmi. En þetta er ekki rjett hjá honum. Skólinn hefir látið margt gott af sjer leiða, aginn hefir verið góður og samkomulag milli kennara og nemenda ágætt. Þetta veit jeg betur en hv. þm. (JJ), þar eð jeg hefi verið nemandi í þessum skóla, en hann ekki. Ef hann hefði verið í skólanum, þá mundi hafa verið upprætt ýmislegt það úr fari hans, er sýnir svörtustu hliðar sálarlífs hans. Hann hefði lært þar meðal annars, að það er ekki rjett að gera meðbræðrum sínum upp illar hvatir. En það gerir hv. þm. (JJ) í hverju máli, sem andstæðingar hans bera fram, en hann er á móti. Honum hefði verið kend þar sú meginregla, að það er skylda mentaðs manns, að setja sig í spor þess manns, sem heldur fram öðru en hann sjálfur, og skoða hlutina frá hans sjónarmiði, en ekki gera honum upp hinar verstu hvatir.

Þó sagði hv. þm. (JJ), að kenslan í skólanum hefði verið ágæt, en það er talsvert mikið sagt, að segja að kensla skólans sje á g æ t. Sá skóli, sem hefir ágæta kenslu, er sannarlega á góðum vegi, og kenslan getur vissulega ekki verið ágæt, ef úlfúð ríkir milli kennara og nemenda. Þá kallaði hv. þm. (JJ) heimavistahúsið „hermannaskála“ og seinna í ræðu sinni „letigarð“, er rektor skólans gæti ekki haft umsjón með. Orðskrúðið hirði jeg ekki að átelja, en hitt vil jeg benda á, að jeg þekki margar heimavistir, þar sem skólastjóri getur ekki haft umsjón yfir, en þess gerist heldur ekki þörf, ef annar góður maður hefir hana á hendi. Jeg geri ekki heldur ráð fyrir, að rektor háskólans verði falið að hafa á hendi umsjón með stúdentagarðinum. Þá talaði hv. þm. (JJ) um það, að rjett væri að flytja mentaskólann að Reykjum í Mosfellssveit. En mjer virðist kenna í því undarlegrar mótsagnar hjá honum, þar sem hann vildi hafa kennaraskólann við Skólavörðuna, en mentaskólann vill hann hafa uppi í sveit. Ef æskilegt er, að mentaskólinn sje uppi í sveit, þá ætti engu síður að vera æskilegt, að kennaraskólinn væri þar. En þetta sýnir aðeins, að hv. þm. (JJ) hefir horn í síðu mentaskólans, en heldur kennaraskólanum fram. Held jeg, að þarna komi fram hjá hv. þm. (JJ) beiskjublandin eftirsjá yfir því, að hann skyldi ekki bera gæfu til þess, að njóta kenslu þessa skóla. Og jeg skil það vel. Jeg tel það skaða, að svo skyldi ekki verða. En ástæðan til þess, að hann komst ekki í skólann, mun hafa verið fátækt hans. Hv. þm. (J.T) ætti því að stinga hendinni í barm sjálfs sín í þessu efni, þá mundi hann ekki berjast á móti því, að fátækum piltum sje gert kleift að stunda nám við þennan skóla, með því að láta þá njóta heimavistar. Hv. þm. (JJ) sagði, að það væri rangt, að láta skólann þenja sig út eins og hann gerði nú. Jeg skal fúslega viðurkenna það, að aðsóknin að skólanum er orðin hið mesta vandamál. En hjer í Reykjavík, þar sem enginn almennur unglingaskóli er til, verður með einhverju móti að sjá unglingunum fyrir framhaldsmentun, og til þess er frv. um samskóla Reykjavíkur borið fram, að með honum verði dregið úr aðsókninni að hinum almenna mentaskóla. En hv. þm. (JJ) hefir spornað á móti því, að 1/5 hluti þjóðarinnar fái meira en barnaskólamentun. Samt ætlast hann til þess, að því sje trúað, að hann einn hafi vit á mentamálum á landi hjer.

Þá mintist hv. þm. (JJ) á landsspítalann, og skal jeg í því efni láta mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt um það mál. Þó álít jeg ekki úr vegi að minnast nokkrum orðum á afstöðu flokksmanna hans til þess máls. — Þegar í upphafi voru þeir þess mjög hvetjandi, að ráðist væri í að reisa spítalann, en nú, þegar byggingin er langt komin, þá heykjast þeir eins og blýdeigur hestskónagli og koma með till. um að fella niður alt fjárframlag til spítalans. Við íhaldsmenn vildum ekki byrja bygginguna fyr en samningar væru komnir á milli kvenna og landsstjórnarinnar um það, að trygging væri fyrir, að verkið gæti haldið áfram, en Framsóknarmenn ætluðu að ráðstafa söfnunarfjenu án samþykkis hlutaðeigandi kvenna.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. 1. landsk. (JJ) eigi erfitt með að tala mál þetta í hel, því enda þótt komið sje nálægt þingslitum, þá er þó nægur tími til þess að koma málinu í gegn, jafnvel þó hv. 1. landsk. (JJ) haldi nú langa ræðu í þriðja sinn.