14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Enn hefir ekki verið hrakið það, sem jeg sagði í ræðu minni, og tek jeg það sem sönnun þess, að málstaður minn sje góður. Jeg ætla mjer ekki að vera langorð, en vildi aðeins leiðrjetta skekkju, sem kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl. (JJ).

Það var í byrjun áætlað, að landsspítalinn mundi kosta 1200 þús. kr. En það má vel vera, að hann reynist dýrari. En ef marka má nokkuð á því, þá hafa útboðin reynst ódýrari en áætlað var, og þar sem vinnukaup og byggingarefni hefir lækkað í verði, þá má búast við því, að kostnaðurinn fari ekki fram úr áætluninni, sem gerð var 1925.

Jeg get ekki sjeð sambandið milli landsspítalans og heimavista mentaskólans; því vænti jeg, að hv. 1. landsk. (JJ) geri landsspítalamálinu ekki ógagn með tilhæfulausum getgátum og með því að skapa kostnaðargrýlur í sambandi við það. Að húsameistari ríkisins hafi sagt þetta við hv. þm. (JJ), má vel vera, en það hefir þá aðeins verið ágiskun hans, og húsameistari hefir þá ekki reiknað með því, að heitt vatn úr Laugunum yrði leitt í spítalann, en gert ráð fyrir, að kol yrðu notuð til upphitunar. Hann taldi frv., eins og það kom frá Nd., til bóta, að tekið er fram í því, að í heimavistahúsinu skuli vera íbúð handa kennara. Hv. 1. landsk. (JJ) má vera það kunnugt, ekki síður en mjer, að það er svo um heimavistahús, að það er langt frá því, að þau sjeu æfinlega reist í nánd við skólana. Í Englandi eru þau viða reist á góðu og björtu svæði, og jeg sagði, að svo þyrfti það að vera hjer, til þess að nemendurnir gætu með góðu móti iðkað þar allskonar íþróttir. Viðvíkjandi íbúðinni, þá er það sjálfsagt, að sá kennari, sem umsjón hefir með heimavistinni, hafi þar íbúð. Jeg álit ekki rjett af hv. þm. (JJ) að kalla þetta hermannaskála eða öðrum slíkum nöfnum. Hygg jeg, að það sje gert til þess eins, að spilla fyrir málinu. En það er ekki hægt að ónýta þetta mál, því það er gömul og nauðsynleg krafa, sem að vísu er hægt að tefja fyrir, en ekki drepa. Jeg fæ ekki sjeð, með hvaða rjetti hv. 1. landsk. (JJ) getur verið á móti heimavistum við mentaskólann, því að það væri í því efni ekki gert meira fyrir þann skóla en gert hefir verið fyrir gagnfræðaskólann á Akureyri, og fari svo, að Akureyrarskóli verði gerður að lærðum skóla, þá spái jeg því, að að því komi, að þar þurfi annaðhvort að reisa nýtt skólahús eða nýtt heimavistahús. Og þá verða stuðningsmenn þess skóla að fara sömu leið og nú er farin, að því er snertir mentaskólann í Reykjavík.

Þá var það ýmislegt fleira, sem hv. frsm. minni hl. (JJ) sagði, en hæstv. dómsmálaráðherra (MG) hefir svarað, svo að jeg hefi þar engu við að bæta. En það var þó eitt atriði í sambandi við samskólann, sem jeg vildi minnast á. Frv. um samskóla Reykjavikur liggur nú hjá mentmn. þessarar deildar. Hv. 1. landsk. (JJ) hefir komið fram með þær getsakir í minn garð og hv. samnefndarmanns míns, að við ætlum að svæfa frv. þetta, en það er tilhæfulaust. Hv. þm. (JJ), sem sjálfur er í mentmn., er kunnugt um það, að við höfum verið svo störfum hlaðin hjer á þinginu, að við höfum ekki getað annað þessu máli enn. Mjer vitanlega hefir enginn í nefndinni reynt að tefja málið.

Þá kastaði hv. þm. (JJ) því fram, hvaða áhrif heimavistin mundi hafa á landsspítalabygginguna. Jeg er sannfærð um, að bygging heimavistahússins hefir ekki nje má hafa nokkur áhrif á framhald þessa mikla nauðsynjaverks, sem öll þjóðin bíður eftir. Menn þurfa ekki að vera miklir fjármálamenn til þess að sjá, hversu vanráðið það væri fjárhagslega, ef stjórnin hætti nú við hálfnaða byggingu landsspítalans, sem þegar hefir verið varið til rúmum 400 þúsund kr., jafnvel þótt byrja ætti á annari nauðsynlegri byggingu. Geri jeg ekki ráð fyrir, að nokkur stjórn geri slíkt aðeins til málamynda.

Í trausti þess, að landsspítalinn tapi engu, þótt samþyktar verði heimavistirnar, hefi jeg gerst frsm. og flm. málsins.