24.02.1927
Neðri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

36. mál, bann gegn næturvinnu

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það mun viðurkent af þeim, sem til þekkja, að hafnarvinna hjer í Reykjavík mun vera einhver hin örðugasta og versta vinna hjer, og sjerstaklega hefir þetta átt sjer stað eftir stríðsárin. En það er munur á hafnarvinnunni. Það má segja, að vinna við verslunarskip sje ekki mjög frábrugðin annari vinnu, en aftur á móti er öðru máli að gegna um togaravinnuna, bæði vegna þess, hve mikla áreynslu menn verða að leggja á sig, og hve mikið er ýtt á eftir mönnum við vinnuna. Verst er þó við þessa atvinnugrein, að við hana er mjög mikil næturvinna og helgidagavinna, en sjerstaklega næturvinnan er ill fyrir heilsu manna. Það ber ekki sjaldan til við hafnarvinnu hjer í Reykjavik, að menn verða að vinna 24–48 tíma í striklotu. Ástandið hjer er mjög svipað ástandinu á togurunum, áður en hvíldarlögin gengu í gildi, og afleiðingin er sú, að þeir, sem að miklu leyti stunda þessa vinnu, verða fyrir heilsubresti. Það er algengt meðal verkamanna að heyra, að þeir veikjast við næturvinnu, og það er skiljanlegt, að þeir veikjast fyr og slitna við slíka vinnu heldur en aðra. En fyrir menn á ljettasta skeiði getur þetta gengið slysalaust, nokkuð fram eftir, en eldri mennirnir þola hana alls ekki. Nú er það líka að verða svo, að aldraðir menn, sem hafa stundað hafnarvinnu, eru að ganga úr leik, og að eingöngu yngri menn geta stundað þessa vinnu. Þetta hefir líka þá þýðingu fyrir verkamenn, að vinnan skiftist ójafnara niður en ella mundi. Þeir, sem mestir víkingar eru, sækja vinnu fast, ganga að henni nætur og daga, en þeir, sem ekki sækja hana nema á daginn, verða út undan. Afleiðingin fyrir útgerðarmennina af þessari næturvinnu. verður sú, að afköstin verða minni og vinnan dýrari heldur en vera mundi við reglubundna dagvinnu. Og það er ekki hægt að segja, að ekki sje hægt að komast hjá þessari næturvinnu, því að það hefir sýnt sig eina vertíð, að útgerðarmenn hafa algerlega slept þessari vinnu, af því að hún þótti þá of dýr. Þess vegna er það, að menn, sem stunda þessa atvinnu, óska þess, að hún sje afnumin með lögum. Reynt hefir verið, með samningum við útgerðarmenn, að fá þá til að sleppa alveg þessari næturvinnu, og síðast, þegar samningar voru gerðir, var því ekki illa tekið, heldur aðeins sagt, að það þyrfti að vera til undanþáguheimild, en í móti yrði að koma kauplækkun í dagvinnu. Verkamenn líta hinsvegar svo á þetta, að það eigi að vera eins og einn liður í verndarlöggjöf þeirri, sem þingið ákveði á móti misbeitingu á vinnuaflinu, en þeir þurfi ekki að kaupa sjer næturfrið með kauplækkun.

Frv. þetta fer fram á, að frá kl. 10 að kveldi til kl. 6 að morgni sje bönnuð þessi næturvinna; en að kvöldvinnan svokallaða er látin afskiftalaus. Lögreglustjóri getur veitt undanþágu frá þessu, þegar brýn nauðsyn þykir til. Maður getur hugsað sjer, að nauðsynlega þurfi að afgreiða skip, t. d. þegar á að senda skip til björgunar, en annars mundi ekki mikið gert að því, að veita slíkar undanþágur.

Jeg skal leyfa mjer að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn., að umr. lokinni. Vona jeg, að hv. deild taki því vel.