24.02.1927
Neðri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

36. mál, bann gegn næturvinnu

Jón Ólafsson:

Það er hægt að taka undir það með hv. flm. (HjV), að vel má hætta þessari vinnu, og þar með gera alla sljetta og jafna, þannig að enginn skari fram úr öðrum. Það er í fullu samræmi við eina af hans aðalhugsjónum, að gera alla jafna, hvort sem þeir hafa unnið til þess eða ekki. Kemur það fram í þessu, að vilja banna mönnum að bjarga sjer með heiðarlegri vinnu. Þetta er svona álíka eins og samþykt væri í veiðistöðvum úti um land, að enginn mætti róa, nema allir gerðu það, eða bændur samþyktu, að enginn mætti þurka hey á sunnudögum, nema allir ynnu að því í einu. Það væri jöfnuður, og þá þyrfti enginn að öfunda annan, en svona er farið að því að drepa niður sjálfsbjargarviðleitni manna.

Þá vitnaði hv. flm. (HjV) í vökulögin svo nefndu, og sagði, að þau hefðu gert mikið gagn. Jeg var nú eiginlega aldrei á móti þeim, enda þótt jeg teldi þau óþörf. Þegar þau voru sett, var farið að tíðka fastan hvíldartíma á togurum; sjaldan var meira að gera en svo, að helmingur skipverja þyrfti að vera við vinnu, og gat hinn helmingurinn þá hvílst. En hvernig eru nú þessi lög framkvæmd? Ætli hv. flm. (HjV) viti það? Mjer er kunnugt um, að þau eru algerlega lögð á hilluna, þegar koma þarf miklum afla undan skemdum. Og það er gert með besta samkomulagi skipstjóra og skipverja. Þetta ber gleðilegt vitni um, að skynsemin fær að ráða meiru en æsingar „foringjanna“. En svo má lengi sverfa á þessu, að af verði eitthvað sögulegra heldur en þessir lagabálkar. Það getur endað með því, að allir vilji skjóta sjer undan að gera það, sem þeim ber að gera.

Það er ekki rjett, að verkamenn vilji fá lögboðið, að þeir eigi að sofa frá kl. 10–6. Þvert á móti. Mjer ætti að vera eins kunnugt og hv. flm. (HjV) um vilja þeirra í þeim efnum, eftir að hafa látið vinna og unnið sjálfur við höfnina í 30 ár. En hv. flm. (HjV) hefir víst sjaldan sjest á hafnarbakkanum, nema í kaupdeilum og æsingum.

Það er hægt að lögbjóða ómenskuna, og er það í fullu samræmi við margt, sem hv. flm. (HjV) hefir áður haldið fram. En jeg vona, að hv. deild sýni framsýni sína með því, að fella frv. strax.