25.02.1927
Efri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

40. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er gamall kunningi, því að það hefir legið fyrir á þremur þingum, en ekki átt því láni að fagna, að komast svo áleiðis, að það yrði samþykt. Er þó lítt skiljanlegur sá mótþrói, sem frv. hefir mætt, því að það er mjög meinlaust.

Lögin frá 14. nóv. 1917 heimiluðu, að ákveða mætti með reglugerð lokunartíma sölubúða í kaupstöðum. Þau voru mjög umdeild á sínum tíma, en reynslan hefir nú sýnt, að meiri regla hefir komist á í kaupstöðunum en áður var, svo að lögin hafa náð tilgangi sínum. Áður var búðum haldið opnum alt fram til miðnættis, en það varð til þess, að menn komu seint til að kaupa. Nú þykir það sjálfsagt í hverjum bæ, er reglu vill hafa hjá sjer, að lokunartími búða sje ákveðinn. En lögin frá 1917 þykja ekki nógu víðtæk, þar sem þau ná ekki til þeirra verslana, er versla með innlendar vörur, og ekki til ýmissa vinnustofna. Og það eru ekki þingmenn, sem eru að fitja upp á þessum hreyfingum, heldur hlutaðeigendur sjálfir. Rakarar hafa t. d. sótt það fast, að lögin nái til sín. Finst þeim nauðsyn að setja slíkar reglur og hafa fært sterk rök fyrir því, að það sje heilsuspillandi fyrir rakara að hafa eins langan vinnutíma og nú er. Á móti eru færðar fram þær ástæður, að það komi sjer vel fyrir menn að komast að á hvaða tíma dags sem er. Er það sama mótbáran og borin var fram 1917, gegn því, að samþykkja búðalokunarlögin, en reynslan hefir nú kveðið þá mótbáru niður.

Hjer ber þess að gæta, að í frv. sjálfu er engin takmörkun á vinnutíma. Það er ætlast til þess, að bæjarstjórnir geri samþyktir um það, hvenær þeim búðum og vinnustofum skuli lokað, er frv. tekur til.

Alþingi er því ekki, þótt frv. verði samþykt, ætlað að setja neinar fastar reglur um lokunartíma, heldur aðeins, að heimila hlutaðeigandi bæjarstjórnum að gera um þetta samþyktir, og slíkar samþyktir verður að bera undir stjórnaráðið til samþyktar, og það getur synjað staðfestingar á samþykt, ef því sýnist of nærri gengið. Málið sýnist því svo einfalt, að sjálfsagt sje að leggja þetta vald í hendur bæjarstjórna og ekki áhorfsmál að samþ. þetta frv. í framhaldi af því, sem áður hefir verið gert.

Það er óþarfi að tala mikið um málið, en jeg vænti þess, að hv. þdm. leyfi því að ganga áfram til nefndar og geri það að till. minni, að því verði vísað til hv. allshn., því að þar mun það eiga heima.