10.03.1927
Efri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

75. mál, ölvun embættismanna, skipstjóra o.fl

Flm. (Jónas Jónsson):

Meðan bannlögin voru í gildi, hefði ekki komið til mála að flytja slíkt frv. sem þetta, því að um leið og þjóðin ákvað að gera áfengi útrækt úr landinu, náði engri átt að gera ráð fyrir því, að embættismenn hennar og trúnaðarmenn ljetu störf sín bíða skaða við áfengisnotkun. Nú eru bannlögin afnumin, hjer eru ekki bannlög lengur, heldur takmörkuð sala áfengis, og frá 1915 hafa verið fleiri möguleikar til þess að koma við áfengissölu en ætla mætti, því að úr sumum lyfjabúðum og frá sumum læknum hefir runnið sterkur áfengisstraumur. Menn gátu ekki búist við því, að lyfjabúðir eða læknar mundu selja áfengi til nautna. Heimild þingsins náði aðeins yfir áfengi til meðala. Úr tveim áttum hefir verið sótt fram með áfengi. Annarsvegar hefir verið hið löglega áfengi, og á hinn bóginn hafa verið mikil brögð að því, að læknar og lyfjabúðir hafa aukið vínnautn í landinu. Þannig er áfengismálið nú komið inn á nýja braut. Áður en bannið var leitt í lög, var barist gegn áfengisnautninni af templurum og öðrum bannvinum, en þá var leyfilegt að selja allar tegundir vina. Nú er ekki leyfilegt að selja nema ljett vín, en sterk vín eru altaf seld meira og minna. Við þetta ástand hefir áfengismálið farið að horfa öðruvísi við en áður, þannig, að nú verðum við að glíma við óvininn í landinu sjálfu. Það er ekki hugsanlegt, að fyrst um sinn verði leyft að selja alt vín, nje heldur að alt áfengi. verði útilokað eins og gert var 1909. Óvinurinn er í landinu sjálfu, og verður nú þess vegna að byrja á nýjum vörnum. Það er þegar vöknuð sterk hreyfing víðsvegar um landið til þess að auka bindindi. Jeg skal ekki um segja, hversu haldgóð sú hreyfing verður, en svo mikið er víst, að mörg ár hefir ekki verið eins mikill áhugi fyrir bindindi og nú er. Einnig hafa komið fram ákveðnar óskir um það, að fækka sölustöðum áfengra drykkja. Það liggur fyrir þál. um, að þingið kreppi að með sölu Spánarvína, og sú krafa er í samræmi við óskir manna. Þetta sýnir, að hjer er talsverður þjóðarvilji til að halda óvininum í skefjum.

Samhliða þessum almennu tilraunum verður því ekki neitað, að talsvert hefir bólað á ugg um það, að ýmsir starfsmenn landsins gæfu ekki sem best fordæmi í notkun áfengis. Að vísu eru liðnar hjer um bil tvær aldir síðan það bar við á þingi á Þingvöllum, að einn af þektustu mönnum landsins var leiddur dauðadrukkinn milli þingstaðar og búðar. Það hjelst lengi vel, að einmitt embættismennirnir, sem áttu þó að gefa fordæmið, voru fram úr hófi drykkfeldir. Svo var til dæmis um fjölda marga presta. Og það var ekki fátítt, að slys yrðu af völdum áfengisnautnar. Nú hefir þetta breyst þannig, að það er alment álitið, að prestastjettin sje í fremstu röð meðal stjetta landsins um bindindi.

Það, sem þetta frv. stefnir að, er að hjálpa almenningsálitinu, sem er að myndast, til þess að halda ofnautn áfengis í skefjum, ekki einungis meðal embættismanna, heldur einnig manna, sem gegna ýmsum trúnaðarstörfum, svo sem skipstjórn, stýrimensku o. fl. Hjer geta verið mörg mannslíf í húfi, og hugsa jeg, að ekki verði deilt um það, að þjóðfjelagið hafi rjett til þess að gera meiri kröfur til slíkra manna en annara. Menn munu máske halda því fram, að ekki þurfi að óttast það, að embættismenn eða sýslunarmenn standi ekki í stöðu sinni vegna áfengisnautnar. En jeg held einmitt, að ástæða sje til að óttast það, og jeg hygg, að enginn þingmaður neiti því í alvöru, að hann viti þess dæmi. Það er ekki liðið nema rúmt ár síðan maður nokkur fótbrotnaði og var fluttur sjóleiðis til næsta kauptúns, þar sem hjeraðslæknirinn sat. Hans var leitað fram eftir deginum. Hafði hann verið við vín, svo að svefninn yfirbugaði hann og hann svaf þann dag allan, en um fótbrotið var ekki hægt að binda fyr en 12 tímum eftir að komið var með manninn á staðinn. Sem betur fer eru slík dæmi sem þetta undantekningar, en þó er það talið hafa komið fyrir lækni, að hann gat ekki hjálpað konu í barnsnauð, af því að hann fjell dauðadrukkinn niður á sængina hjá henni. Jeg hugsa, að allir geti verið mjer sammála um, að heiðarlegir embættismenn þurfi ekki að vera móðgaðir af þessu frv. það er ekki þeirra vegna, sem það er fram komið.

Af því að íslenska þjóðin er mjög vínhneigð, eins og flestar norrænar þjóðir, held jeg, að þessi hv. deild muni vera það mikið í samræmi við þá áfengisvarnaröld, sem nú er uppi í landinu, að samþykkja þetta frv., bæði vegna hins beina og óbeina gagns, sem af því mun leiða. Eftir að löggjöfin er búin að segja skýrt og skorinort, að áfengisnautn sje hættuleg fyrir þjóðfjelagið, verður það án efa til þess að breyta almenningsálitinu í landinu.

Jeg get ímyndað mjer, að fram komi frá fleiri mönnum hjer í hv. deild, sem áhuga hafa á þessu máli, tillögur um að herða á frv. og láta það ná til fleiri manna. Hlutverk væntanlegrar nefndar er einmitt að athuga slíkar tillögur og samræma þær frv. Mjer er það ekkert kappsmál, að frv. mitt verði samþ. algerlega óbreytt eins og það nú liggur fyrir. Jeg vil aðeins hafa lög um þetta efni sem fullkomnust og best.

Jeg geri ráð fyrir, að frv. ætti að fara til allshn.umr. lokinni.