10.03.1927
Efri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

75. mál, ölvun embættismanna, skipstjóra o.fl

Flm. (Jónas Jónsson):

Enn hefir hæstv. ráðh. (JÞ) flaskað á þessu máli. Fyrst og fremst lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. (JÞ) hafi ekki litið á frv. sjálft, því að þar er talað um skipstjóra meðal annars, og nú veit hæstv. ráðh. (JÞ), að af þeim eru ekki nema sárafáir í þjónustu ríkisins; það eru miklu fleiri í þjónustu einstakra manna, og ennfremur er tekið fram um lækna, sem eru í einkaþjónustu, að sama gildi um þá. Þess vegna er það auðsjeð, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefir ekki lesið frv. og veit ekki, hvað í því stendur, en rjettara væri, að hann kynti sjer efni þess, því að það er í sjálfu sjer önnur sönnun á móti því, sem hæstv. ráðh. (JÞ) hefir komið með. Ennfremur niun hæstv. ráðh. (JÞ) kannske vera kunnugt um það, að það er mikill munur á því, hvort maður er einkabilstjóri eða hvort hann stýrir blaðinni farþegabifreið, af því að í fyrra tilfellinu getur hann aðeins orðið sjálfum sjer að bana, án þess að saka aðra, og þar í liggur aðalmunurinn. Þetta er þess vegna algerlega rangt hjá hæstv. ráðh. (JÞ), og jeg verð að telja það mjög óheppilegt, ekki síst, þegar nú er um það að ræða,hvort hæstv. ráðh. (JÞ) sje nú sama sinnis eins og þegar hann var að útvega kjörfylgi hv. fylgismönnum íhaldsflokksins, sem kosnir voru í haust, og þegar hann leitaðist við að sýna fram á, að áfengisvarnirnar væru ekki annarsstaðar betur framkvæmdar en hjá þeim flokki. En það er nú ekki nóg með það, að hæstv. ráðh. (JÞ) hafi gleymt bifreiðarstjóralögunum, heldur hefir hann líka gleymt lagafrv., sem hann tók sjálfur þátt í að búa út í vetur og nú liggur fyrir þessu þingi. Þar leyfir hæstv. ráðh. (JÞ) sjer að gera þann mun. að bankastjóri við Íslandsbanka, sem skipaður er af ríkisstjórninni, missi viss rjettindi, en bankastjóri, sem skipaður er af hluthöfum bankans, heldur þeim. Jeg býst við, að ýmsir geti mælt með slíkri aðferð, eins og hæstv. ráðh. (JÞ) tók fram, en þetta sýnir jafnvel hvernig hæstv. ráðh. (JÞ) neyðist til að gera upp á milli manna, sem vinna sama verk. Annars sýnir þetta ekki annað en það, að hæstv. ráðh. (JÞ) er horfinn frá þeirri kenningu, sem hann setur hjer fram, og fremur einmitt mestu rangindin sjálfur, en aðalröksemdin, sem eyðileggur rök hæstv. ráðh. (JÞ) er einmitt sú, að frv. á þskj. 120 nær jafnt til starfsmanna ríkisins og þeirra, sem eru í einkaþjónustu, en það eru margir tugir manna og ef til vill hundruð manna, sem það nær til, sem ekki eru starfsmenn ríkisins. Jeg vildi þess vegna yfirleitt gefa hæstv. ráðh. (JÞ) það ráð, áður en han lætur ljós sitt skína, að hann vildi lesa frv., svo að hann væri viss um efni þess, áður en hann fer að tala um það.