08.03.1927
Efri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

77. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson:

Jeg verð nú að segja það, að þó maður geti átt von á að sjá sitt af hverju frá háttv. 1. landsk. (JJ), þá varð jeg þó hissa, er jeg sá þetta frv. Jeg vissi ekki betur en hann væri sammála öðrum þm., er útflutningsgjaldið var hækkað um á þinginu 1925, í því skyni að styrkja ræktunarsjóðinn um ákveðið tímabil og strandvarnirnar á eftir. Ræktunarsjóðurinn hefir nú þegar fengið allmikið fje eftir þeim lögum; árið 1925 fjekk hann hátt á þriðja hundrað þúsund kr., og þó það væri ekki jafnmikið á árinu 1926, þá er áætlað, að það muni ekki miklu. Það horfir því nokkuð einkennilega við, að þegar sá tími er nýgenginn í garð, sem hið hækkaða útflutningsgjald skiftist á milli ræktunarsjóðsins og strandgæslunnar, þá skuli sá hv. þm., sem telur sig forkólf bænda, leggja til, að þessu verði breytt og þar með rofið það samkomulag, sem svo að segja nýskeð var ákveðið. Jeg vildi því nota tækifærið til þess að mótmæla því, að það sje rjettmætt, sem hv. flm. (JJ) fer fram á með þessu frv. sínu, og þá um leið vikja að því, sem hann segir í greinargerð frv., að á síðastliðnu þingi hafi verið ljett af sjávarútveginum skatti af olíu, kolum, salti og síldartunnum.

Þetta mætti nú skiija svo, að enginn skattur hvíldi á vörum þessum, en allir, sem nokkuð þekkja til þessara mála, vita, að svo er ekki, heldur var tollur þessi lækkaður lítilsháttar með breytingu þeirri, er gerð var á síðasta þingi. Það viðurkendu víst allir, og gera enn, nema ef vera skyldi hv. flm. (JJ), að alt of þungur tollur hvíldi þá orðið á sjávarútveginum, einkum þó á kolum og salti.

Það er fjarri mjer að mæla á móti því, að landbúnaðurinn eigi örðugt uppdráttar. En það á sjávarútvegurinn engu síður. Á hitt ber líka að líta, að útflutningsgjaldið kemur ekki eins illa niður á landbúnaðinum eins og gjald það á sjávarútveginum, sem hækkað var í fyrra.

Jeg get ekki sjeð, að landbúnaðinum sje neinn greiði gerður með frv. þessu, sjerstaklega þó, er þess er gætt, að það stefnir að því, að rjúfa það samkomulag, sem orðið var milli þm. um það, hvernig verja skyldi útflutningsgjaldinu. Það má svo að orði kveða, að fulltrúar atvinnuveganna hjer á þingi hafi komið sjer saman um það með lögum frá 1925. Hv. 1. landsk. (JJ) kemur nú með frv. til þess að rjúfa þetta samkomulag, því að frv. hans ríður algerlega í bága við það, sem þá var samþykt.