08.03.1927
Efri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

77. mál, útflutningsgjald

Flm. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði ósæmilegt af mjer að leggja til að breyta útflutningsgjaldslögum frá 1925, af því að jeg hefði þá verið með að samþ. þau. En þetta er hvorki nýtt nje einsdæmi, að aðstaða til mála breytist eftir breyttum kringumstæðum. Jeg get í þessu sambandi bent á hæstv. atvrh. (MG), sem er höfundur skattalaganna frá 1921, en varð þó fyrstur manna til að breyta þeim á þinginu 1924. Síðan hafa margir íhaldsmenn verið með því undanfarandi ár að leggja toll á kol, olíu, salt, tunnubönd o. fl., en koma svo með breytingu á þeim tollum í fyrra, svo að jeg get ekki betur sjeð en að hjer sje um loflegt fordæmi að ræða fyrir mig, sem þetta frv. flyt, og það sje bein afleiðing þess, sem gert var hjer í fyrra.

Annars má hv. þm. Vestm. (JJós) halda við þá barnatrú sina, að lögin frá 1925 hafi verið sá órjúfanlegi sáttmáli, sem ekki megi breyta, en eigi að standa um aldur og æfi. En hitt vil jeg segja, að bændur hafa nú þegar greitt óþarflega mikið fyrir strandvarnir, sem spurning er þó um, hversu hagkvæmlega eru reknar. Enda vil jeg benda honum á. ef hann ekki man það, að jeg hefi yfirleitt betri skilning á strandvörnum, og hefi litið með dálítið meiri sanngirni á þörf þeirra, heldur en hv. þm. Vestm. (JJós), þegar honum verður að einhverju leyti litið til landbúnaðarins. Og þessu til sönnunar skal jeg geta þess, að í fyrra sendi formaður Björgunarfjelags Vestmanneyinga mjer sjerstakt þakkarskeyti fyrir afskifti min af strandvarnarmálum landsins.

Hv. forsrh. (JÞ) og hv. þm. Vestm. (JJós) hafa ekki getað hrakið, að breyta þurfi útflutningsgjaldinu landbúnaðarins vegna, og að þar sje óhæfilegur grundvöllur, sem bygt er á, meðan saltkjötsmarkaðurinn er eins og stendur, að 1/3 af allri framleiðslunni selst innanlands. Og þó ætlast sumir til, að kjöttollurinn verði varanlegur skattur, er gí.ngi til þess að greiða kaup handa óþarfa yfirmönnum á strandvarnarskipunum.

Hv. þm. Vestm. (JJós) þótti í fyrra of hátt gjald af koluin og salti, vegna sjávarútvegarins, sem ekki gæti risið undir því. Nú líta bændur svo á, að of hátt sje á sjer, og að röðin sje komin að landbúnaðinum, að þar verði einnig ljett á gjöldunum, eins og bráðum mun koma á daginn við atkvgr.

Og jafnvel þó að frv. verði samþ., þá er fjarri, að kröfum bænda um að ljetta skattabyrðum af landbúnaðinum sje fullnægt, og þó að ræktunarsjóður yrði aukinn og margfaldaður.

Jeg vildi benda hv. þm. Vestm. (JJós) á það, að ef hann vildi kynna sjer afstöðu bankanna til atvinnuveganna, þá mundi honum verða ljóst, að hvergi er um jafngífurleg töp að ræða eins og hjá þeim atvinnuveginum, sem hann er fulltrúi fyrir. Þar hefir þúsundunum, tugum þúsunda og miljónum verið fleygt í sjóinn. Og nú er verið að tala um nýtt miljónalán, sem taka eigi til þess að fleygja í þessa botnlausu hít. En vegna þessara miljónatapa útgerðarinnar er svo landbúnaðurinn að sligast undan ósanngjörnum sköttum og alt of þungum vaxtakjörum.